Andstæður Hvítir og ljósir litir eru allsráðandi í ríki Klingsors í óperunni.
Andstæður Hvítir og ljósir litir eru allsráðandi í ríki Klingsors í óperunni. — Ljósmyndir/ Wolfgang Menardi og Sandra Then fyrir Ríkisóperuna í Hannover
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Uppfærsla Ríkisóperunnar í Hannover á Parsifal eftir Richard Wagner í leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar hlýtur góðar viðtökur í þýskum miðlum

Uppfærsla Ríkisóperunnar í Hannover á Parsifal eftir Richard Wagner í leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar hlýtur góðar viðtökur í þýskum miðlum. Á vef Die deutsche Bühne skrifar Ulrike Kolter að í uppsetningu sinni á Parsifal bjóði Þorleifur upp á voldugar myndir. Þar sé hin grunnhyggna aðalpersóna, hinn hreini kjáni, ekki barnalegur, heldur taki sem drengur, fullorðinn maður og öldungur yfirvegaðar ákvarðanir um líf sitt: „En hvað getur hetja fært samfélagi sem ekki vill hjálpa sér sjálft?“

Kolter skrifar að kerfi vísana og áhrifaríkra táknmynda liggi betur fyrir íslenska leikstjóranum en hrokafullt kenningaleikhús. Þá elski áhorfendur það fyrrnefnda og það valdi því einnig hvað uppsetningar hans séu áhrifamiklar og ágengar. „Árið 2018 gerði hann hina íslensku þjóðargersemi Eddu að þokukenndu heimsendaleikhúsi í leikhúsinu Schauspiel Hannover og hreppti fyrir Þýsku leikhúsverðlaunin,“ skrifar Kolter. „Og nú hefur hann tekið fyrir sviðssjónarspil Wagners með sambærilegum krafti. Þessi Parsifal hefur áhrif á okkur vegna þess að hann er okkur ekki framandi.“

Á vef þýska tónlistarmiðilsins Concerti segir að Þorleifur láti með voldugri sviðsmynd erkitýpurnar, sem eru sögupersónur í Parsifal Wagners, renna saman við samtímann, goðsagnirnar, sem hafi enn staðið mönnum nær á tímum Wagners; teygi sig inn í það að mögulega sé heimsendir í nánd. Segir gagnrýnandinn Peter Krause að sviðsetning Þorleifs veki forvitni um hvað sé í vændum þegar hann stígi sín fyrstu leikstjórnarskref á Wagner-hátíðinni í Bayreuth á næsta ári þar sem hann mun leikstýra Tristan og Ísold.

Krause hrósar Þorleifi fyrir útfærsluna á hlutverki hins grunnhyggna Parsifals og lofar um leið sviðsmynd og flutning söngvara og hljómsveitar. Óperunni ljúki með opnum hætti og spurn þegar drengurinn Parsifal standi einn eftir á sviðinu og horfi á áhorfendur. „Og við getum spurt okkur: Á nú barn að bjarga heiminum? Hvernig getur það gengið upp? Maður finnur alveg fram að hinum myrku og björtu endalokum hversu ærlegur leikstjórinn er í glímu sinni við verk Wagners, hversu heiðarlega hann tekst á við eyðilegt ástand okkar tíma án þess að bjarga sér með tískuhækjum úr umræðu samtímans. Hann lýkur dóminum á því að segja að í Hannover sé að vænta kröftugs tónlistar- og leikhúskvölds, sem örvi til umræðu og fái áhorfandann til að fyllast aðdáun.

„Var ótrúlega stolt yfir landa mínum á sýningu Parsifal í Hannover í gær,“ skrifar Selma Guðmundsdóttir píanóleikari, sem er einn af stofnendum Richard Wagner félagsins á Íslandi, í færslu á Facebook-síðu sinni í vikunni. Þar rifjar hún upp að Þorleifur sé virtur leikstjóri í Þýskalandi og að öll umfjöllun í aðdraganda frumsýningarinnar hafi borið þess merki að spenna og tilhlökkun var í loftinu. „Fyrir utan fjölda leiksýninga, sem hafa vakið mikla athygli, hefur Þorleifur sett upp átta óperusýningar, þ.á m. bæði Lohengrin og Siegfried. Það vekur auðvitað furðu, eða ætti ég að segja hneykslan, að hann hefur ekki sett upp óperu hér heima,“ skrifar Selma og fer fögrum orðum um Parsifal.

„Söngvararnir voru allir sem einn frábærir. Athygli vakti að sami söngvari söng Amfortas og Klingsor, sem ég hef ekki vitað til áður. Michael Kupfer-Radecky, sem margir þekkja frá Bayreuth, söng þá báða og fórst það vel. Það má alveg sjá ákveðna lógík í þessari samtvinnun. […] Þetta var stórkostleg upplifun og með minnisstæðari uppfærslum á Parsifal og ekki skemmdi fyrir að hlusta á afar djúphugsað viðtal við leikstjórann á youtube.“

Þorleifur deilir færslu Selmu á Facebook-síðu sinni og rifjar upp að hún hafi sem formaður Wagner-félagsins boðið honum til Bayreuth 2016 og hún eigi því „sinn þátt í því hversu djúpt ég hef fengið að kynnast þessu magnaða tónskáldi og hugsuði!“ skrifar Þorleifur.