Hallsteinsnes Vegurinn nýi liggur út með Þorskafirði, sem hér sést til hægri, og svo um brekkur og birkiskóg. Til vinstri er Gufufjörður sem verður þveraður og tenging áfram til vesturs útbúin.
Hallsteinsnes Vegurinn nýi liggur út með Þorskafirði, sem hér sést til hægri, og svo um brekkur og birkiskóg. Til vinstri er Gufufjörður sem verður þveraður og tenging áfram til vesturs útbúin. — Morgunblaðið/Guðlaugur Albertsson
Til stendur síðar í þessum mánuði að opna formlega fyrir umferð á þverun og brú yfir Þorskafjörð í Reykhólasveit. Samhangandi því er nýr vegur um Teigsskóg, 10,4 kílómetrar, en vænst er að hann verði kominn í notkun fyrir árslok

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Til stendur síðar í þessum mánuði að opna formlega fyrir umferð á þverun og brú yfir Þorskafjörð í Reykhólasveit. Samhangandi því er nýr vegur um Teigsskóg, 10,4 kílómetrar, en vænst er að hann verði kominn í notkun fyrir árslok. Um fyllingar yfir Þorskafjörðinn sá Suðurver og brú þar er smíði byggingafyrirtækisins Eyktar. Með þverun Þorskafjarðar og vegi um Teigsskóg aftengist vegurinn yfir Hjallaháls sem oft hefur verið farartálmi á vetrum og raunar öllum tímum ef út í slíkt er farið.

Á góðu róli

Vegagerð um Teigsskóg er á góðu róli. Borgarverk hf. hefur þá framkvæmd með höndum. Vinnuflokkur frá fyrirtækinu, um 20 menn, er nú svæðinu. Vegurinn nýi um skóginn liggur fyrir Hallsteinsnes en upphafspunktur hans í austri er við brekkurnar í Hjallahálsi, þar sem núverandi vegur liggur um hátt klif.

Vestan við Hjallaháls er Gufufjörður. Þar sem veginum nýja um Teigsskóg sleppir þar, tekur við Djúpadalsvegur. Það er tæplega 6 km tengibraut inn í fjarðarbotn og að bæjum þar. Næstu misserin verður þetta þó aðalvegur, það er á meðan gerðar verða þveranir yfir Gufufjörð og Djúpafjörð, sem er utar og vestar. Því fylgir að byggja tvær brýr yfir Djúpafjörð. Önnur verður 210 metra löng stálbogabrú en hin hefðbundin og steypt, 58 metra löng. Þær skapa tengingu við Gróunes en þar utar er Gufufjörður. Nýi vegurinn tengist svo inn á nýjan Vestfjarðaveg nærri bænum Skálanesi.

Þegar fyllingar og brýr yfir firðina eru tilbúnar fer umferð af malarveginum yfir Ódrjúgsháls, sem brattar brekkur liggja að beggja vegna. Vegafarendur losna því við að aka yfir tvo háa hálsa, fjallvegi, sem jafnan hafa verið til ama. Kemur þá jafnframt að því hægt verður að keyra Vestfjarðahringinn á bundnu slitlagi. Slíkt verður væntanlega eftir 2-3 ár.

Nýr vegur á suðurfjörðum styttir leiðina frá Reykjavík til Ísafjarðar um nærri 50 km. Hald marga er að með því færist umferð að miklu leyti úr Djúpinu á suðurleiðina og veginn nýja. Slíkt helst þó í hendur við gerð nýs vegar um Dynjandisheiði sem er verið að leggja.

Löng barátta

Lengi hefur verið rekin barátta fyrir þeim vegaframkvæmdum vestra sem fyrr er lýst. Þegar þeim lýkur eru samgöngumál í landshlutanum komin í horf sambærilegt því sem gerist annars staðar. Taka ber þá fram að vegagerð um Teigsskóg tafðist í áraraðir vegna málaferla, með því inntaki að vegur um skóginn gengi of nærri gæðum náttúrunnar. Gerð nýs vegar um Dynjandisheiði kom svo í kjölfar þess að Dýrafjarðargöng voru opnuð en til að þau nýttust þurfti veg um heiðar og niður í Vatnsfjörð.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson