Grensásdeild hefur hjálpað mörgum eftir erfið áföll

Fyrsta skóflustungan var í fyrradag tekin að nýrri viðbyggingu, sem rísa á við Grensásdeild, og er ætlunin að hún verði tekin í notkun árið 2027. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra sagði þegar skóflustungan var tekin að nýbyggingin væri langþráð viðbót við starfsemi deildarinnar og Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala, sagði að hún myndi valda straumhvörfum í þjónustu við sjúklinga.

Fyrr á þessu ári var haldið upp á að hálf öld er liðin frá því að endurhæfingardeild Landspítalans tók til starfa efst á Grensásnum í Reykjavík. Ásgeir Ellertsson var fyrsti yfirlæknir deildarinnar.

Hann sagði að menn hefðu gert sér grein fyrir að bráða- og slysaspítali eins og Borgarspítalinn, sem þá rak deildina, gæti ekki verið án endurhæfingarlækninga því að „markmiðið væri ekki aðeins að koma fólki í gegnum bráðaveikindi heldur einnig að stuðla að því að það kæmist aftur heim til sín og út í lífið á nýjan leik væri þess nokkur kostur“.

Um 50 þúsund manns hafa fengið endurhæfingu á Grensásdeild frá upphafi. Tækjakostur og aðbúnaður var í fyrstu fábrotinn og hefur margt breyst síðan. Deildin býr hins vegar við þröngan kost, pláss vantar fyrir tæki og húsnæðið ber því vitni að upphaflega var því ætlað að vera dvalarheimili fyrir aldraða.

Starfsemi Grensásdeildar er margbrotin. Þangað koma sjúklingar sem hafa misst færni vegna slysa, heilaskaða, heilablóðfalls, mænuskaða, útlimamissis, langvinnra taugasjúkdóma og krabbameins svo eitthvað sé talið.

Margir eiga góða sögu að segja af því starfi sem unnið er á Grensásdeild. Það er ótrúlegt hverju er hægt að fá áorkað með markvissri endurhæfingu.

Deildin hefur ekki aðeins notið góðs af opinberu fé, heldur hefur hún átt sína bakhjarla, góðgerðarsamtök og einstaklinga, sem hafa fjármagnað kaup á tækjum í áranna rás.

Oft er þar á ferðinni fólk sem hefur notið góðs af endurhæfingu á Grensásdeild og aðstandendur þess. Nú stendur einmitt yfir átak til stuðnings deildinni.

Grensásdeildin hefur hlotið viðurnefnið „litla kraftaverkadeildin“. Stækkun hennar er þarft framtak.