[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rafvæðing bílaflotans er spennandi viðfangsefni en leysir engan veginn loftmengunarvanda heimsins þótt það væri framkvæmanlegt.

Stefán Sæmundsson

Til að komast að meginefni þessa stóra máls, sem hrellir alla heimsbyggðina, þarf nokkurn formála og tölfræðilegar staðreyndir, sem því miður eru frekar þreytandi aflestrar. Til skýringar eru kökurit og súlurit unnin úr nýjustu fáanlegu gögnum, verulega einfölduð en þó skýr.

Koltvísýringur

Koltvíildi (CO2) í andrúmsloftinu mælist um 0,04% og flestir vísindamenn telja að aukning um rúmlega 100 milljónasta hluta þess magns geti verið af mannavöldum. Ekki fer mikið fyrir áliti fárra en virtra vísindamanna sem draga í efa að frekari aukning á CO2 muni hafa áhrif á hitastig jarðarinnar, enda passar það illa í æsifréttir um hamfarahlýnun.

Talið er að árlega verði til um 50 milljón tonn af svokölluðum gróðurhúsalofttegundum í heiminum, þar af verði um 73% til við orkuframleiðslu. Lítum nánar á það hvar í heiminum brennsla eldsneytis er mest og hvaða orkugjafa löndin nota.

Brennsla eldsneytis sem veldur losun CO2 er af einstökum ríkjum mest í Kína, meira en samanlagt í Bandaríkjunum (Norður-Ameríku) og Evrópu. Af öðrum ríkjum eru Indland og Íran samanlagt með svipaðar tölur og öll Evrópa. Hluti Rússlands er hér talinn með Evrópu og vegur þar um 30%. Beinum athygli okkar svo að rafmagnsframleiðslu sem tengist svokölluðum orkuskiptum.

Rafmagn

Framleiðsla á rafmagni í löndum heimsins er mest með brennslu jarðefna, en einnig er framleitt rafmagn með kjarnorku og endurnýjanlegum orkugjöfum.

Sex stór lönd skera sig úr hvað þetta snertir. Suður-Afríka notar hlutfallslega mest jarðefnabrennslu, Noregur notar mest endurnýjanlega orku, en Frakkland, Svíþjóð, England og Kanada nota hlutfallslega mest kjarnorku. Eina landið sem nú þegar stefnir ákveðið að breyttu hlutfalli orkunotkunar er Kína, þar eru í byggingu 24 kjarnorkuver af þeim u.þ.b. 60 sem áætlað er að byggja í heiminum á næstunni.

Orkuskipti

Orkuskipti eru kostnaðarsöm og þá er spurning hvar á að byrja. Mikil umræða um orkuskipti virðist beinast að bílum, og nokkur lönd stefna að því að útrýma bensín- og díselbílum á næstu árum.

Til að átta sig á því hvað bílar eru lítill hluti af mengunarvandanum verðum við að líta á orkunýtingu heimsins í heild.

Áðurnefnd 73% orkunotkun skiptist mjög misjafnlega, en þar fer stærsti hlutinn í iðnað, um 24%, næst koma byggingarframkvæmdir, um 17%, og þar á eftir 16% í flutninga. Mest eru þar flutningar á vegum, 12%, bæði vöruflutningar og fólksflutningar. Ekki eru sérstakar tölur um hlut einkabíla en flug mælist með 1,9%.

Rafvæðing bílaflotans er spennandi viðfangsefni en leysir engan veginn loftmengunarvanda heimsins þótt það væri framkvæmanlegt. Það er þó skref í rétta átt í löndum eins og Íslandi og Noregi þar sem rafmagn er framleitt á endurnýjanlegan hátt. Hins vegar má rökstyðja að mengun stórborga gæti minnkað ef orkuverin væru fjarri miðborgum.

Bandaríkin hafa ekki sett sér nein markmið um orkuskipti bílaflotans, sýnt þykir að rafdreifikerfi landsins myndi ekki bera þá aukningu nema með gífurlegum kostnaði við uppfærslur.

Niðurstaða

Parísarsamkomulagið frá 2015 setti háleit markmið, en verkáætlun og verðmiðinn fylgdu ekki með.

Síðustu daga hefur orðið stefnubreyting hjá nokkrum nágrannaríkjum okkar í austri, ákveðið var að draga úr eyðslu í orkuskipti og mengunarvarnir, eða alltént fresta framkvæmdum.

En megum við hafa túristagos af og til sem mengar margfalt meira en allir Íslendingar og eigum við að leyfa skemmtiferðaskipum að koma hingað og menga meira en allur bílafloti landsmanna?

Forstjóri Toyota, sem er stærsti bílaframleiðandi heims, kynnti nýlega þá stefnu fyrirtækisins að einblína ekki á rafmagnsbíla í náinni framtíð, bílakaupendur ættu að hafa fjölbreytta valkosti.

Ég vil gera hans orð að mínum, ég vil fá að ráða því hvaða farkost ég vel og ég ætla að ferðast með flugvélum án þess að hafa samviskubit yfir útblæstri sem varla telur í víðara samhengi.

Heimildir: OurworldInData (2022)

Höfundur er flugmaður.