Akureyrarflugvöllur Verkefni Air 66N er að fjölga ferðamönnum.
Akureyrarflugvöllur Verkefni Air 66N er að fjölga ferðamönnum. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Hvorki Akureyrarbær né sveitarfélagið Norðurþing hyggjast styrkja Flugklasann sem staðið hefur að verkefninu Air 66N sem lýtur að því að koma á beinu millilandaflugi um Akureyrarflugvöll allt árið. Þetta kemur fram í fundargerðum sveitarstjórna sveitarfélaganna

Hvorki Akureyrarbær né sveitarfélagið Norðurþing hyggjast styrkja Flugklasann sem staðið hefur að verkefninu Air 66N sem lýtur að því að koma á beinu millilandaflugi um Akureyrarflugvöll allt árið. Þetta kemur fram í fundargerðum sveitarstjórna sveitarfélaganna. Styrkurinn sem sóst var eftir nam tæpum 11 milljónum króna samtals frá báðum á ári, en umsóknin tók til þriggja ára, þ.e. 2024-2026.

Flugklasinn Air 66N er samstarfsverkefni fyrirtækja í ferðaþjónustu á Norðurlandi, sveitarfélaga, stofnana og annarra hagsmunaaðila og hefur verið starfræktur frá árinu 2011. Flugklasinn hefur unnið að markaðssetningu Akureyrarflugvallar sem heils árs áfangastaðar fyrir millilandaflug. Markmið klasans hefur verið að fjölga ferðamönnum á Norðurlandi og lengja dvöl þeirra á svæðinu.

Í bókun meirihluta bæjarráðs Akureyrarbæjar um málið segir að ákveðið hafi verið árið 2022 að ljúka stuðningi við Flugklasann á þessu ári, en ítrekað að Akureyrarbær hafi verið dyggur stuðningsaðili verkefnisins frá upphafi. Töluverður árangur hafi náðst og áfram þurfi að sinna því. Telur bæjarráð farsælla að sá stuðningur verði í gegnum sameiginlegan stuðning sveitarfélaga og fyrirtækja á svæðinu við Markaðsstofu Norðurlands.

Í bókun fulltrúa minnihlutans er þessi niðurstaða hörmuð.

Í samþykkt byggðarráðs Norðurþings segir að ráðið hyggist ekki styrkja Flugklasann áfram, þar sem um tímabundið átaksverkefni sé að ræða.

Markaðsstofa Norðurlands hefur haft umsjón með starfi Flugklasans. Umsjón með verkefninu er í höndum Hjalta Páls Þórarinssonar sem sagðist í samtali við Morgunblaðið ekki geta tjáð sig um málið að sinni.