Dagbjört Gísladóttir fæddist 2. júlí 1963. Hún lést 19. september 2023. Útför fór fram 6. október 2023.

Með sorg í hjarta hlusta ég á rigninguna berja á gluggana í takt við tilfinningar mínar. Að Dagga systir mín sé látin er mér enn óraunverulegt og ekki annað hægt að segja en himnarnir gráti með mér þessa stundina. Systurnar – Skytturnar þrjár eins og hún kallaði okkur alltaf. Dagga var elst af okkur þrem systrum sem ólumst upp saman ásamt tveimur bræðrum. En við vorum sex systkinin, að hálfsystur okkar meðtalinni. Það mun vanta mikið inn í tilveruna að hafa ekki Döggu hér lengur á meðal okkar systkinanna.

Dagbjört Gísladóttir systir mín var sannkölluð kjarnakona, hörkudugleg og frábær fyrirmynd. Ég leit alltaf upp til hennar því hún var svo drífandi og sjálfstæð. Hvað sem hún tók sér fyrir hendur í lífinu gerði hún vel. Hún naut þess að hlúa að fólkinu sínu og allir sem kynntust henni nutu góðs af. Dagga var með stórt hjarta og faðmur hennar stór. Heimilið var hennar griðastaður þar sem hún varði tíma sínum með fjölskyldunni og hundunum sínum. Sinnti áhugamálum sínum, málun, skriftum og fleira. Hún gerði heimilið að sínu og manni leið alltaf vel í þessu fallega umhverfi sem hún skapaði. Systir mín var mikill fagurkeri sem elskaði blóm og var garðurinn litríkur af blómum og fegurð. Dagga systir var mikill náttúruunnandi. Fjöllin og fjaran heilluðu hana mikið og elskaði hún að taka myndir í göngutúrunum. Til eru margar fallegar myndir sem hún tók á lífsleiðinni.

Þegar dóttir mín lenti í hræðilegu bílslysi árið 2016 og var ekki hugað líf var elsku systir mætt suður til mín og stóð með mér eins og klettur allan tímann. Ég minnist stóru systur með þakklæti í hjarta. Án hennar veit ég ekki hvernig ég hefði farið í gegnum þessa hræðilegu lífsreynslu. Dagga var svo falleg sál.

Við áttum svo margar góðar samverustundir. Áramótin hjá Döggu og Kobba eru eftirminnileg og sá tími sem þau fjölskyldan heimsóttu okkur í Mývatnssveitina á sumrin. Auk þess voru Dagga og Kobbi guðforeldrar yngsta sonar míns, Alexanders Smára.

Ég minnist systur minnar sem var alltaf til staðar fyrir okkur fjölskylduna.

Ég minnist systur minnar fyrir hvað hún hugsaði vel um foreldra okkar og okkar elsta bróður í þeirra veikindum.

Ég minnist systur minnar með þakklæti fyrir góðu stundirnar, hlátursköstin en húmorinn hennar var einstakur.

Systir mín var sérstök, engin var eins og hún. Enginn faðmur var eins og hennar faðmur var, það faðmaði enginn eins og Dagga systir. Þú varst allt sem ég gæti einhvern tímann viljað í systur. Elskandi, ástrík, hlý, kærleiksrík, sterk, falleg, hugrökk og hjartahlý. Þú varst yndisleg vinkona og frábær systir. Heimurinn er á betri stað í dag því þú varst í honum. Ég er svo þakklát fyrir þig og takk fyrir að hafa elskað mig eins og ég er. Þú skilur eftir stórt skarð í hjarta mínu nú þegar þú ert farin. Þú varst og ert og verður alltaf drottningin mín.

Elsku systir, takk fyrir allt sem þú hefur gefið mér. Ég kveð með þakklæti í hjarta mínu. Elska þig.

Elsku Kobbi, Gísli, Kristófer og Guðrún, mamma og aðrir aðstandendur. Guð gefi ykkur styrk.

Elín Björk Gísladóttir.

Elska þig, þú elska þig

þú ert … bestur bróðir

Þetta voru síðustu skilaboðin sem Dagga systir sendi mér, skrifað með stórum bókstöfum, tíu rauðum og fjórum grænum hjörtum. Stuttu síðar kom símhringing frá mági mínum sem sagði mér að taka næstu flugvél út til Íslands, tíminn væri að renna út, ekki nema klukkustundir eftir, kannski tveir dagar. Ég tók næstu flugvél frá DUS Airport yfir Kaupmannahöfn til Íslands, en kom of seint. Hún hafði þá þegar skilið við, var hætt að anda, var hætt að vera til, samt kom haustið sem endranær, í miklum litskrúða; uppáhaldsárstíð Döggu.

Dagbjört var dugnaðarforkur og hélt utan um allt og alla sem stóðu henni nær, þannig var það bara, ekki síst sitt eigið fólk, Jakob og börnin, en líka fjölskylduna okkar, systkini sín og foreldra. Hún var vinur vina sinna og var frá náttúrunnar hendi hjálpsöm, vildi öllum vel, var til staðar ef þörf var á, ef einhver vandamál voru sem þurfti að leysa, veikindi þar sem þörf var á umhyggju og alltaf var hún tilbúin að leiðbeina, styrkja og byggja fólk upp. Það má segja að hún hafi engum gleymt nema ef vera skyldi sér sjálfri. Ég reyndi stundum að minna hana á þetta, en hún vildi ekki heyra á það minnst. Þó sáust merki þess að breytingar væru í aðsigi. Hún var byrjuð að draga sig meira til baka, farin að huga meir að eigin skinni, vellíðan og heilsu, klæddist oftar kjólum sem hún hafði svo til aldrei gert áður. Og það var enn meiri birta yfir henni en verið hafði, húðin virtist fíngerðari, andlitið fagurt og manni fannst eins og blíðleg augun sæju enn oftar en verið hafði yfir í þennan fjarlæga heim sem gaf sig út fyrir að vera betri en okkar hér á jörðu. Suðrænt umhverfi Miðjarðarhafsins og gríska eyjan Krít endurspegluðu að mörgu leyti og á einhvern undursamlegan hátt þessa fjarlægu veröld, en einmitt þar leið henni vel og naut sín sem best, fannst hún vera komin heim eins og hún kallaði það og á stundum dreymdi hana um að kaupa þarna land og setjast að, gróðursetja ólífutré og framleiða olíu úr ólífunum.

Hún málaði myndir af þessari óríentalísku veröld með litbrigðum sem virtust koma að handan, vera utan við hinn efnislega veruleika okkar. En þarna var það þráin sem var sterkari en þekkingin, þráin sem vísar veginn til sannleikans, til skilnings okkar á tilverunni, tengir okkur við þessa undursamlegu „fjarlægð“ sem í sömu andrá er svo handhæg og nálæg og gefur fyrirheit um að lífið hér á jörðu hafi á endanum einhvern dýpri tilgang sem tengist því ljósi sem við fæddumst inn í.

Elska þig, þú elska þig

þú ert … best systir

10 rauð hjörtu og fjögur græn

Haustlitasinfónía

Nú er það komið

haustið eilífa

Allt kyrrist

Engir litir

komast hjá því að breytast

Haustið eltir þá uppi

hvort sem þeim líkar

betur eða verr

Breytir þeim umbreytir þeim

blessuðum einlægu litunum

Og haustið skipar þeim

að hætta að væla

skipar þeim harðri hendi

að gegna hlutverki sínu

göfugu hlutverki sínu:

Að syngja hinu hverfula dýrðaróð

Syngja hinu horfna saknaðaróð

Syngja hinu ókomna fagnaðaróð

(Sigurður Pálsson)

Jón Thor Gíslason.

Elsku Dagga.

Ég á Döggu svo mikið að þakka, hún bjargaði lífi mínu sem barn þegar hún tók mig að sér og var alltaf til staðar fyrir mig í gegnum lífið. Elskaði mig alla tíð sem sína eigin dóttur, sem er ekki sjálfsagður hlutur og ég verð ævinlega þakklát fyrir.

Ég mun sakna þess mest að koma norður til Döggu og Kobba, Dagga var besti gestgjafinn, tók manni alltaf opnum örmum. Alltaf góður matur, hugsaði alltaf svo vel um mann, heilaði mig, alltaf tilbúin að hlusta og dæmdi mann aldrei.

Þegar ég hugsa til Döggu þá kemur bara efst í huga kærleikur og ást. Það eru blendnar tilfinningar að Dagga fékk að kynnast stráknum mínum en fékk ekki mikinn tíma með honum eða hann með henni. Ég hefði viljað að strákurinn minn fengi að kynnast Döggu betur og ganga í gegnum lífið með henni eins og ég var svo heppin að fá að gera þar sem hún skilur eftir sig svo ótrúlega mikið. Takk fyrir allt elsku Dagga mín og ég mun sakna þín að eilífu.

Sandra Líf Sigurðardóttir.

Ég veit ekki hvað ég á að segja né skrifa, hefur ekki oft verið eins orða vant og núna þegar komið er að því að kveðja ástkæra mágkonu mína hana Döggu. Hún kom inn í líf mitt þegar Kobbi bróðir kom heim með þennan dásamlega engil sem hún Dagga var. Ég veit ekki til þess að henni hafi nokkurn tímann sinnast við nokkurn mann. Réttsýn, traust og trú sínum og allra manna hugljúfust. Fyndin og hnyttin, já hún var svo sannarlega gædd bestu eiginleikum sem nokkur getur hugsað sér eða óskað.

Dagga fór ekkert í gegnum lífið á einhverjum vængjum, nei aldeilis ekki, hún tókst á við ýmislegt eins og aðrir. Alvarleg slys hjá sínum nánustu, ekki eitt og ekki tvö en þessi elska stóð alltaf uppi bogin en ekki brotin. Ég tek mér orð systur hennar í munn þegar ég segi að við misstum ekki bara hana Döggu, við misstum heila hersveit, því að það átti hún skuldlaust að hún var dugnaðarforkur hvort sem var til vinnu eða annarra verka, Dagga gekk í það og skilaði alltaf góðu verki.

Ég átti margar góðar stundir niðri í Strandgötu hjá Döggu og Kobba. Ég passaði fyrir þau og var alltaf velkomin og áttum við góðar stundir, Dagga með tab og rís og ég og Gísli með kókómjólk og kex með súkkulaðibitum, það eru góðar minningar. Ég á margar minningar sem ég mun geyma í huga mér og minnast þeirra með söknuði og hlýju.

Dagga var mömmu og pabba afskaplega góð og einhvern veginn eftir andlát þeirra þá var hún strax búin að græja blóm og annað sem til þurfti á þeim árstíma. Við þurftum ekki einu sinni að biðja, hún bara gerði það. Það lýsir henni vel, hún gekk í þau verk sem fyrir lágu og aldrei neitt mál. Hugulsemi hennar er vel lýst svoleiðis að það hefur ekki liðið það vor eða aðfangadagur sem hún hefur ekki sent mér mynd af leiði mömmu og pabba, ýmist með nýjum blómum að vori eða jólaskreytingum um jól. Mikið á ég eftir að sakna þeirra sendinga.

Dagga var öllum góð en eitt verð ég að nefna, það eru jólagjafir sem hún og Kobbi sendu krökkunum mínum, fjársjóðskista er eitt orð yfir það sem í pakkanum var. Dót, föt, nammi, bækur og bara alls konar sem henni datt í hug að setja með, alltaf sama spennan að opna pakkann frá þeim.

Elsku Dagga, skarðið sem þú skilur eftir er ansi stórt og ekki í mannlegu valdi að reyna að fylla það, þú varst klettur allra, og eins og ég sagði við þig fyrir tæpum fjórum vikum: þú tekur þetta með trompi, þú massar þetta eins og allt sem þú gerir enda áttu svo mikið inni hjá almættinu að hann hlýtur að vera með þér í liði.

Þú svaraðir mér að þú skyldir berjast og það gerðirðu svo sannarlega. Ég var almættinu reið fyrir að taka þig, en það er ekki í þínum anda að vera reið eða ill út í eitthvað sem maður ræður ekki við og því lít ég svo á að almættið hafi greinilega viljað hafa þig í sínu liði, bara á öðrum stað.

Elsku Dagga, með þessum fátæklegu orðum kveð ég þig að sinni. Þér til heiðurs verð ég ávallt með lakkaðar neglur framvegis. Elsku Kobbi, Guðrún, Kristó, Gísli, litli Kobbi og Dagga, systkini og elsku Jóna, guð veri með ykkur.

Sólveig Bláfeld.