Höfundur segir að það sé skylda frjálsra þjóða að styðja Úkraínu og önnur ríki sem sæta yfirgangi.
Höfundur segir að það sé skylda frjálsra þjóða að styðja Úkraínu og önnur ríki sem sæta yfirgangi. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fólk sem á yfir höfði sér grimmilega hersetu fjandsamlegs ríkis hefur ekki neinn valkost annan en að setja eigin varnir og lífsbaráttu í forgang umfram allt annað.

Úr ólíkum áttum

Þórdís Kolbrún R.

Gylfadóttir

thordiskolbrun@althingi.is

Það er nokkurn veginn sama á hvaða mælikvarða er litið. Ísland er ætíð meðal þeirra ríkja sem koma einna best út varðandi þá þætti sem litið er til þegar reynt er að gera mælingar á lífsgæðum. Í þessari viku kom til dæmis út samanburður á því hvaða ríki í heiminum væru friðsælust og öruggust. Þar er Ísland efst á blaði, eins og verið hefur undanfarin fjórtán ár.

Af öllum þeim fjölbreyttu samanburðarlistum sem gerðir eru milli landa er þetta kannski sá sem skiptir einna mestu máli. Í löndum þar sem þjóðir búa ekki við öryggi, hvort sem er vegna utanaðkomandi ógna eða stjórnleysis innan eigin landamæra, er nánast ómögulegt að huga að öðrum umbóta- og framfaramálum.

Eitt af því fjölmarga sem við Íslendingar getum verið þakklát fyrir er að hafa aldrei þurft að sæta harkalegri innrás erlends ríkis. Við höfum heldur ekki verið hersetin með þeim hætti sem fjölmargar þjóðir heims eiga langa, blóðuga og bitra sögu um. Þegar kemur að hugsun um varnar- og öryggismál er því erfitt að setja okkur í sömu stellingar og þær þjóðir sem geyma margra kynslóða minningar um slíkan hrylling. Íslendingar þekkja þó mætavel afleiðingar þess að ráða ekki sínum eigin málum og hversu mikill lykill að hagsæld og blómlegu samfélagi felst í því að taka í eigin hendur þá ábyrgð að vera fullvalda og sjálfstætt ríki.

Næg viðfangsefni þrátt fyrir velmegun

Þrátt fyrir velmegun okkar í samanburði við flestar aðrar þjóðir þá er það sífellt viðfangsefni okkar að gæta að hagsmunum okkar og styrkja stoðir samfélagsins. Í þessari viku hef ég heimsótt fjölmarga staði í kjördæminu mínu og fengið beint í æð þann kraft sem er í atvinnu- og mannlífi hvert sem litið er. Vissulega eru áskoranirnar miklar, víða er til dæmis ójafnt gefið varðandi mikilvæga innviði sem eru forsenda samkeppnishæfs atvinnurekstrar. Þau miklu lífsgæði sem felast í því að búa í fallegu, friðsælu og öruggu umhverfi eins og Ísland hefur upp á að bjóða verða ekki metin til fjár. Það er hins vegar forsenda þess að fólk geti nýtt sér þessi miklu lífsgæði að til staðar sé verðmætaskapandi atvinnulíf með eftirsóknarverðum atvinnutækifærum, og að í samfélaginu ríki bæði friður og öryggi.

Aðgangur að umheiminum

En það eru ekki aðeins innviðirnir sem skipta máli þegar kemur að tækifærum okkar. Verðmætasköpun sem byggist á hugviti og nýsköpun þekkir engin landamæri; til þess að standast samkeppni á heimamarkaði þarf jafnframt að vera samkeppnishæfur við það besta sem gerist alþjóðlega. Það er því algjörleg forsenda þess að Ísland geti áfram boðið upp á framúrskarandi lífsgæði og tækifæri að íslenskt fólk og fyrirtæki hafi góðan aðgang að bæði mörkuðum og menningarlegum straumum frá umheiminum. Þetta skiptir máli fyrir allan atvinnurekstur, hvort sem hann er á höfuðborgarsvæðinu eða landsbyggðinni. Þá skiptir það okkur einnig máli að við höldum vel og skynsamlega á okkar málum gagnvart umheiminum.

Í mínum huga er mikilvægasta hagsmunamál Íslands í utanríkismálum að samskipti þjóða markist af lögum og reglum og að þau geti átt í friðsamlegum viðskiptum sín á milli. Það er á grundvelli alþjóðlegra laga, og þeirra stofnana sem gæta þeirra, að þjóðir heims eiga að jafnaði ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því að nágrannar þeirra ráðist inn í þau og geri tilraunir til þess að ræna landi og fólki. Þegar þessi forsenda rofnar, eins og hefur gerst í Úkraínu með innrás Rússlands, þá setur það úr skorðum allt annað í því samfélagi sem verður fyrir árás. Fólk sem á yfir höfði sér grimmilega hersetu fjandsamlegs ríkis hefur ekki neinn valkost annan en að setja eigin varnir og lífsbaráttu í forgang umfram allt annað. Að mínum dómi er það skylda frjálsra þjóða að styðja slíka varnarbaráttu með öllum sínum ráðum og dáð.

Yfirgnæfandi stuðningur íslensku þjóðarinnar við málstað Úkraínu, og pólitísk samstaða, sýnir að mínum dómi ekki aðeins að Íslendingar hafa samúð með þjóð sem sætir grimmilegri árás. Einörð afstaða Íslendinga er líka vitnisburður um djúpstæða virðingu fyrir okkar eigin sjálfstæði og okkar eigin fullveldi. Við vitum að ekkert er sjálfgefið í þeim efnum og þótt við getum verið þakklát fyrir okkar eigið öryggi og þann frið sem við njótum, þá er hollt að minnast þess að það er allt á grundvelli þeirra traustu varna sem felast í alþjóðalögum, alþjóðastofnunum og – ef allt annað þrýtur – yfirgnæfandi fælingarmætti bandalagsríkja okkar í Atlantshafsbandalaginu.