Engilbert Sumarliði Ingvarsson fæddist 28. apríl 1927 í Unaðsdal, Snæfjallahreppi. Hann lést á Landspítalanum í Reykjavík 26. september 2023.

Foreldrar Engilberts voru Salbjörg Jóhannsdóttir, f. 1896, d. 1991, og Ingvar Ásgeirsson, f. 1886, d. 1956. Systkini Engilberts voru Ásgeir Guðjón, f. 1919, d. 1989, Jón Hallfreð, f. 1921, d. 1945, og Jóhanna Sigrún, f. 1.1. 1933.

Þann 27. mars 1948 kvæntist Engilbert Kristínu Ragnhildi Daníelsdóttur (Öddu), f. 10. júní 1928, d. 8. júní 2021. Börn Engilberts og Öddu eru: 1) Grettir, f. 1948, d. 2015, maki Kristina Karlsson. Synir þeirra eru Sæmundur Jóhann, Einar Snorri og Kolbeinn Ari, maki Annagreta Berg. 2) Daníel, f. 1950. Synir Daníels eru Valur Bjartmar, sem á tvo syni, Daníel Bjartmar og Alexander, Auðun, maki Ruth Margrét Friðriksdóttir og Grímur. 3) Ingvar, f. 1952, maki Sigrún Hulda Steingrímsdóttir. Börn þeirra eru Halla, Engilbert, maki Aðalbjörg Rósa Sigurðardóttir. Börn þeirra eru Sigrún María, Soffía Sunna, Kristbjörg Hekla, Ingvar Emil og Hulda Katrín og Adda Soffía, dóttir hennar er Viktoría Eva. 4) Jón Hallfreð, f. 1955, maki Helga Sigfríður Snorradóttir. Börn þeirra eru Snorri Sigbjörn og Kristín Harpa. 5) Ólafur Jóhann, f. 1960, maki Gyða Sigríður Björnsdóttir. Sonur þeirra er Dagbjartur Sigurður. Stjúpsonur Ólafs er Úlfur Kolka, sonur hans er Pétur Hafsteinn Kolka. 6) Atli Viðar, f. 1961, og 7) Salbjörg, f. 1967, maki Sverrir Guðbrandsson. Börn þeirra eru Jakob Ingi, Kristín Lilja og Júlíana Steinunn. Sonur Salbjargar er Andri Freyr Arnarsson. Hann var mikið hjá ömmu sinni og afa. Sonur Sverris og stjúpsonur Salbjargar er Guðbrandur Emil Sverrisson, maki Jennifer Isabell Land Pedersen og synir þeirra eru Sverrir Nickolai og Christopher Jóhann.

Engilbert flutti með fjölskylduna sumarið 1953 að Tirðilmýri á Snæfjallaströnd. Hann vann mikið að framfara- og félagsmálum fyrir sitt hérað, stóð að stofnun Rafveitu Snæfjalla og byggingu endurvarpsstöðvar sjónvarps. Engilbert sat í stjórn Orkubús Vestfjarða, var formaður stjórnar Djúpbátsins hf. og stjórnarformaður Íslax hf. Hann sat aðalfundi Stéttarsambands bænda og á Búnaðarþingum, var framkvæmdastjóri Ræktunarsambands Nauteyrar- og Snæfjallahrepps og formaður Búnaðarfélags Snæfjallahrepps og í nefnd um Inn-Djúpsáætlun. Engilbert var formaður kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Vestfjarðakjördæmi 1978-1987 og sat í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins. Hann var fyrsti formaður Félags eldri borgara í Strandasýslu, síðasti oddviti Snæfjallahrepps og fyrsti formaður Snjáfjallaseturs.

Engilbert fór að skrifa á áttræðisaldri bækur um búsetu og mannlíf á Snæfjallaströnd sem hann nefndi Undir Snjáfjöllum. Einnig bók um Ísafjarðarár sín og um Kolbein Jakobsson í Dal. Engilbert sinnti áfram skrifum síðustu árin, þó hann væri orðinn lögblindur.

Engilbert og Adda bjuggu á Tirðilmýri til 1987 er þau fluttu til Hólmavíkur og unnu þar við ýmis störf. Á árunum 2007 til 2012 gerðu þau upp Lyngholt á Snæfjallaströnd og dvöldu þar mikið á sumrin. Engilbert og Adda fluttu á Hlíf II á Ísafirði árið 2014 og bjó Engilbert þar áfram eftir lát Öddu. Í ágúst síðastliðnum flutti hann á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Hólmavík.

Útför Engilberts fer fram frá Hólmavíkurkirkju í dag, 7. október 2023, klukkan 14. Jarðsett verður í Unaðsdalskirkjugarði sunnudaginn 8. október.

Ég var rétt orðinn staðreynd þegar pabba og mömmu bauðst að kaupa Mýri. Þau tóku boðinu og fluttu frá Ísafirði 1953 með drengina sína þrjá.

Það er mikið átak að taka við húslausri jörð og hefja búskap. Pabbi gekk í málið ótrauður og lét engan bilbug á sér finna og þannig var það alla hans tíð. Gamli Mýrarbærinn var græjaður til bráðabirgða, en fljótlega eignuðust þau Árbakka sem var mun betri kostur, en lítið um þægindi samt. Næst var ráðist í hlöðubyggingu og handgrafið fyrir henni í malarkambinn, sem og síðari byggingum.

Allur heyskapur var handunninn fyrstu árin, slegið með orfi og ljá, snúið með hrífu, heyið bundið í sátu og borið heim á bakinu. Ég man þó til þess að Kjartan í Dal kom dagpart og sló sléttustu blettina með jeppanum. Þá dugði hlaðan við Árbakka við bæinn, en við hann voru sambyggð útihús.

Þegar nýju fjárhúsin við hlöðuna voru komin í gagnið var smíðaður stór heyvagn aftan í Blesa gamla og mokað á hann og af með heykvísl.

Í byrjun sjöunda áratugarins hóf nútíminn innreið sína í sveitina og vélvæðing búsins hófst. Fyrst var keypt notuð dráttarvél með sláttuvél og á eftir fylgdu önnur tæki smátt og smátt. Þar á meðal var stór heyvagn heimasmíðaður. Þá var farið að draga heyið af vagninum með talíu sem var mikil framför.

Flutt var í nýtt íbúðarhús 1961 sem var ómálað og hurðalaust. Eftir að framkvæmdir hófust við Rafveitu Snæfjalla var pabbi lítið heima á daginn. Hann sló á kvöldin og fram á nótt og við sem höfðum burði til snerum og þurrkuðum á daginn. Svo komu dagar þegar hægt var að nýta okkur í rafveituna líka.

Félagsmálin bættust svo við og oft þurfti pabbi að skreppa frá á fundi eða í reddingar í Reykjavík. Sjaldnast var einhver fyrirvari að ráði. Mamma henti í tösku fyrir hann og svo var hann farinn. Alla tíð tók pabbi þátt í öllum ferðalögum og samkomum sem hentaði að sækja og þá var mamma oftast með.

Svo tók pabbi við rekstri ræktunarsambandsins sem átti jarðýtur í ræktun og vegagerð í djúpinu. Þeim fylgdi mikið stúss og akstur. Næst bættust við virkjunarframkvæmdir í Nauteyrarhreppi og tenging yfir Ísafjörðinn við Reykjafjarðarhrepp.

Pabbi annaðist með öllu öðru bókhalds- og skrifstofuvinnu fyrir öll þessi fyrirtæki, fjáröflun, mannahald og efniskaup. Allt bókhald var handskrifað með blekpenna. Þá var enn sveitasími í Djúpinu og aðeins hægt að hringja út fyrir sveitina tvisvar á dag tvo tíma í senn. Það kom fyrir að hann einokaði símatímann svo enginn annar gat hringt á meðan. Fyrir það fékk hann stundum óvægið tiltal, en lét það ekkert á sig fá.

Það var nánast ómögulegt að aka um hlaðið á Mýri án þess að heimilisfólk yrði þess vart. Jafnvel eftir að vegurinn kom var það ekki algengt. Þegar pabbi varð var við umferð var nánast alltaf farið út á hlað og vegfarendum boðið í bæinn.

Eins og algengt er með þá sem ryðja brautina fékk pabbi oft harða gagnrýni sem hann hafði gott lag á að standa af sér. Fram á síðustu stund fylgdist hann með öllu og hafði skoðun á öllu. Síðustu ferðina fór hann svo fyrirvaralítið eins og ávallt.

Ingvar Engilbertsson.

Pabbi var engum líkur, hann var alltaf að skipuleggja eitthvað og hafði mikla útsjónarsemi í að fá fólk með sér í hin og þessi verk. Þó hann hafi verið orðinn 96 ára var ekki að sjá að orkan og lífsgleðin hefðu minnkað með aldrinum. Hann hélt uppteknum hætti við að skrifa á tölvuna þó hann væri orðinn lögblindur og sló hvergi af. Hann hafði stálminni sem hann hélt til hinstu stundar, mundi í smáatriðum ferð sem hann fór fimm ára gamall með móður sinni út á ytri hluta Snæfjallastrandar, þar sem var í þá daga þyrping torfbæja og þurrabúða.

Þegar foreldrar mínir fluttu frá Ísafirði á Snæfjallaströnd 1953 með þrjá unga syni var þar hvorki rafmagn né akfær vegur og samgöngur aðeins á sjó. Þetta voru tímar mikilla umbreytinga og krafan um nútímavæðingu var sterk, ekki síst til að eygja von um að halda sveitinni í byggð. Pabbi lagði mikið á sig við að færa sveitina sem hann ólst upp í til nútímans, stóð að uppbyggingu Rafveitu Snæfjalla, rafvæðingu Inndjúps og byggingu endurvarpsstöðvar sjónvarps í Bæjum. Okkur börnunum hans fannst hann oft vera annars hugar og alltaf á þeytingi eitthvert. Mamma sagði hann hafa æðiber í rassinum. En þegar pabbi gat einbeitt sér að bústörfunum sá hann til þess að allir hefðu verkefni við hæfi, hann hélt okkur börnum sínum vel að verki og við kölluðum hann þá gjarnan verkstjórann. Hann tók að sér að binda inn bækur á veturna og það var gaman að fylgjast með honum við að laga bókalím við eldavélina, þar sem hann sást annars ekki oft.

Foreldrar mínir brugðu búi og fluttu til Hólmavíkur 1987 og byggð á Ströndinni lagðist af nokkrum árum síðar. Upp úr aldamótum efndum við pabbi til samstarfs með fyrrum sveitungum um að miðla sögu Snæfjallastrandar. Snjáfjallasetur var stofnað og var hann formaður þess fyrstu tíu árin. Pabbi fór að skrifa bækur um sögu byggðarinnar og kom fyrsta bók hans af mörgum út þegar hann stóð á áttræðu. Segja má að bækurnar Undir Snjáfjöllum séu menningarlegt afrek og ekki að sjá að þar hafi haldið um penna maður sem var lítt skólagenginn.

Árið 2007 hófust þau mamma handa við að gera upp hús foreldra hans á Lyngholti á Snæfjallaströnd, þó bæði væru þá um áttrætt. Pabbi var glaður að vera kominn aftur heim í sveitina sína og naut þess að taka á móti fólki á Lyngholti og segja sögur af því hvernig var að alast þar upp við frumstæðar aðstæður. Hann sagðist sjálfur hafa upplifað alla Íslandssöguna á sínu æviskeiði. Hann ólst upp við að þurfa að bjarga sér og kom því vel áfram til okkar barnanna sinna. Það er ómetanlegt veganesti og lífsþrótturinn var fram á síðasta dag hans einkenni. Hann naut þess að fara á tónleika og hitta fólk í sveitinni sinni og það var orðin hefð hjá honum að standa fyrir hlöðuskemmtun á Lyngholti um verslunarmannahelgina.

Sterkur þráður var á milli hans og Dagbjarts sonar okkar Gyðu sem naut þess að vera með afa sínum á Lyngholti. Hann hlakkaði alltaf til að hitta afa sinn og sendir ásamt okkur Gyðu hjartans kveðjur nú þegar afi fer að hitta ömmu í sumarlandinu.

Ólafur Jóhann Engilbertsson.

Ástkær faðir minn, hér kemur nýtt ljóð um þig við óbirt lag mitt „Englar syngja“. Einnig kemur hér nýtt ljóð mitt „Engilbert engill“, við hið þekkta lag „Ísland ögrum skorið“ sem faðir minn söng og elskaði:

Brattasta minning í brosmildum pabba,/með brúnir krepptar ég lærði að labba./ Í æsku í ærslum faðir færði mér siði, / nú ævilok komin og hann hvílir í friði.

Á Snæfjallaströnd faðir snarast í gang, / í snaróðum byl ræsti rafveitusprang. Rafveitu rukkaði um meira rafmagn,/ því stoppuð stöð gerir ekkert gagn.

Englar syngja nú með Engilbert, sönggleði pabba er ekki skert. Guð, hann geymir nú föður minn, / og gullbjart sumarland út á kinn.

Tuttugu bíla telur nú ævin langa, í sófateppi dugar ekki að hanga. Í rykvænum rúntum sumrin þau keyra, / rafveitu smíða og valsa nikku heyra.

Sjálfstæðisflokkur, sjáöldrin stækka, / í sjónlínu þeirri er aldrei að fækka. / Í flokksráði þurfa launin að hækka / en almúgalaun eru helst að lækka.

Eitt er súr slagur að eflast til hamingju, / í endalausri leit að gullpyngju. / Erindin þín elta götur og hverja spá, /og endar ná saman í vaxandi þrá.

Hrossið pabbi snaraði mömmu hryssu, / í hrekkjandi væna dansgleðiskyssu. / Í dúnmjúkri sveit við dönsum kvöldin, / í dásemdarsumri við himinblá tjöldin.

Eftirfarandi er nýtt ljóð við lagið „Ísland ögrum skorið“ – „Engilbert nú engill“:

Engilbert nú engill,

aðrar víddir tengill.

Fjölmörg félögin stofnar,

og fjársjóði opnar.

Fyrir raforku og rafmagnsflokk,

raflínu þræða plokk,

og tún rækta brokk,

eiginkona um kvöld greiðir hárlokk.

Engilbert nú engill,

aðrar víddir tengill.

Konu hann kunni að finna,

svo komu börn að sinna.

Sjö urðu sungu börn,

og sögur aldrei tóm görn.

Ýmsar listir og ýsufæði,

íslensk brosandi gæði.

pabba,
með brúnir krepptar ég lærði að labba.
Í æsku í ærslum faðir færði mér siði,
nú ævilok komin og hann hvílir
í friði.

Á Snæfjallaströnd faðir snarast í gang,
í snaróðum byl ræsti rafveitusprang.
Rafveitu rukkaði um meira rafmagn,
því stoppuð stöð gerir ekkert gagn.

Englar syngja nú með Engilbert,
sönggleði pabba er ekki skert.
Guð, hann geymir nú föður minn,
og gullbjart sumarland út á kinn.

Tuttugu bíla telur nú ævin langa,
í sófateppi dugar ekki að hanga.
Í rykvænum rúntum sumrin þau keyra,
rafveitu smíða og valsa nikku heyra.

Sjálfstæðisflokkur, sjáöldrin stækka,
í sjónlínu þeirri er aldrei að fækka.
Í flokksráði þurfa launin að hækka,
en almúgalaun eru helst að lækka.

Eitt er súr slagur að eflast til hamingju,
í endalausri leit að gullpyngju.
Erindin þín elta götur og hverja spá,
og endar ná saman í vaxandi þrá.

Hrossið pabbi snaraði mömmu hryssu,
í hrekkjandi væna dansgleðiskyssu.
Í dúnmjúkri sveit við dönsum kvöldin,
í dásemdarsumri við himinblá tjöldin.

Nýtt ljóð við lagið „Ísland ögrum skorið“ – „Engilbert nú engill“:

Engilbert nú engill,
aðrar víddir tengill.
Fjölmörg félögin stofnar,
og fjársjóði opnar.

Fyrir raforku og rafmagnsflokk,
raflínu þræða plokk,
og tún rækta brokk,
eiginkona um kvöld greiðir hárlokk.

Engilbert nú engill,
aðrar víddir tengill.
Konu hann kunni að finna,
svo komu börn að sinna.

Sjö urðu sungu börn,
og sögur aldrei tóm görn.
Ýmsar listir og ýsufæði,
íslensk brosandi gæði.
Elsku faðir minn hvíl þú í friði.

Þinn yngsti sonur,

Atli Viðar.

Þá er síðasti bóndinn á Ströndinni fallinn í valinn. Við kveðjum hann í dag og á morgun, því það dugar ekkert minna en tveggja daga útför. Ég minnist æsku minnar og uppvaxtar sem ljúfra og skemmtilegra ára. Aldrei man ég eftir að pabbi skipti skapi, enda sjaldnast tilefni til, en við strákarnir vorum ákaflega rólegir og hlýðnir. Svo kom systirin seinna.

Pabbi var mjög framfarasinnaður og tók strax til við að byggja, fyrst hlöðu og fjárhús og í framhaldi af því íbúðarhús. Fljótlega fór hann ásamt samsveitungum að ráðast í að stofna rafveitu og stuttu síðar var lagður akvegur út ströndina. Þá held ég að hugtakið „samgöngur“ hafi orðið til. Hann tók okkur bræðurna að sjálfsögðu í vinnu við þessar framkvæmdir meðfram búskaparstússi og næstu árin var ég að vinna við stíflugerð og háspennulínulagnir inn allt Djúp á sumrin.

Félagsmál voru honum hugleikin og mér fannst hann gangast upp í því að fara nákvæmlega eftir fundarsköpum á hreppsnefndar- og öðrum fundum. Pabbi var sjálfstæðismaður í gegn en barst samt ekki mikið á og var aldrei efnamaður og ekki örlaði fyrir græðgi. Hann leit upp til stjórnmálamanna og bar fyrir þeim virðingu sama í hvaða flokki þeir voru og átti vini í flestum flokkum. Að hitta einhverjar þekktar persónur þótti honum ekki leiðinlegt og sagðist hafa talað við þennan eða hinn og ekki var verra ef hann fékk að koma heim til þeirra.

Ættfræðiáhugi og kunnátta hans var einnig með ólíkindum. Hann gat fundið einhver tengsl við nánast hvern sem er, kannaðist við einhverja forfeður þeirra eða vissi hvar þeir áttu heima.

Hann vildi alltaf hafa tónlist í kringum sig, útvarpið var alltaf í botni sama hvað var í því. Ég held reyndar að hann hafi bara ekki viljað missa af neinu sem honum gæti þótt merkilegt. Svo var hann alltaf að hvetja okkur og fleiri til að troða upp og syngja og spila hvar sem er og gefa eitthvað út. Hann gaf út minningarrit um bróður sinn og nafna minn og var aðalhvatamaður að því að allt sem ég hafði hnoðað saman væri með í bókinni. Ekki veit ég hvers vegna.

Sjón og heyrn fóru að daprast eftir að þau fluttu á Hlíf og þá fannst honum betra að hafa frúna með sem aðstoðarbílstjóra, þá gat hún sagt honum hvort hann ætti að beygja til hægri eða vinstri. Það er sagt að aðrir bílstjórar hafi vikið vel fyrir honum þegar þeir sáu bílinn nálgast. Hann keyrði gjarnan inn á Lyngholt en hætti því að lokum því það var engin hvít lína til að keyra eftir á malarveginum út á strönd. Hann átti það líka til að stytta sér leið yfir hringtorgið á Ísafirði.

Ég held að hann hafi verið nokkuð sáttur að kveðja, þó sagði hann að hann hefði viljað fá svona tvö ár í viðbót, hann ætti eftir að gera svo margt.

En það er við hæfi að kveðja hann að hans sið: Þakka þér fyrir, vertu blessaður.

Nú haustar að og höfgar brá

er húmið færist yfir.

Bændahetja er fallin frá,

falleg minning lifir.

Í hjörtum okkar finnum frið

þar forsjón okkur stýri.

Er leggjast aftur hlið við hlið

hjónin sæl frá Mýri.

Jón Hallfreð (Halli)

Jón Hallfreð
Engilbertsson.

Pabbi var stór maður í öllum þeim skilningi, stór vexti, stór í hugsun, orðum og gerðum. Hann hafði hæfileika til að kynnast fólki og flesta gat hann tengt við Ísafjarðardjúpið. Hann fylgdist mjög vel með barnabörnunum alla tíð. Hann gat verið ýtinn, sérstaklega í að skipuleggja ýmsa viðburði með afkomendum sínum og hvatti okkur til frekari dáða.

Pabbi var hugsjónamaður og frumkvöðull og kom mörgum framfaramálum af stað, einn og með öðrum. Hann var mikill sjálfstæðismaður en reyndi þó aldrei að stýra mér í þá átt. Þegar ég mátti kjósa í fyrsta sinn, lagði hann hart að mér að mæta á kjörstað, engu skipti hvort ég kysi eða skilaði auðu. Kosningaréttinum höfðu kynsystur mínar barist fyrir og ég ætti að nýta hann.

Á tímabili var hann oft fjarverandi að sinna trúnaðarstörfum fyrir rafveituna, Orkubúið, Sjálfstæðisflokkinn, Búnaðarsambandið og Brunabótafélagið, eflaust er ekki allt upptalið. Við heimafólkið náðum lítið að fylgjast með hvar hann var staddur í það og það skiptið. Þegar farsímarnir komu var hægt að hringja í hann til að vita hvernig gengi við aksturinn heim, en þá vissi hann yfirleitt ekki hvar hann var staddur.

Þau mamma og pabbi voru skemmtanasjúk, eins og þau sögðu sjálf, mættu á alla viðburði. Þegar þau fluttu frá Hólmavík og á Hlíf um nírætt, fannst þeim frekar dauft yfir menningarlífinu þar. Þau voru bæði mjög athafnasöm og áttu erfitt með að hægja á sér þegar aldurinn kom yfir. Eftir áttrætt fóru þau að gera upp sumarhúsið á Lyngholti og má segja að eftir það hafi lífið snúist um Lyngholt. Þau voru þar öllum stundum í grjótburði, múrviðgerðum og smíðum, þó var pabbi að tapa sjóninni og þau bæði farin að tapa heilsunni. Um þetta leyti hóf hann ritstörf og skrifaði bækur með æviminningum og um sveitina sína. Það eru auðæfi afkomendanna, aðgangurinn að þessum sögum. Síðustu árin skipti þau miklu að bjóða í hlöðupartí á Lyngholti um verslunarmannahelgina og oft tróðu þau upp og sungu lagið Vökudraum sem varð þeirra einkennislag.

Pabbi bjó einn í íbúðinni á Hlíf eftir andlát mömmu og afrek fyrir blindan mann á þessum aldri að gera það, en hann tók þessu öllu með æðruleysi. Hringdi oft stutt símtöl sem voru hálfgerð yfirheyrsla um hvað væri að gerast á svæðinu og enduðu öll skyndilega, „allt í lagi, blessuð“. Hann var vel tengdur og fylgdist vel með alla tíð og síðustu árin gat Facebook hjálpað til þess.

Hann fékk gangráð fyrir nokkrum árum, sem oftast eru settir vinstra megin. Ekki gekk að koma honum fyrir og þurfti aðra aðgerð til. Nú var prófað hægra megin og þá virkaði hann. Sverrir tengdasonur hans nefndi það við hann að það hefði lítið þýtt að setja gangráð vinstra megin í sjálfstæðismann og pabbi skemmti sér vel yfir þessu og var ánægður með skýringuna. Í ágúst flutti pabbi á Hjúkrunarheimilið á Hólmavík. Hann ætlaði að dvelja lengur en hann náði ekki að hafa stjórn á því. Tæpum tveimur sólarhringum fyrir andlátið söng hann með okkur lokalagið, Ég lít í anda liðna tíð.

Takk fyrir allt elsku pabbi.

Salbjörg, Sverrir og fjölskylda.

Þegar ég hugsa til Berta tengdaföður míns þá kemur fyrst upp í hugann krafturinn sem fylgdi honum. Þó hann væri nánast orðinn blindur og ætti orðið erfitt með gang undir það síðasta var hann alltaf með margvísleg verkefni í vinnslu og eitthvað sem þurfti að skipuleggja. Hann var maður sem lét hlutina gerast.

Þegar ég kom inn í fjölskylduna var hann hátt á áttræðisaldri, hættur að vinna en ennþá fullur af orku og hugmyndum. Búinn að snúa sér að ritstörfum til að varðveita mætti sögu heimaslóðanna og svo var borðleggjandi að fara í það verkefni að gera upp rústir æskuheimilisins á Snæfjallaströnd. Verkefni sem mér fannst ekki alveg augljóst að væri hægt að klára því þannig var ástandið orðið á húsinu. En þarna fóru þau hjónin Berti og Adda í að skapa sumarathvarf sem við Óli og Dagbjartur höfum notið góðs af. Hvergi er betra að vera en á Snæfjallaströndinni og horfa yfir Djúpið fagra og það voru ekki síst sögurnar hans Berta af lífinu á Ströndinni sem sköpuðu þessa sterku tengingu við staðinn. Berti var ótrúlega minnugur og sagði skemmtilega frá og oft fylgdu frásögninni vísur eða ljóð sem hann mundi þá orðrétt.

Ég dáðist að þessum krafti sem Berti bjó yfir allt þar til yfir lauk. Það er erfitt til þess að hugsa að Berti muni ekki standa fyrir fleiri söngskemmtunum í hlöðunni á Lyngholti og það er með söknuði sem við Dagbjartur kveðjum afa Berta. Um leið þökkum við honum fyrir allar góðu stundirnar og að kenna okkur að allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi.

Gyða Sigríður Björnsdóttir.

„Ljúft er að láta sig dreyma liðna sælutíð …“. Þetta var einkennislag þeirra tengdaforeldra minna, sem þau sungu svo oft saman, en núna hafa þau bæði kvatt, Adda tengdamamma fyrir rúmum tveimur árum og nú Berti tengdapabbi.

Í meira en 45 ár hef ég notið samfylgdarinnar með þeim Berta og Öddu. Á hverju sumri brunuðum við fjölskyldan vestur. Fyrst var ferðinni heitið alla leið að Tirðilmýri, svo á Hólmavík og síðustu árin á Lyngholt, sumarparadísina í sveitinni.

Hjá Berta og Öddu var okkur tekið opnum örmum þegar við birtumst og glaðst yfir að fá barnabörn og barnabarnabörn í heimsókn. Hver stund var nýtt. Það var mikið spjallað og hlegið. Alltaf þegar færi gafst kom stórfjölskyldan saman til að syngja og höfðu Adda og Berti forystu um það. Berti stóð síðast fyrir hlöðupartíi á Lyngholti sumarið 2022.

Berti var stór maður í víðum skilningi og nálgaðist hlutina með jákvæðni. Hann fylgdist vel með þjóðfélagsmálum, var áhugasamur um öll framfaramál og beitti sér fyrir þeim. Þá gat hann verið fylginn sér og viljasterkur, sannfærður um góðan málstað.

Yfirleitt var Berti snöggur til og beið helst ekki eftir neinum. Þegar hann og Adda komu í heimsókn á árum áður þá var ég oft bara rétt búin að setja kaffið á borðið, að mér fannst, þegar Berti kvaddi, tilbúinn að mæta á næsta viðkomustað. Hann var líka snöggur að kveðja við vistaskiptin.

Ræðurnar hans Berta voru eftirminnilegar, stuttar og hnitmiðaðar. Þá var lagt við hlustir. Hann talaði alltaf blaðalaust, en var greinilega búinn að ígrunda vel hvað hann ætlaði að segja. Orðin hittu beint í mark, lýsandi og glettin. Síðustu ræðuna sína hélt Berti núna í sumar í 90 ára afmæli Hönnu systur sinnar.

Það var ótrúlegt hvað Berti var fróður og stálminnugur fram á síðustu stund. Hann fylgdist svo vel með öllu og öllum. Hann var afar félagslyndur og hafði einstakt lag á að kynnast og tengjast fólki. Þannig náði hann á einu augabragði til barnabarnanna og seinna til langafabarnanna og naut þeirra samskipta. Við fundum svo vel hversu Berta var annt um sína nánustu, ekki síst síðustu árin.

Það sem ég hef fyrst og fremst lært af Berta og Öddu er mikilvægi þess að njóta lífsins. Mér fannst einkenna þau alla tíð hversu virk og félagslynd þau voru og einbeitt í að njóta líðandi stundar. Þau létu varla nokkurn viðburð framhjá sér fara og voru alltaf til í að gera eitthvað skemmtilegt.

Tvö ferðalög með Berta og Öddu sumarið 2010 eru mér mjög minnisstæð. Þegar við heimsóttum Gretti, Stínu og syni í Uppsala og ferð með þeim og fjölskyldu okkar Ingvars um Vestfirðina. Ógleymanlegar stundir.

Allt tekur enda, ég er svo þakklát fyrir allar dásamlegu stundirnar sem ég og fjölskyldan fengum með Berta og Öddu. Ég er viss um að þau eru að skemmta sér saman núna, syngja saman og dansa eftir langan aðskilnað. Vonandi er Berti nú orðinn góður í hnjánum svo hann geti sveiflað Öddu sinni eins og forðum.

Það er sjónarsviptir að Berta tengdapabba. Elsku fjölskylda, megi dýrmætar minningar um hann og Öddu ylja okkur öllum um ókomna tíð.

Hulda Steingrímsdóttir.

Elsku tengdapabbi hefur nú kvatt eftir 96 gæfurík ár og minnist ég hans með mikilli virðingu, hlýju og þakklæti. Hann var mikill og sterkur karakter, traustur, stálminnugur og skýr í hugsun fram á síðasta dag. Hann var félagslyndur, góður sögumaður, hrókur alls fagnaðar og ískraði í honum af hlátri á góðum stundum. Hann vildi hafa líf og fjör í kringum sig, helst söng og undirspil og þá lét hann ekki sitt eftir liggja í söngnum. Hann þekkti fjöldann allan af fólki, fylgdist mjög vel með öllu og öllum og vissi deili á ótrúlega mörgum um land allt, jafnvel marga ættliði aftur. Hann spurði ávallt hvað væri að frétta af mínu fólki, börnunum, systkinum mínum og jafnvel systkinabörnum. Hann mundi alltaf hvað hver og einn var að sýsla, lét sig varða um fólk og gladdist yfir velgengni annarra.

Berti var fæddur árið 1927 og mundi svo sannarlega tímana tvenna. Nútíminn vafðist samt ekkert fyrir honum og var hann fljótur að tileinka sér nútímatækni eins og sjónin leyfði, en hún var farin að daprast mikið síðustu árin. Hann var samt alltaf með einhver verkefni í vinnslu, hvort heldur voru bókaskrif eða framkvæmdir á Lyngholti. Tilhlökkunin var mikil fyrir sumrunum á Lyngholti og skemmtilegast þótti honum að taka á móti sínu fólki þar og gestum sem áttu leið um Snæfjallaströnd. Þar var hann á heimavelli, þekkti öll kennileiti og sögur sveitarinnar og gat miðlað öðrum af visku sinni. Nú er hann alfarinn í sveitasæluna sína þar sem hann undi sér best.

Hjartans þakkir fyrir allt og allt.

Helga.

„Afi borðar allt, meira að segja tómata og gúrku.“ Þetta eru án efa fleygustu orðin sem ég hef haft um föðurafa minn. Eftir sumardvöl á Mýri fyrir 40 árum eða svo lýsti ég Berta afa svona þegar nafna mín og móðuramma spurði mig hvernig hefði verið í sveitinni. Núna myndi ég lýsa afa fyrst og fremst sem manni sem hafði afar jákvætt viðhorf til hlutanna. Glasið var alltaf hálffullt.

Berti afi varð rúmlega 96 ára og ekki ofsögum sagt að hann hafi lifað tímana tvenna. Hann bjó einu sinni í torfbæ og talaði síðar um lélegt netsamband á þeim slóðum þar sem torfbærinn stóð. Það er því kannski ekki skrýtið að afi borðaði allt, það var nú ekkert val þegar hann var að alast upp. Annað dæmi er síminn, ég man eftir því þegar var ennþá sveitasími á Mýri en afi var samt með fyrstu mönnum til að fá sér bílasíma. Sinn þátt átti hann sannarlega í að nútímavæða landið. Hann tók þátt í að rafvæða í Ísafjarðardjúpi og barðist fyrir mörgum framfaramálum, meðal annars í gegnum pólitíkina.

Afi var fimmtugur þegar ég fæddist og nú er stutt í að ég nái þeim aldri. Það eru sannarlega forréttindi að hafa átt hressan afa svona lengi og mikið er ég þakklát fyrir það. Hann fylgdist alltaf vel með öllu og öllum, meðal annars í gegnum netið eftir að það kom og meðan hann gat það.

Í byrjun ársins sagði ég afa að ég væri að fara á árshátíð og næst þegar ég heyrði í honum vildi hann vita allt um hvernig það hefði verið. Hann hafði mikinn áhuga á fólki og spjallaði hiklaust við alla. Enda er það þannig að allir þekktu afa og hann þekkti alla. Hann hafði gaman af því að kynnast fólki og sérstöðu hvers og eins.

Afi var veisluglaður og mikið fyrir skemmtanir og að lifa lífinu. Hann var virkur í félagsstörfum og við skriftir síðari ár, gaf út nokkrar bækur sem eru uppfullar af fróðleik og heimildum sem annars hefðu glatast. Afi er mér góð fyrirmynd og ég stefni á að verða eins og hann, helga mig félagsstörfum, skriftum, veisluhöldum og jákvæðu viðhorfi. Þá held ég að það sé best að enda þetta á fleygustu orðum afa og segja við hann að lokum: „Þakka þér fyrir, blessaður.“

Halla Ingvarsdóttir.

Í mildri skímu morgundagsins minnt er á

að árin hverfa eins og skuggi
okkur hjá.

Hvert andartak er eins og dropi
út í sjá.

(ÁK)

Það styttist óðum í veturnætur. Tæpur mánuður eftir af sólríku sumri og hlýju hausti með litadýrð og glitfögrum norðurljósum.

Engilbert Ingvarsson þekkti fegurð Snæfjallastrandar. Með fráfalli hans kveður seinasti bóndinn er þar bjó þegar ég kom á þessar slóðir 1958. Hann átti stóran þátt í byggðasögu Inndjúpsins og gerði íbúum þess kleift að verjast svo lengi, þótt nú sé komið sem orðið er. Hann ólst upp í Lyngholti, litlu býli á bökkum Dalsár. Þar var ekki auður í búi en þeim mun meira af hæfileikum bæði til munns og handa. Í þröngum húsakynnum litla bæjarins var barnaskóli sveitarinnar um árabil.

Á Ísafirði lærði hann bókband og þar hitti hann líka konuna sína, Kristínu Daníelsdóttur, þau stóðu saman í gegnum lífsbaráttuna. Hún hafði lært hárgreiðslu og hvað lá beinna við en að hefja búskapinn á Ísafirði? En þau flytja heim í sveitina að Tirðilmýri á húsalausa jörð og þar tók uppbygging við og byggt vel og traustlega. Ekki veitti af, það er snjóþungt á Ströndinni eins og nafnið bendir til og vindstrengurinn frá Drangajökli, niður Unaðsdal og út á Æðeyjarsundið er ekki mjúkt klapp á vanga. Barnahópurinn óx og nóg var að starfa en Engilbert sá líka vel hvar skórinn kreppti, t.d. í rafmagnsmálum og að þeim sneri hann sér með þeim dugnaði og þrautseigju sem var hans aðalsmerki. Hann fékk Ásgeir Sæmundsson verkfræðing í lið með sér, og mót öllum líkindum tókst að virkja Mýrará og veita varma og ljós til býlanna á Snæfjallaströnd. Nú hefði mátt ætla að þegar þessu marki var náð hefði Berti á Mýri verið ánægður og þótt nóg að gert en því fór fjarri. Hann vildi gjarnan liðsinna nágrönnum og vinum innan við Kaldalón í Nauteyrarhreppi. Engin líkindi til að rafmagnsveitur ríkisins hugsuðu um þá og því var Rafveita Snæfjallastrandar og Nauteyrarhrepps stofnuð og Ásgeir Sæmundsson aftur kallaður til. Blævardalsárvirkjun varð veruleiki og við í Nauteyrarhreppi fengum rafmagn. Aðeins sá er reynt hefur gerir sér ljóst hvílík þægindi eru að þurfa aðeins að ýta á takka til að glaðbirti í myrkum húsakynnum bæði hjá mönnum og skepnum eða ýta til hliðar þvottabala og bretti og setja þvottavél í gang. Vissulega voru ljósavélar á mörgum bæjum en rafmagn frá þeim var takmarkað.

Engilbert var þarna í forystuhlutverki og sá er braut mest á en átti líka góða og trausta stuðningsmenn. Það er óvíst hvenær íbúar þessara tveggja hreppa hefðu fengið rafmagn ef hans hefði ekki notið við. Inndjúpsáætlun naut líka starfskrafta hans. Þá voru útihús byggð upp á mörgum bæjum í Djúpinu. Þannig voru þeir tímar.

Nú er Snæfjallaströnd í eyði, í það sama stefnir með önnur byggðarlög í Djúpinu fagra en minningin lifir um fólkið sem bjó þar, trúði á landið sitt, vann því eins og kraftar leyfðu og fær að lokum að hvíla í faðmi þess.

Ég og mitt fólk sendum aðstandendum hlýjar samúðarkveðjur með þökkum fyrir liðin ár.

Ása Ketilsdóttir, Laugalandi.

Þá eru þau farin yfir í annan heim heiðurshjónin Adda og Berti á Mýri, en það voru þau ævinlega kölluð eftir að þau settust að á bænum Tirðilmýri á Snæfjallaströnd þar sem þau bjuggu og ólu upp börnin sín. Þau sýndu ávallt áhuga sinn fyrir sveitinni og búskapnum.

Þegar ég var í fyrsta sinn sendur í sveit, eins og það var þá kallað þá, var það til hennar ljósmóður minnar Salbjargar og Ingvars á Lyngholti, foreldra Berta.

Mér fannst að ekki liði langur tími þar til þau voru komin í sveitina af sínum einskæra áhuga og tilbúin að hjálpa til á bænum.

Þarna upphófst mikill og einlægur kunningsskapur, sem ekki minnkaði þegar konan mín Sonja bættist í hópinn.

Svona var þetta og til varð vinskapur sem aldrei bar skugga á og þau fluttust eins og áður sagði í sveitina þrátt fyrir að vera bæði iðnlærð frá Ísafirði.

Síðustu árin var ég oft í símasambandi við Berta enda var hann hafsjór af fróðleik um menn og málefni og því alltaf gott að leita til hans þegar mann skorti fróðleik um eitthvað að vestan.

Síðast talaði ég við hann kvöldið fyrir andlát hans og þá talaði hann um hvað væri í vændum.

Þeirra beggja verður saknað, já, sárt saknað, og vil ég senda öllum nánustu ættingjunum mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Þórir Halldór Óskarsson.

Engilbert Ingvarsson var einhver mesti hugsjónamaður sem ég hef kynnst. Ódeigur baráttumaður, en ljúflingur í senn. Var fylginn sér og lagði auðveldlega nótt við dag þegar mikið var í húfi. Og þegar maður lítur yfir hans farna veg er ótrúlegt að hugsa hversu miklu hann fékk áorkað.

Aðstæðurnar til þess að vinna að margvíslegum verkum utan hefðbundinna bústarfa voru auðvitað ekki alltaf auðveldar. Tirðilmýri fráleitt í alfaraleið og vegasamgöngur afleitar. Djúpvegurinn komst ekki í gagnið fyrr en liðið var á áttunda áratug síðustu aldar og fjarskipti, í óeiginlegri merkingu, sólárum frá því sem við þekkjum í dag. Í ljósi alls þessa eru verkin hans Engilberts bókstaflega einstæð.

Það er eiginlega sama hvar borið er niður. Engilbert var ótvírætt í forystu fyrir margs konar baráttu- og framfaramálum við Djúp. Barðist fyrir bættum samgöngum, jafnt á sjó og á landi. Átti mikinn þátt í uppbyggingu í orkumálum héraðsins. Meðal annars með byggingu eigin virkjunar á Tirðilmýri. Það var því að vonum að hann var einn þeirra sem unnu að því þjóðþrifaverki að stofna Orkubú Vestfjarða og sat í stjórn fyrirtækisins. Og árum saman var hann einnig í forystusveit bænda, jafnt á Vestfjörðum sem á landsvísu.

Engilbert sannur hollvinur minn. Það var á hinum pólitíska vettvangi sem leiðir okkar lágu einkanlega saman. Og í pólitíkinni dró hann aldrei af sér. Það var eiginlega sama hvar var borið niður á þessu sviði. Ævinlega var Engilbert boðinn og búinn að leggja lið. Alls staðar þekkti hann mann og annan. Og þar sem komið var að tómum kofunum hjá okkur öðrum samverkamönnum hans leysti Engilbert úr málum.

Ósérhlífni hans var líka takmarkalaus og fyrir vikið voru vinnudagarnir hans oft býsna langir, hvort sem var við bústörfin eða á öðrum vettvangi. – Þannig menn eru afreksmenn og Engilbert var einmitt það; afreksmaður.

Ég sagði stundum við Berta vin minn og hafði gaman af að nefna að fleirum viðstöddum, að það sem hann ekki vissi um stjórnmálin væri ekki þess virði að vita. Þá hnussaði í mínum manni og hann bætti gjarnan við: Hvaða vitleysa er nú þetta. En í þessu leyndist það sannleikskorn að Engilbert þekkti svo víða til eftir áratuga reynslu. Hann hafði marga fjöruna sopið, kunni skil á svo mörgu og þekkti til aðskiljanlegra mála. Því var aldrei komið að tómum kofunum hjá honum.

En Engilbert stóð ekki einn. Hún Kristín Daníelsdóttir, Adda konan hans, var honum sannkölluð stoð og stytta. Mér er fullkunnugt um þann mikla atbeina sem hún átti að ýmsu því sem hann kom í verk. Hún skóp honum í raun rými til þess að vinna að og hrinda í framkvæmd mörgu því sem hann beitti sér fyrir. Henni, þessari hljóðlátu og hæversku konu, verður því seint fullþakkað fyrir allt það sem hún lagði af mörkum með sínum hætti. Enda voru þau gjarnan nefnd í sömu andránni; Engilbert og Adda.

Nú er minn góði vinur allur. Það er skarð fyrir skildi. Við Sigrún kona mín minnumst hans og þeirra hjóna með mikilli hlýju. Blessuð sé minning Engilberts Ingvarssonar.

Einar Kristinn Guðfinnsson.