Dagur B. Eggertsson er firnagóður stjórnmálamaður sem hefur náð langt. Ótrúleg heift í garð borgarstjórans blossar upp með jöfnu millibili.
Dagur B. Eggertsson er firnagóður stjórnmálamaður sem hefur náð langt. Ótrúleg heift í garð borgarstjórans blossar upp með jöfnu millibili. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Hann er ekki stofnanaleg útgáfa af stjórnmálamanni, eins og of margir eru.

Sjónarhorn

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Það er ekki vinsælt á öllum vígstöðvum að tala vel um hinn ágæta borgarstjóra Dag B. Eggertsson. Samt skal það gert hér, þótt það kunni að valda tilfinningalegu uppnámi á einhverjum stöðum. Sú sem þetta skrifar þekkir mæta vel til þess hversu mikla reiði það getur vakið ef góðu orði er vikið að borgarstjóranum í pistlum og viðhorfsgreinum. Ef maður hefur um leið orð á því að ofurást Íslendinga á einkabílnum sé ekki af hinu góða og skapa eigi fleiri göngugötur í miðbænum þá á maður ekki von á góðu. Þannig geta beðið manns á vinnustað nafnlaus hatursbréf full af ásökunum um að maður sé einstaklega illa innrætt manneskja sem sé á mála hjá borgarstjóra, hatist við bílaeigendur og vilji leggja verslunarrekstur á Laugavegi í rúst, alveg eins og skúrkurinn Dagur B. Eggertsson. Engin undirskrift er á bréfunum en þeim lýkur venjulega á froðufellandi bölbænum þar sem manni er sagt að fara til andskotans. Sendingar eins og þessar afgreiðir maður einfaldlega sem heimskulegt ofstæki, lætur þær ekki trufla líf sitt og setur þær í ruslið þar sem þær eiga heima.

Enginn ætti að efast um að borgarstjórinn er hinn vænsti maður. Hann er alúðlegur, nær alltaf yfirvegaður, virðist réttsýnn og heiðarlegur og hefur greinilega áhuga á fólki. Hann er ekki stofnanaleg útgáfa af stjórnmálamanni, eins og of margir eru. Það ætti að vera erfitt að hatast út í þennan geðþekka stjórnmálamann en sumir gera það auðveldlega og heiftin hefur opinberast á ógeðfelldan hátt, eins og þegar skotið var á bíl borgarstjóra fyrir einhverjum misserum. Það hlýtur stundum að vera erfitt fyrir Dag B. Eggertsson að vita af svo miklu hatri í sinn garð, en hann ber sig vel og á góða innistæðu fyrir því. Hann hefur átt langan og farsælan feril og kannski einmitt vegna þessarar miklu velgengni opinberast harkan sem einhverjir sýna honum á svo öfgafullan hátt.

Stundum hefur því verið haldið fram að borgarstjórinn sé lítið fyrir að svara fyrir erfið mál og sendi aðra út af örkinni til þess. Það er samt þannig að borgarstjórinn mætir reglulega í viðtöl og fær vitanlega ekki alltaf þægilegar spurningar. Við þeim á hann alltaf svör og þau koma rólega og æsingalaust og virka yfirleitt sannfærandi. Staðreyndin er sú að Dagur B. Eggertsson er slyngur stjórnmálamaður sem ekki ætti að vanmeta. Hann er vitanlega ekki gallalaus og þjónusta hans við pólitískan rétttrúnað er viss ljóður á hans ráði. Nokkuð sem er reyndar áberandi einkenni á flestum vinstrimönnum og gerir þá suma ansi hvimleiða.

Borgarstjórinn hefur áhuga á fólki og sá áhugi opinberast oft á skemmtilegan hátt eins og gerðist nýlega vegna frétta af ósanngjarnri gjaldtöku á bílastæði fyrir bræðurna í Kjötborg í Vesturbænum. Borgarstjórinn sagðist vilja bjóða bræðrunum í kaffi og finna skjóta lausn á vanda þeirra. „Lifi Kjötborg!“ sagði borgarstjórinn, sem vill skapa fallega og notalega borg þar sem kaupmenn á horninu fá að dafna.

Nú er eins og maður heyri andstæðinga borgarstjórans hnussa fyrirlitlega og segja að þarna hafi Dagur B. Eggertsson séð enn eitt tækifærið til að koma sér á framfæri og styrkja ímynd sína. Þeim er frjálst að líta þannig á málið. Það er hins vegar ekki góð lífsregla að gera tortryggni að förunaut sínum í lífinu og leggja ágæta hluti út á versta veg. Borgarstjórinn brást fljótt og skjótt við þegar hann sá að reglugerð var að bitna á ósanngjarnan og íþyngjandi hátt á vinnusömum einstaklingum. Svona eiga stjórnmálamenn að vinna og fá hrós fyrir, hvar í flokki sem þeir standa.

Það er ekkert pláss fyrir umburðarlyndi eða skilning í pólitísku ofstæki þar sem einstaklingar verða að óvinum fyrir það eitt að vera ekki í „réttum flokki“. Dagur B. Eggertsson er stjórnmálamaður sem margir dá en aðrir fyrirlíta fyrir það eitt að hafa náð langt í stjórnmálum. Hann lætur senn af embætti borgarstjóra en engin ástæða er til að ætla að pólitískum ferli hans sé að ljúka. Hann á að eiga greiða inngöngu í landsmálapólitíkina, kæri hann sig á annað borð um það. Margir myndu örugglega fagna því að sjá hann á þingi.