Þórshöfn Dawid Potrykus við grunn nýbyggingar sinnar við Langanesveg þar sem víðsýnt er yfir Þistilfjörð.
Þórshöfn Dawid Potrykus við grunn nýbyggingar sinnar við Langanesveg þar sem víðsýnt er yfir Þistilfjörð. — Morgunblaðið/Líney Sigurðardóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bygging íbúðarhúsa á Þórshöfn heyrir til tíðinda en íbúðarhúsnæði var síðast byggt fyrir rúmum tíu árum á vegum fyrirtækis. Lengra er þó síðan einstaklingur byggði sér hús eða rúm þrjátíu ár. Tvö einbýlishús eru nú í smíðum og er þar að verki fyrirtækið Dawid smiður ehf

Úr bæjarlífinu

Líney Sigurðardóttir

Þórshöfn

Bygging íbúðarhúsa á Þórshöfn heyrir til tíðinda en íbúðarhúsnæði var síðast byggt fyrir rúmum tíu árum á vegum fyrirtækis. Lengra er þó síðan einstaklingur byggði sér hús eða rúm þrjátíu ár.

Tvö einbýlishús eru nú í smíðum og er þar að verki fyrirtækið Dawid smiður ehf. en eigandinn, Dawid Potrykus, hefur búið á Þórshöfn í fimmtán ár og á hér stóra fjölskyldu.Húsin tvö eru 80 og 120 fermetrar að stærð, bílskúr er sambyggður stærra húsinu en minna húsið er án bílskúrs. Dawid notar einingar frá Polynorth á Akureyri í sökkulinn og segir það þægilegan byggingarmáta, „Þetta er eins og legókubbaeiningar, gott að vinna með efnið sem einnig er vel einangrandi“. Hann ásamt sínum mönnum hér heima hefur unnið við byggingarnar.

Húsin sjálf eru úr timbri og Dawid flytur þau sjálfur inn frá Póllandi. Hann reiknar með að stærra húsið verði tilbúið í desember og hitt fljótlega eftir áramót ef veðrið er hagstætt. Hann telur að ekki verði erfitt að selja húsin en væntanlegir kaupendur munu hafa val um hvort þeir vilji fullbúið hús eða án gólfefna, innréttinga o.þ.h. og geta þá haft það að eigin smekk. Viðvarandi húsnæðisskortur hefur háð Þórshöfn í nokkuð langan tíma, hér er næg atvinna en húsnæði vantar svo frumkvæði Dawids bætir þar úr.

Hjá Ísfélagi Vestmannaeyja á Þórshöfn hefur síldarvertíðin gengið nokkuð vel þetta sumar en síðasta skip á vertíðinni kom til löndunar á fimmtudag með tæp 1.600 tonn af síld. Það er Sigurður VE sem á þennan síðasta síldarfarm en skipið var á veiðum fyrir austan land og liðu aðeins 30 klukkustundir frá því látið var úr höfn og þar til hann kom inn með fullfermi, landað beint í frystihúsið. Veiðar á Íslandssíldinni hefjast líklega kringum næstu mánaðamót, sagði Jón Axelsson skipstjóri, en undanfarin ár hefur hún veiðst vestur af landinu, út frá Faxaflóa og er því mun nær Vestmannaeyjum.

Haustverk í sveitum eru langt komin og lýkur trúlega í næstu viku, einnig slátrun. Fé kom nokkuð vænt af fjalli og smölun gekk óvanalega vel, sagði Þórður Úlfarsson á Syðri-Brekkum á Langanesi. Góð tíð í fyrri hluta septembermánaðar hafði þar mikið að segja. Þrátt fyrir mikla vætutíð í júlí náðust almennt mjög góð hey og bændur því ágætlega birgir af heyjum. Sú þróun hefur þó orðið að bændur eru almennt að fækka fé, flestir þurfa að bæta á sig annarri vinnu með bústörfunum, afkomu sinnar vegna, og verða þá að fækka fénu. Þetta er óboðleg þróun varðandi matvælaöryggi í landinu og teikn á lofti um fjöldagjaldþrot hjá sauðfjárbændum nema eitthvað breytist, sagði bóndinn á Syðri-Brekkum enn fremur. Sláturfé hefur fækkað um nærri þriðjung í sláturhúsi Fjallalambs á Kópaskeri á nokkrum árum og er það áhyggjuefni, að sögn bónda í Þistilfirði.

Góðar laxveiðiár eru í Þistilfirði og þrátt fyrir að þær séu almennt síðsumarsár þá gekk lax óvenju snemma. Vorleysingar í ánum stóðu ekki lengi og veiði var mjög þokkaleg í sumar og vel yfir meðallagi. Í Hafralónsá var laxinn kominn upp úr 20. júní, sem er með fyrra fallinu. Ekki varð vart við eldislax í Hafralónsá í sumar en í fyrrasumar veiddist þar væn eldislaxhrygna. Eitthvað sást þó af hnúðlaxi, að sögn veiðivarðar.

Betri dreifing virtist vera í ánni í sumar en áður og er það mjög gott, sagði formaður veiðifélagsins, Jóhannes Sigfússon. Stóru árnar þrjár í Þistilfirði fylgjast yfirleitt að í veiði en vel á fjórða hundrað laxa fékkst eftir sumarið. Fyrirhuguð er bygging nýs veiðihúss austan við Hafralónsá og hefst væntanlega næsta vor en töluverð forvinna fylgir því, svo sem skipulag, vegagerð, rafmagn á svæðið og fleira.

Höf.: Líney Sigurðardóttir