Ingólfur Aðalsteinsson fæddist á Hamraendum í Miðdölum 10.10. 1923 en ólst upp í Brautarholti í Dölum. Foreldrar hans voru Aðalsteinn Baldvinsson, kaupmaður í Brautarholti, og Ingileif Sigríður Björnsdóttir

Ingólfur Aðalsteinsson fæddist á Hamraendum í Miðdölum 10.10. 1923 en ólst upp í Brautarholti í Dölum. Foreldrar hans voru Aðalsteinn Baldvinsson, kaupmaður í Brautarholti, og Ingileif Sigríður Björnsdóttir.

Eiginkona Ingólfs var Ingibjörg Ólafsdóttir, húsmóðir og bókasafnsvörður. Þau eignuðust sex börn.

Ingólfur lauk stúdentsprófi frá MA 1946, cand. phil.-prófi frá HÍ 1947 og prófi í veðurfræði frá Sveriges Meterologiska och Hydrologiska Institut 1949. Ingólfur starfaði á Veðurstofu Íslands 1949-75, lengst af á Keflavíkurflugvelli.

Hann sat í bæjarstjórn í Njarðvík og átti sæti í fjölda nefnda á vegum bæjarfélagsins.

Ingólfur var forstjóri Hitaveitu Suðurnesja 1975-92. Þar komst hann í kynni við heilsueflandi mátt kísilmettaðs affallsvatns hitaveitunnar og í blaðagrein, árið 1983, undir heitinu Bláa lónið, kynnti hann hugmyndir sínar um heilsutengda starfsemi í Svartsengi og hvatti hagsmunaaðila til að sameinast um uppbyggingu heilsustöðvar, sem byggði á lækningarmætti lónsins. Framtíðarsýn Ingólfs átti eftir að raungerast.

Ingólfur lést 25.3. 2012.