Bros Ingvar og Þóra komin langleiðina með 100 km hlaupið.
Bros Ingvar og Þóra komin langleiðina með 100 km hlaupið.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Þóra Bríet Pétursdóttir hljóp rúmlega 100 km á um 16 klukkutímum til styrktar Gleymmérei-, Parkinson- og Alzheimersamtökunum um liðna helgi. Hún segir að tengdaforeldrar sínir séu hvort með sinn sjúkdóminn en hafi alltaf verið dugleg að hreyfa sig og hreyfing verið mikill þáttur í baráttu þeirra við parkinson og alzheimer. „Tengdaforeldrar mínir voru mér mikill innblástur til að fara út í þetta erfiði og ég vildi vekja athygli á því að hreyfing er góð, alltaf, þótt ekki sé hollt að hlaupa svona langt í einu. Markmiðinu er náð ef ég ég fæ einhvern einn til þess að hugsa að fyrst ég geti hlaupið 100 kílómetra geti hann hlaupið einn kílómetra.“

Ingvar Hjartarson, samstarfsfélagi Þóru og þjálfari í náttúruhlaupum, eins og hún, skipulagði hlaupaleiðina og hljóp með henni. Þau byrjuðu í Árbænum, hlupu yfir Hólmsheiði og Úlfarsfell, upp að Gunnlaugsskarði og Steini á Esju, aftur inn á Hólmsheiði, um Rauðhóla, Þjóðhátíðarlund, upp á Búrfell og Helgafell í Hafnarfirði, til baka að Hvaleyrarvatni, Vífilsstaðavatni, inn í Guðmundarlund og að Árbæjarsafni, þar sem hlaupinu lauk. „Ég veit ekki til þess að þessi leið hafi veið hlaupin áður en kannski hefur hún verið tengd með öðrum hætti,“ segir hún, en margir hlupu með þeim hina og þessa leggi. „Það var dásamlegur stuðningur.“

Þetta var í annað sinn sem Þóra hljóp 100 km en áður gerði hún það á um 18 tímum í óveðri í Hengilshlaupinu. „Þá var hækkunin samtals um 4.500 metrar en nú um 3.000 metrar.“

Langalangafinn fyrstur?

Þóra skráði sig á námskeið hjá Náttúruhlaupum 2018 og byrjaði þá markvisst að hlaupa. Um haustið varð hún þjálfari hjá félagsskapnum og hefur verið það síðan. Hún er í Leiðsöguskólanum og starfar sem leiðsögumaður auk þess sem hún tekur að sér bókhaldsverkefni, en hún vann sem bókari þar til í fyrra.

Pétur Haukur Helgason faðir Þóru hefur verið helsta fyrirmynd hennar í hlaupunum, en hann hefur einu sinni hlaupið 100 km og yfir 50 maraþon auk þess sem hann hefur skipulagt 138 10 km hlaup í Elliðaárdal. „Ég byrjaði að skokka með honum og frá því ég var tíu ára hefur verið draumur minn að hlaupa maraþon með pabba.“ Þess má geta að dr. Helgi Pjeturss, jarðfræðingur og langalangafi Þóru, byrjaði að hlaupa upp úr tvítugu sér til heilsubótar. „Hann er talinn fyrsti langhlaupari á Íslandi.“

Feðginin voru skráð í maraþon í Kaupmannahöfn í maí 2020 en það var fellt niður vegna covid. Þá setti Þóra saman maraþonhlaupaleið honum til heiðurs, meðal annars með hlaupaleiðum sem hann hefur skipulagt og hljóp maraþon honum til heiðurs sama dag og þau áttu að hlaupa í Danmörku. „Hann hljóp með mér helminginn og við munum hlaupa saman maraþon, en við erum einu feðginin í Félagi 100 kílómetra hlaupara á Íslandi.“

Þóra leggur áherslu á að faðir sinn hafi lagt sitt af mörkum fyrir hlaupara. „Þetta er lífsstíll, sem ég hef alltaf horft upp til hjá pabba.“ Hlaup úti í náttúrunni séu krefjandi en hún þekki ekki betri leið til þess að kynnast sjálfri sér. „Alltaf er gott að fara í gegnum hlaup þar sem maður fer í gegnum dimma dali. Maður lærir mikið af því og að koma upp úr þeim er mikill sigur. Það gerir mann sterkari og betri manneskju. Ef maður bara brosir er allt hægt.“

Styðja má söfnunina með því að leggja inn á reikninginn (kt. 031294-2159, reikn. 0528-26-005877).