Spenna Mestar líkur eru á að annaðhvort Fylkir eða ÍBV falli.
Spenna Mestar líkur eru á að annaðhvort Fylkir eða ÍBV falli. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
Í dag ræðst hvaða lið fylgir Keflavík niður í 1. deild karla í fótbolta en fimm af sex leikjum síðustu umferðar Bestu deildar karla hefjast klukkan 14. ÍBV með 24 stig, Fylkir með 26, HK með 27 og Fram með 27 stig eru liðin fjögur sem eiga á hættu…

Í dag ræðst hvaða lið fylgir Keflavík niður í 1. deild karla í fótbolta en fimm af sex leikjum síðustu umferðar Bestu deildar karla hefjast klukkan 14.

ÍBV með 24 stig, Fylkir með 26, HK með 27 og Fram með 27 stig eru liðin fjögur sem eiga á hættu hvert fyrir sig að falla en Keflavík er með 15 stig á botninum.

ÍBV er í erfiðustu stöðunni og verður að vinna leikinn og treysta á að Fram vinni Fylki. Endi leikur Fram og Fylkis með jafntefli þarf ÍBV að vinna fjögurra marka sigur til að senda Fylki niður í 1. deild.

HK og Fram eru í mun minni hættu en gætu dregist inn í fallbaráttuna þegar líða fer á leikina ef útlit verður fyrir stóra sigra. Ef ÍBV myndi vinna Keflavík með fjögurra til sex marka mun og Fylkir vinnur Fram gæti annaðhvort HK eða Fram fallið með tapi í sínum leik en HK mætir KA á Akureyri.

Ef ÍBV vinnur Keflavík 4:0 gæti HK fallið með því að tapa 3:0 fyrir KA, og eins gætu Framarar fallið með því að tapa 4:0 fyrir Fylki. Hvert einasta mark gæti því ráðið úrslitum í dag.

Leikirnir í efri hluta deildarinnar hafa minni þýðingu. Víkingar taka við Íslandsbikarnum eftir heimaleik við Val og leikur FH og KR sker úr um hvort liðanna endar í fimmta sæti. Breiðablik og Stjarnan leika lokaleik Íslandsmótsins á morgun og þar nægir Stjörnunni jafntefli til að ná þriðja sæti deildarinnar en bæði lið fara í Evrópukeppni á næsta ári ásamt Víkingi og Val.