Framkvæmdir Breytingar á gatnamótum Sæbrautar og Kleppsmýrarvegar/Skeiðarvogs leggjast ekki vel í fyrirtæki í grennd sem telja þær misráðnar.
Framkvæmdir Breytingar á gatnamótum Sæbrautar og Kleppsmýrarvegar/Skeiðarvogs leggjast ekki vel í fyrirtæki í grennd sem telja þær misráðnar. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Allt sem menn óttuðust hefur ræst. Nú liggur bæði almenna bílaumferðin og þungatraffíkin inn í Vogabyggð, íbúðahverfi með 30 kílómetra hraða,“ segir Árni Stefánsson forstjóri Húsasmiðjunnar.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Allt sem menn óttuðust hefur ræst. Nú liggur bæði almenna bílaumferðin og þungatraffíkin inn í Vogabyggð, íbúðahverfi með 30 kílómetra hraða,“ segir Árni Stefánsson forstjóri Húsasmiðjunnar.

Framkvæmdir hófust nýlega við breytingar á gatnamótum Kleppsmýrarvegar/Skeiðarvogs og Sæbrautar. Áformunum er ætlað að stuðla að bættu umferðaröryggi en þau fela meðal annars í sér að fella niður aðra af tveimur vinstri beygjuakreinum frá Kleppsmýrarvegi til suðurs inn á Sæbraut. Þar fara vöruflutningar um frá ýmsum stórfyrirtækjum og teppur hafa myndast á álagstímum.

Morgunblaðið fjallaði um þessi áform í vor en í umfjöllun blaðsins komu fram varnaðarorð frá hagsmunaaðilum á svæðinu. Mörg stór fyrirtæki eru með starfsemi í nágrenni gatnamótanna, svo sem Aðföng, Samskip og Lífland auk stórverslunar Húsasmiðjunnar og Blómavals svo stiklað sé á stóru. Miklir vöruflutningar tengdir þessum fyrirtækjum auk umferðar viðskiptavina þeirra og íbúa í hinu nýja hverfi Vogabyggð fara um umrædda gatnabyggð. Kvartað var yfir því að gatnamótin hafi vart annað umferðinni fyrir og muni alls ekki gera það ef akreinum verður fækkað. Árni segir að greinilega hafi ekki verið hlustað á þau varnaðarorð.

„Það hefur verið umferðarteppa hér síðustu vikurnar, bæði inn og út úr hverfinu en þó aðallega út úr því. Ég get nefnt sem dæmi að þegar ég fer úr vinnu er ekki óalgengt að það sleppi kannski 1-2 bílar yfir Sæbrautina á ljósunum eftir að þrengt var niður í eina beygjuakrein. Það segir sig sjálft að þegar gatnamótin hleypa ekki meiru í gegn er allt í stöppu hérna.“

Fulltrúar fyrirtækja á svæðinu funduðu með fulltrúum borgarinnar í vor vegna málsins. Árni upplýsti í frétt blaðsins í kjölfarið að Einar Þorsteinsson formaður borgarráðs hefði á fundinum sýnt áhyggjum þeirra skilning og lofað að málið yrði kannað betur og formlegt svar myndi berast í kjölfarið. Árni segir nú aðspurður að við þetta hafi ekki verið staðið. „Það var ekki gert í sumar. Þegar við heyrðum ávæning af því að þetta verk væri komið í útboð höfum við sent pósta í haust sem hefur ekki verið svarað.“

Eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu barst aðeins eitt tilboð í samsetningu og uppsetningu færanlegrar göngu- og hjólabrúar yfir Sæbraut við Snekkjuvog/Tranavog. Brúin á að auka öryggi umferðar á umræddu svæði. Árni bendir á að betur hefði farið á því að byggja umrædda brú áður en Vogabyggð væri fullbyggð með tilheyrandi fjölda íbúa. „Nýjasta sem ég heyrði var að til standi að bjóða brúna út aftur. Hún verður þá væntanlega ekki tilbúin fyrr en á seinni hluta næsta árs.“

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon