Leikari Guðmundur Ingi fer á kostum sem Lárus.
Leikari Guðmundur Ingi fer á kostum sem Lárus.
„Helvítis Íslendingarnir,“ bölvar sænskur mafíósi yfir innkomu Íslendinga á fíkniefnamarkaðinn í Stokkhólmi. Lárus fisksali er búinn að gera sig gildandi, virkar sem sléttur og felldur náungi en er í raun hinn mesti hrotti, sem hikar…

Björn Jóhann Björnsson

„Helvítis Íslendingarnir,“ bölvar sænskur mafíósi yfir innkomu Íslendinga á fíkniefnamarkaðinn í Stokkhólmi. Lárus fisksali er búinn að gera sig gildandi, virkar sem sléttur og felldur náungi en er í raun hinn mesti hrotti, sem hikar ekki við að skjóta ófríska konu, svo dæmi sé tekið um skepnuskapinn.

Þetta er ekki beint góð landkynning í Svíþjóð en hér er nú bara verið að lýsa sænskri spennuþáttaröð, Gasmömmunni, sem Ljósvaki uppgötvaði nýverið í sarpi Stöðvar 2. Er kominn í þriðju þáttaröð af sex en þar hefur Guðmundur Ingi Þorvaldsson leikari komið sterkur inn sem Íslendingurinn Lárus. Fantavel leikið hjá Guðmundi og á móti honum í íslenska glæpagenginu fer Ingi Hrafn Hilmarsson með nokkrar vel valdar línur.

Þættirnir voru framleiddir á árunum 2015-2022 og hafa fengið góða dóma. Fjalla um sögu sænskrar mafíufjölskyldu sem berst við önnur glæpagengi í Stokkhólmi. Aðalhlutverkið leikur ein fremsta leikkona Svía, Alexandra Rapaport.

Mitt í fréttum af gengjastríði í Stokkhólmi er dálítið súrealískt að horfa á sænska spennuþætti þar sem Svíar og Íslendingar berast á banaspjót. Ljósvaki á eftir nokkra þætti í þriðju seríunni og óttast að íslensku „fisksalarnir“ hafi ekki roð við Svíunum.

Höf.: Björn Jóhann Björnsson