„Þessi viðurkenning skiptir mjög miklu máli,“ segir myndlistarmaðurinn Ívar Glói.
„Þessi viðurkenning skiptir mjög miklu máli,“ segir myndlistarmaðurinn Ívar Glói. — Morgunblaðið/Óttar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ívar Glói Gunnarsson myndlistarmaður útskrifaðist nýlega úr Luca-listaháskólanum í Brussel. Við útskrift voru honum veitt verðlaunin Cas-Co Bac, en þeim verðlaunum fylgir vinnustofa í eitt ár auk einkasýningar í sýningarrými sem er rekið af Cas-Co í Leuven, stofnuninni sem veitti verðlaunin

Ívar Glói Gunnarsson myndlistarmaður útskrifaðist nýlega úr Luca-listaháskólanum í Brussel. Við útskrift voru honum veitt verðlaunin Cas-Co Bac, en þeim verðlaunum fylgir vinnustofa í eitt ár auk einkasýningar í sýningarrými sem er rekið af Cas-Co í Leuven, stofnuninni sem veitti verðlaunin. Ívar Glói var þarna valinn úr hópi allra mastersnema skólans í Brussel, þannig að heiðurinn er mikill.

Skólinn valdi hann einnig sem fulltrúa skólans fyrir viðtal við tímaritið Metropolis M en það gefur út sérstakt aukablað ár hvert. Þar er fjallað um valda mastersnema sem útskrifast úr listaháskólum í Hollandi og Belgíu. Mynd af verki Ívars Glóa var valið á forsíðu aukablaðsins.

Mikill heiður

„Þessi viðurkenning skiptir mjög miklu máli og það var mikill heiður að vera valinn úr hópi allra útskriftarnemenda skólans en í skólanum eru ljósmyndadeild, kvikmyndadeild, textíldeild, málverkadeild og myndlistardeild. Það var haldin stór útskriftasýning og þrír ungir sýningarstjórar skoðuðu útskriftarsýninguna og völdu mig úr þessum hópi. Viðurkenningunni fylgir styrkur og vinnustofudvöl í heilt ár og ég mun síðan halda einkasýningu hjá þeim í Leuven, sem er bær rétt fyrir utan Brussel,“ segir Ívar Glói.

Hluti útskriftarsýningar hans, sem hann fékk verðlaun fyrir, er á samsýningu í Gerðarsafni en þar sýna tíu listamenn verk á sýningunni Skúlptúr.

Í verkum sínum fjallar Ívar Glói meðal annars um núning milli þess staðlaða og einstaka, hins áþreifanlega og hins stafræna. Í sýningartexta sýningarinnar í Gerðarsafni segir: „Hann leikur sér á stríðnislegan hátt að skilningi okkar á hversdagslegum hlutum í umhverfi okkar, breytir hlutverki þeirra, tilgangi og notagildi og hvetur þannig áhorfandann til umhugsunar.“

Hinn praktíski tími

Verðlaunaverk Ívars Glóa á sýningunni í Gerðarsafni eru fjórir skúlptúrar og sex lágmyndir. Lágmyndirnar eru fræstar úr mdf-plötum og formið líkir eftir staðbundnum klukkum á vegg. Klukkurnar þjóna einnig hlutverki myndaramma og á þær eru prentaðar auglýsingamyndir af armbandsúrum.

Á þessum myndum er klukkan alltaf um það bil 10 mínútur yfir 10. „Armbandsúraiðnaðurinn hefur sammælst um það að það sé praktískast,“ segir Ívar Glói. Ein lágmynda hans sker sig úr að því leyti að hún er með áprentaðri mynd af sítrónuköku með rjóma. „Það er til að brjóta upp lógík þessarar stöðlunar,“ segir Ívar Glói.

Hann sýnir einnig skúlptúra í formi borða sem líkja eftir almennum stíl borða hjá fyrirtækjum, stofnunum, hótelum og svo framvegis, og á þeim eru hamrar. Hamrana fékk Ívar Glói á flóamarkaði og hann segir að þeir hafi verið ryðgaðir, skítugir og mikið notaðir þegar hann keypti þá. „Þeir eru festir á borðið með skrúfum og boltum, pússaðir og lakkaðir upp á nýtt og stálið hefur verið slípað. Það er búið að sameina þá við borðin, og með því búið að þagga niður í þeim eða gera þá að óvirku skrauti fyrir borðin,“ segir hann og bætir við: „Ég hugsaði borðin líka út frá því hvað þau eru utan þess félagslega samhengis sem þau geta þjónað, hvað þau eru fyrir utan okkar mannlega skilning og hafði líka í huga að borð eiga sinn eigin veruleika.“

Verkið Slacker er einnig á sýningunni og er unnið úr afgangsefnum í vinnustofu listamannsins. Verkið endurvarpar efni borðfóta borðskúlptúranna og myndar mannslíkama sem liggur á gólfinu í miðjum sýningarsal. „Titill verksins vísar í manneskju sem forðast fyrirhöfn og skortir vinnusiðferði,“ segir Ívar Glói.

Sýningin Skúlptúr í Gerðarsafni stendur fram í janúar.

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir