Sævar Guðmundsson leikstjóri og Mikel Pukri í haustdýrðinni á Íslandi.
Sævar Guðmundsson leikstjóri og Mikel Pukri í haustdýrðinni á Íslandi. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég var á virkilega vondum stað þegar við byrjuðum á þessu verkefni. Allt þetta ferli hefur verið mikil þerapía; ekki bara fyrir mig heldur fjölskylduna alla.

Mikel Pukri var að klára Gullna hringinn ásamt Sævari Guðmundssyni þegar fundum okkar ber saman og næsti áfangastaður er Bláa lónið. Hann er staðráðinn í að njóta hverrar mínútu í stuttri heimsókn sinni til Íslands enda hefur hann fram að þessu ekki borið gæfu til að ferðast mikið erlendis. „Ég er fæddur í febrúar og nýt greinilega kuldans. Það er alltaf bölvaður raki í Albaníu og hér er maður alveg laus við moskítóflugurnar,“ segir hann sposkur. „Þannig að Ísland er bara eins og heima. Þetta er dásamlegt land sem þið eigið, fossarnir, heitu hverirnir, svörtu sandarnir og allt hitt sem ég hef séð, og fólkið virkilega hlýtt og gestrisið. Ég kann líka að meta sögu ykkar, víkingana og allt það. Ísland hefur heillað mig upp úr skónum.“

Tilgangur heimsóknarinnar var að vera viðstaddur frumsýningu heimildarmyndarinnar Belonging eftir Sævar Guðmundsson og Kreshnik Jonuzi á kvikmyndahátíðinni RIFF um liðna helgi, ásamt móður sinni og systur, en þar er hermt af ótrúlegri lífsreynslu sem Mikel og fjölskylda hans urðu fyrir. „Þetta var ógleymanleg stund í bíóinu, mér leið eins og fólkið í salnum væri að upplifa alla þessa sögu með okkur. Þetta var líka sannkölluð uppskeruhátíð enda hafa Sævar og Kreshnik lagt líf og sál í þetta verkefni. Mér leið ekki eins og að ég væri að horfa á sjálfan mig, heldur að sjá þetta allt að utan. Það var undarleg upplifun.“

– Hafðirðu ekki séð myndina áður?

„Jú, einu sinni áður en þá var ég allan tímann með tárin í augunum. Þannig að segja má að þetta hafi verið í fyrsta skipti sem ég sá hana skýrum augum. Þetta var líka í fyrsta sinn sem systir mín sá myndina, þannig að tilfinningarnar flæddu þetta síðdegi.“

Mikil þerapía

– Hvaða þýðingu hefur allt þetta ferli, það er gerð myndarinnar, haft fyrir þig?

„Ég veit ekki hvar ég væri hefðu Sævar og Kreshnik ekki komið inn í mitt líf. Ég var á virkilega vondum stað þegar við byrjuðum á þessu verkefni. Allt þetta ferli hefur verið mikil þerapía; ekki bara fyrir mig heldur fjölskylduna alla. Þeir stóðu allan tímann þétt við bakið á mér, í og úr mynd, og voru fljótir að slökkva á myndavélinni þegar ég þurfti á því að halda. Nærgætni þeirra var algjör og þeir hjálpuðu mér mikið á mjög erfiðum tímum.“

Sævar og Kreshnik kynntust gegnum heimildarmyndagerð og þegar sá síðarnefndi vék þessari hugmynd að Sævari var hans strax freistað. „Það var nálgun þeirra sem sannfærði mig um að rétt væri að láta slag standa,“ segir Mikel. „Þeir vildu gera mynd um líf mitt í dag í stað þess að einblína bara á þolraunina sem ég gekk í gegnum. Fleiri kvikmyndagerðarmenn höfðu haft samband en Sævar og Kreshnik voru þeir fyrstu sem ég ákvað að hitta – samt með þeim fyrirvara að ég kynni að segja nei. Við smullum strax saman og ég sé svo sannarlega ekki eftir að hafa farið í þessa vegferð með þeim og þeirra fólki.“

Mikel fæddist í Albaníu árið 1997, sonur hjónanna Viktors og Netu Pukri. Þegar hann var fjögurra ára flutti fjölskyldan búferlum til New Jersey í Bandaríkjunum þar sem þau voru með tímabundið landvistarleyfi. Þegar það rann út ákváðu foreldrarnir samt að vera þar áfram næstu 17 árin sem ólöglegir innflytjendur. Hann á einn eldri bróður, Bepin, og eina yngri systur, Angelu, sem fæddist í Bandaríkjunum. Árið 2018 freistuðu foreldrar hans þess að sækja um græna kortið. Það fór ekki vel. Faðir hans var handtekinn og varpað í fangelsi.

Fjölskyldan ól þá von í brjósti að greiðast myndi úr flækjunni en það fór á annan veg. Dag einn, þegar Mikel var að lesa fyrir mikilvægt próf, fékk hann veður af því að verið væri að flytja föður hans í járnum úr fangelsinu og út á Newark-flugvöll. „Yfirvöldum ber að láta ástvini vita með 48 klukkustunda fyrirrvara þegar manni er vísað úr landi. Það var ekki gert. Klefafélagi pabba í fangelsinu hringdi og sagði að hann hefði verið bundinn eins og Pablo Escobar og að þeir væru væntanlega á leið með hann út á flugvöll. Ég var illa sofinn en dreif mig af stað með mömmu til að freista þess að fá að kveðja hann og láta hann hafa svolitla peninga, þannig að hann yrði ekki á götunni þegar hann kæmi til Albaníu. Pabbi hafði ekki svo mikið sem fengið stöðumælasekt fram að þessu, hann virti lögin í hvívetna, greiddi sína skatta og svo framvegis – að því undanskildu að hann var ólöglegur í landinu. Það var þyngra en tárum taki að sjá farið með hann eins og harðsvíraðan glæpamann.“

Mæðginin fundu föður Mikels á flugvellinum. Hann var járnaður á höndum og fótum og þrír lögreglumenn fylgdu honum. Mikel brá í brún en ákvað að nálgast þá. „Ég kom friðsamlega upp að þeim með faðminn opinn og sagði: Hvað er á seyði? Einn lögreglumannanna veittist strax að mér, ýtti í hálsinn á mér og sagði mér að drulla mér í burtu. Í hita augnabliksins kom það ekki til greina, þannig að ég smeygði mér eldsnöggt framhjá honum og náði að taka þéttingsfast utan um pabba.“

Þegar hér er komið sögu gerir Mikel hlé á máli sínu. Hann kemst við og tárin byrja að streyma niður vangann. Hann á greinilega enn erfitt með að rifja þetta upp.

Lögreglumennirnir reyndu strax að slíta Mikel frá föður sínum en hann er sterkbyggður og náði að halda takinu örstutt. „Ég veittist aldrei að þeim, þrýsti pabba bara fast að mér. Hann var höfuð fjölskyldunnar og sá sem tengdi okkur öll saman og nú var verið að senda hann úr landi án nokkurs fyrirvara. Svona gera menn ekki! Ég held að lögreglumennirnir hafi líka skynjað að ég ætlaði ekki að meiða nokkurn mann.“

Eftir að hann hafði sleppt takinu átti Mikel stutt samtal við lögreglumennina. „Ég lét vonbrigði mín í ljós. Sagði þeim að ég ætlaði að verða sjóliði í bandaríska hernum til að verja land mitt og þjóð og að þeirra hlutverk væri það sama. Ætli það hafi ekki komið við kaunin á þeim.“

Að því loknu ætlaði Mikel að halda heim til að þreyta prófið sem gilti 40-50% af heildareinkunn hans í sögu. Sumsé mikilvægt próf. „Mamma vildi ekki fara meðan pabbi var enn í byggingunni, þannig að ég ók einn af stað. Ég var ekki kominn langt þegar bróðir minn hringdi og sagði að búið væri að handtaka mömmu. Ég áttaði mig illa á því enda hafði hún ekkert gert á flugvellinum og aldrei reynt að nálgast pabba. Þetta var allt mjög ruglingslegt en einhver tjáði mömmu að kæmi ég aftur yrði hún látin laus. Hvað var þetta eiginlega? Gíslataka?“

Tvær grímur runnu á Mikel og hann velti fyrir sér hvort þetta væri í raun og veru sömu Bandaríkin og hann hafði alist upp í og unni heitt. „Ég átti ekki orð yfir þessa öfugsnúnu og spilltu framkomu. Þetta var hlið á landinu mínu sem ég hafði aldrei áður kynnst. Hvað varð um mennskuna? Fram að þessu höfðum við búið við fullkomið frelsi, fyrir utan að við gátum ekki farið úr landi og komið aftur.“

Þess má geta að í heimildarmyndinni sést óljóst úr öryggismyndavél hvað gerðist á flugvellinum. Mun þrengra skot af atvikinu var líka til, en þar til bær yfirvöld í Bandaríkjunum synjuðu beiðni kvikmyndagerðarmannanna um myndefni úr þeirri öryggismyndavél með þeim rökum að það myndi „tefla öryggi flugvallarins í tvísýnu og almennings sem um hann fer“.

Var aldrei ákærður

Mikel fór heim og fékk sér lögmann. Tveimur dögum síðar gaf hann sig fram og var handtekinn. Mikel var með DACA-stimpil í Bandaríkjunum, sem þýðir að ekki mátti senda hann úr landi þar sem hann var barn þegar hann kom ólöglega inn í landið. Lögmaðurinn taldi líklegast að hann yrði ekki ákærður og sleppt fljótlega. „Innflytjendadómarinn sem ég kom fyrir vildi láta mig lausan en sagði það ekki í sínum höndum. Bíddu nú við, í höndum hvers er það þá?“

Mikel var aldrei ákærður fyrir hegðun sína á flugvellinum. Eigi að síður mátti hann dúsa í fangelsi í sex mánuði – innan um harðsvíraða glæpamenn. „Það var ömurleg lífsreynsla og mjög niðurlægjandi fyrir mannsandann. Maður þarf að baða sig með öðrum, deila klósetti með öðrum og spyrja hvort maður megi gera þetta eða hitt, rétt eins og barn. Þarna voru morðingjar, fíkniefnasalar og allskyns gangsterar. Sá sem deildi klefa með mér hafði verið handtekinn 30 sinnum. Ég svaf fyrir ofan hann í pínulitlum klefa. Hann var mikið ólíkindatól, fínn einn daginn en trylltur þann næsta. Einu sinni sagði hann vörðunum að hann óttaðist að ég myndi meiða hann. Þeir voru hins vegar farnir að þekkja mig vel þarna og tóku hann ekki trúanlegan. Mér fannst alltaf óþægilegt að fara að sofa meðan hann var þarna.“

– Hvernig má þetta fyrirkomulag vera?

„Það er góð spurning. Menn komast upp með þetta vegna þess að tæknilega erum við ekki að tala um fangelsi, heldur varðhald. Það er eins konar „biðsalur“ fyrir menn sem bíða dóms og enginn á að dveljast þarna lengur en eitt ár. Það breytir ekki því að margir hafa verið myrtir á þessum stöðum. Yfirvöld innflytjendamála leigja helming þessa tiltekna fangelsins og mér skilst að dæmi séu um að þeir hafi haldið mönnum þarna í allt að þrjú til fjögur ár.“

– Óttaðistu um líf þitt þarna inni?

„Já, stöðugt. Kannski er dramatískt að segja það, en mér leið sannarlega þannig. Ég sneri aldrei baki í nokkurn mann og gætti orða minna. Þarna var hópur MS13-manna, sem er klíka frá El Salvador, og til allrar hamingju lenti ég fyrir hreina tilviljun réttum megin við þá. Fljótlega eftir að ég kom inn gaf ég manni súpuna mína og hann reyndist vera leiðtogi klíkunnar og eftir það héldu þeir hlífiskildi yfir mér.“

– Komu aðstæðurnar í fangelsinu þér á óvart?

„Já, ég get ekki sagt annað. Bandaríkin eru land þversagna. Þar er margt stórkostlegt að finna en um leið margt skelfilegt. Ég gæti ímyndað mér að fangelsin í Albaníu séu skárri en það sem ég kynntist þarna þó ég hafi sem betur fer ekki þann samanburð. Þetta var þrælahald, ekkert annað.“

Einn kostur var þó við dvölina í grjótinu. „Ég hafði mikinn tíma með sjálfum mér og á vissan hátt kynntist ég sjálfum mér betur. Ég las mikið, 156 bækur að mig minnir, og það flýtti fyrir þroska mínum. Á því er enginn vafi. Ég fann friðinn í bókunum mínum.“

– Hvers vegna varstu svona lengi í haldi?

„Ég held að það hafi verið persónulegt. Það heyrði ég bæði frá glæpalögmanninum mínum og innflytjendalögmanninum. Það var ekkert faglegt við þetta varðhald. Flugvöllurinn var fullur af fólki þennan dag og það hafði án efa áhrif. Þeir vildu kenna mér lexíu. Það stakk þá þegar ég sagði að þeir ættu að vernda fólk en ekki koma svona fram við það. Ég held að það hafi fengið þá til að líta í spegilinn – og þeir kunnu ekki við það sem blasti við þeim og vildu láta það bitna á mér.“

Það var ekki bara Mikel sem fór í fangelsi, móðir hans sat líka inni í þrjá mánuði. „Hún óskaði strax skriflega eftir flutningi úr landi eftir atvikið á flugvellinum og venjan er sú að við því sé orðið þegar í stað. En sennilega hafa þeir líka viljað sýna mömmu í tvo heimana, þannig að hún var lokuð inni enda þótt hún hefði ekkert gert af sér.“

– Hvernig vegnaði henni í fangelsinu?

„Hún hefur lítið viljað tala um það. Segir bara „ég er móðir og hugurinn minn var ekki hjá mér sjálfri heldur ykkur“. Þetta hefur ábyggilega verið erfitt fyrir hana og ógnvekjandi.“

Mikel hafði ekki hugmynd um hvað biði hans þegar hann losnaði úr prísundinni. Hann heyrði allskonar hluti en ekkert til að festa hönd á. Niðurstaðan varð sú að honum var vísað úr landi og sendur til Albaníu.

Honum gekk illa að aðlagast þar enda kom landið sem hann fæddist í honum spánskt fyrir sjónir. Auðvitað þótti honum gott að hafa móður sína og föður hjá sér en á móti kom að systkini hans urðu eftir í Bandaríkjunum.

„Ég aðlagaðist ekki í fyrstu, svo ég segi bara alveg eins og er. Menningarsjokkið var mikið. Ekki endilega landið sem slíkt, heldur fólkið. Það er allt öðruvísi, hvernig það hugsar, ber sig að, skólakerfið, vinnumarkaðurinn og þar fram eftir götunum. Þess utan kunni ég lítið sem ekkert í tungumálinu. Það þrífst mikil spilling í Albaníu og manni miðar hægt fram veginn þekki maður engan. Við vorum að snúa aftur eftir 17 ára fjarveru, þannig að ekki þekktum við marga.“

Eina konu gat hann þó stutt sig við, unnustuna Klaudiu. „Hún er verndarengill minn og enginn hjálpaði mér meira gegnum þessa erfiðu tíma. Foreldrar okkar hafa þekkst í 40 ár og mæður okkar komu okkur saman, að ég held. Mamma átti erfitt með að horfa á mig þunglyndan heima og tók mig einn daginn í ársbyrjun 2019 með sér á kaffihús og þar voru Klaudia og mamma hennar. Við smullum strax saman og fórum að hittast reglulega. Ég elska hana út af lífinu. Hún er mikið hreyfiafl í mínu lífi.“

Ekki bætti úr skák að systkinin urðu eftir í Bandaríkjunum. Angela bjó hjá Bepin, eiginkonu hans, Manuelu, og ungu barni þeirra. „Það var mjög erfitt fyrir okkur öll og pabbi þurfti að leika lögmann kölska vegna þess að hann vildi það sem Angelu væri fyrir bestu. Hún þekkti ekkert annað en lífið í Bandaríkjunum en á móti kom að börn á þessum aldri, 11 ára, þurfa á foreldrum sínum að halda. Þetta var líka strembið fyrir bróður minn sem misst hafði okkur úr landi en þurfti á sama tíma að hugsa um bæði sína fjölskyldu og Angelu.“

Niðurstaðan var sú að Angela kom til Albaníu og Mikel segir hana hafa aðlagast mun hraðar en hann gerði sjálfur. Hún sé mjög sterk ung kona með mikla aðlögunarhæfni. „En ekki segja henni að ég hafi sagt það,“ segir hann hlæjandi. „Það hjálpaði mér mikið að fá Angelu til okkar.“

Missti föður sinn úr covid

– Hvernig líður þér núna, fimm árum eftir komuna til Albaníu?

„Miklu betur, þakka þér fyrir. Ég hef aðlagast og tengt við ræturnar og hef það miklu betra en ég nokkurn tíma átti von á. Maður lærir og vex með fólkinu í kringum sig og núna stend ég líka betur að vígi eftir að ég lærði tungumálið. Albanía á sér mjög merkilega sögu, Ottómanveldið, stríðin, kommúnisminn og allt það, sem ég hef núna lært um. Svo varð ég fyrir öðru áfalli sem setti þessar aðlögunarhremmingar allar í samhengi og smækkuðu þær, satt best að segja.“

– Þá ertu að tala um fráfall föður þíns?

„Já, sem er erfiðasta lífsreynsla mín til þessa. Hann dó haustið 2021 úr covid-19. Heilbrigðasti maðurinn í fjölskyldunni sem aldrei hafði þurft á lyfjum að halda og reykti ekki. Við fórum í tvö brúðkaup og eftir það fann hann fyrir öndunarerfiðleikum. Við fórum með hann á spítala og læknarnir sögðu strax: „Hann fer ekki héðan!“ Lungun voru mjög illa farin. Pabbi barðist eins og hetja í þrjár vikur en allt kom fyrir ekki. Veiran tók hann.“

Mikel lauk háskólanáminu, sem hann hóf í Bandaríkjunum, í Makedóníu og er í dag menntaður hagfræðingur. „Kannski ekki mest spennandi starf í heimi,“ segir hann hlæjandi, „en góð gráða að búa að. Kannski vinn ég við það síðar en núna starfa ég hins vegar sem sölumaður.“

Spurður um framtíðina svarar Mikel: „Ég var vanur að plana allt en í dag læt ég hlutina meira hafa sinn gang. Ég meina, ég er á Íslandi núna.“

Hann hlær.

„Aðalplanið er að skipuleggja lífið með Klaudiu sem er læknir. Við höfum ekki ákveðið hvar við viljum búa og hver veit nema við prófum ólíka staði, til dæmis Ítalíu, þar sem Klaudia lærði, Nýja-Sjáland eða Ástralíu. Okkur langar að flakka svolítið, vegna þess að heimurinn er svo fallegur. Hann er svo miklu meira en bara Bandaríkin.“

Hann getur sótt um áritun sem ferðamaður til Bandaríkjanna árið 2028 en kveðst ekki vera að bíða eftir því. „Ég á ábyggilega eftir að fara aftur til Bandaríkjanna. Bróðir minn er þar og fjölskylda hans, þau eiga núna tvö börn. Þegar mér var vísað burt leið mér eins og heimili mitt væri rifið af mér en núna hef ég áttað mig á því að maður býr sér sjálfur til heimili, þar sem manni best hentar.“

– Hvaða tilfinningar berðu til Bandaríkjanna í dag?

„Þær eru blendnar. Ég ann landinu og flestum sem þar búa en á sama tíma er ég mjög vonsvikinn, frekar en reiður, yfir því hvernig farið var með fjölskyldu mína. Ég bjóst ekki við þessu í svona þróuðu ríki.“

Gæti þetta gerst á Íslandi?

Sævar Guðmundsson leikstjóri, sem situr með okkur, segir einmitt þetta hafa dregið sig að verkefninu. „Gæti þetta gerst hér á Íslandi? Yrði maður sem búið hefur í landinu frá fjögurra ára aldri, talar tungumálið og hefur aðlagast fullkomlega, sendur úr landi? Það get ég ekki ímyndað mér. Óréttlætið var svo mikið að ég gat ekki setið hjá. Það er mér mikils virði að hafa komið þessari sögu á hvíta tjaldið enda er fullt af þessum sögum og allt of mörgum stendur á sama. Okkur fannst líka mikilvægt, eins og Mikel kom inn á áðan, að hafa fókusinn á líf hans í dag, í fæðingarlandi hans, en ekki brottvísunina frá Bandaríkjunum sem slíka þó hún sé vissulega stór partur af sögunni.“

Tökur hófust 2019 og vinnslan tók drjúgan tíma. Í millitíðinni skall á heimsfaraldur sem Sævar festist bókstaflega í – hann gerði heimildarmyndaflokkinn Storm ásamt Jóhannnesi Kr. Kristjánssyni, sem sýndur var á RÚV fyrr á þessu ári. „Við settum þetta verkefni í bið á meðan en lukum því á þessu ári.“

Sævar kveðst lengi hafa viljað segja alþjóðlega sögu. „Maður heyrir áhugaverða sögu en þar með er ekki endilega sagt að söguhetjurnar standi undir athyglinni og beri uppi heila heimildarmynd. Við fundum hins vegar strax að sjarmi Mikels var ósvikinn og þegar við hófum tilraunaupptökur í Albaníu kom strax í ljós að við værum með frábært efni í höndunum. Þaðan fórum við til Bandaríkjanna og þvældumst svo fram og til baka næstu tvö árin.“

Sævar segir Albaníu mjög fallegt land og fólkið mjög viðkunnanlegt. „Útskýrt var fyrir mér að slæma fólkið fari frá Albaníu en það góða verði um kyrrt,“ segir hann og Mikel bætir við að það sé ákveðinn galli enda geti þetta skaðað orðspor lands og þjóðar, það er gjörðir Albana á erlendri grundu.

RIFF er fyrsta hátíðin sem Belonging er sýnd á (önnur sýning er í dag, laugardag kl. 12) en Sævar segir stefnuna hafa verið setta á sambærilegar hátíðir vítt og breitt. Þá liggur fyrir að myndin verður á endanum sýnd í Ríkissjónvarpinu. Hún verður líka í kvikmyndahúsum í New York í byrjun næsta árs.

Trump partur af sögunni

– Óttastu svipuhögg frá Bandaríkjunum?

„Ég veit það ekki. Upprunalega planið var að frumsýna myndina fyrir forsetakosningarnar 2020 enda er Donald Trump partur af þessari sögu. Þetta gerðist á hans vakt,“ segir Sævar og Mikel bætir við að ekkert umburðarlyndi-stefna (e. zero tolerance) Trumps sé í reynd grundvöllur þess sem kom fyrir hann. „Mikel hefði aldrei verið vísað úr landi hefði annar maður verið forseti og þess vegna er þetta fínn tímapunktur til að sýna myndina enda bendir allt til þess að Trump verði aftur í kjöri að ári,“ segir Sævar.

– Heldur þú, Mikel, að Trump verði kjörinn aftur?

„Ég óttast það, já. Hann hefur mikið fylgi og kann sem bisnessmaður að selja allskonar hluti. Við brenndum okkur illa síðast þegar hann var í embætti og glögglega kom í ljós að ekki er hægt að reka þjóðríki eins og fyrirtæki. Það eru nefnilega manneskjur í spilinu. Landið er raunar einmitt það, manneskjur. Það vantar alla mannúð í Trump, það hefur margsýnt sig. Vonandi opnar myndin augu einhverra.“