Íslandsmeistarar Valskonur tóku við Íslandsmeistaraskildinum eftir leikinn gegn Breiðabliki en þær hafa nú orðið meistarar þrjú ár í röð.
Íslandsmeistarar Valskonur tóku við Íslandsmeistaraskildinum eftir leikinn gegn Breiðabliki en þær hafa nú orðið meistarar þrjú ár í röð. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Breiðablik tryggði sér annað sætið í Bestu deild kvenna og þar með keppnisrétt í undankeppni Meistaradeildarinnar á næsta ári með því að sigra Íslandsmeistara Vals, 1:0, í lokaumferðinni á Hlíðarenda í gærkvöld

Besta deildin

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Breiðablik tryggði sér annað sætið í Bestu deild kvenna og þar með keppnisrétt í undankeppni Meistaradeildarinnar á næsta ári með því að sigra Íslandsmeistara Vals, 1:0, í lokaumferðinni á Hlíðarenda í gærkvöld.

Katrín Ásbjörnsdóttir skoraði sigurmarkið á 52. mínútu með glæsilegu skoti utan vítateigs en Blikar þurftu að tryggja sér stig til að hafa örugglega betur í baráttu við Stjörnuna um annað sætið.

Fyrir vikið skildu aðeins sex stig að Val og Breiðablik í tveimur efstu sætunum þegar upp var staðið en Valsliðið var þegar búið að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn þegar þremur leikjum var ólokið.

Íslandsbikarinn fór á loft á Hlíðarenda eftir leikinn og Valskonur létu ósigurinn ekki trufla fyrir sér sigurstundina. Þær eru á leið í leiki gegn St. Pölten frá Austurríki í annarri umferð Meistaradeildarinnar en fyrri leikurinn fer fram á Hlíðarenda á þriðjudagskvöldið.

Þróttarkonur þriðju

Á meðan tókst Stjörnunni hins vegar ekki að vinna Þrótt á heimavelli sínum í Garðabæ. Í staðinn skoraði Mikenna McManus sigurmark Þróttar í uppbótartíma leiksins og það þýddi að Þróttur hirti þriðja sætið af Stjörnunni á betri markatölu. Þróttarkonur jöfnuðu þar með sinn besta árangur frá upphafi en þær enduðu líka í þriðja sætinu árið 2021 og í fjórða sæti í fyrra. Þær eru búnar að festa sig í sessi í efri hluta deildarinnar.

Sextán ára í stuði

Sextán ára markvörður FH-inga, Herdís Halla Guðbjartsdóttir, var besti leikmaðurinn í markalausri viðureign Hafnarfjarðarliðsins gegn Þór/KA í Kaplakrika.

Herdís er í láni hjá FH frá Breiðabliki en hún spilaði með Augnabliki í 1. deildinni nær allt tímabilið.

Lokaröð liðanna var á hreinu fyrir leikinn en Þór/KA endar í fimmta sæti og FH í því sjötta. Þau fengu fullt af marktækifærum en var fyrirmunað að skora.

Bryndís best og markahæst

Verðlaunum í kjöri leikmanna deildarinnar var úthlutað áður en leikir gærkvöldsins hófust. Bryndís Arna Níelsdóttir úr Val, markadrottning deildarinnar, var kjörin besti leikmaðurinn.

Bryndís endaði langmarkahæst í deildinni með 15 mörk. Agla María Albertsdóttir varð næstmarkahæst með 10 mörk fyrir Breiðablik og síðan komu þær Andrea Mist Pálsdóttir úr Stjörnunni, Katrín Ásbjörnsdóttir og Birta Georgsdóttir úr Breiðabliki, Katla Tryggvadóttir úr Þrótti, Murielle Tiernan úr Tindastóli og Sandra María Jessen úr Þór/KA með átta mörk hver.

Katla og Þórður kosin

Katla Tryggvadóttir úr Þrótti, sem er 18 ára gömul, var kjörin efnilegasti leikmaðurinn, annað árið í röð, en hún var í áfram í stóru hlutverki hjá Þróttarliðinu.

Skagamaðurinn Þórður Þorsteinn Þórðarson var kjörinn besti dómarinn af leikmönnunum, annað árið í röð. Vel gert hjá Þórði sem lagði fótboltaskóna á hilluna snemma árs 2022 og sneri sér að dómgæslu.