Jóel Kristinn Ríkarðsson fæddist í Reykjavík 4. desember 1949. Hann lést á Hlíð 17. september 2023.

Foreldrar Jóels voru Ríkarður Valdimarsson vélstjóri, f. 3. janúar 1916, d. 26. apríl 1975, og kona hans Elín Valgerður Jóelsdóttir, húsmóðir og verkakona, f. 16. apríl 1917, d. 25. janúar 1963.

Systkini Jóels eru Sveinn Valdimar, f. 9. október 1945, og Margrét Ingibjörg, f. 11. janúar 1954.

Fjölskyldan bjó í Reykjavík og Mosfellssveit í nokkur ár en flutti norður til Dalvíkur 1959. Árið 1960 flutti hún á Hólaveg 11 og bjó Jóel þar, þar til hann flutti á Hjúkrunarheimilið Hlíð í desember 2022, eftir dvöl á SAk.

Sambýliskona Jóels og móðir barna hans var Sólveig Hjálmarsdóttir, f. 23. október 1951, d. 7. nóvember 1998. Þau skildu að skiptum.

Börn þeirra eru Sveinn Ríkarður, f. 12. janúar 1973 og Sigrún Sif, f. 14. febrúar 1975.

Börn Sveins og konu hans Guðrúnar Dóru Clarke eru Mikael Máni og Helga Sólveig.

Synir Sigrúnar eru Jóel Kristinn, Kristján Ríkarður og Nikulás Eugene.

Jóel vann lengi almenna verkamannavinnu á Dalvík. Hann vann líka á Tæknideild Dalvíkur í allnokkur ár.

Jóel var Dalvíkingur, partur af samfélaginu. Flestir, ungir sem aldnir, þekktu hann eða vissu hver hann var.

Útför hans fer fram frá Dalvíkurkirkju í dag, 7. október 2023, kl. 13.

Jóel bróðir minn var fæddur í Reykjavík, alinn upp þar, í Mosfellssveit og á Dalvík. Eldri bróðir hans er Sveinn Valdimar og ég litla systir hans. Foreldrar okkar voru Ríkarður Valdimarsson vélstjóri og Elín Valgerður Jóelsdóttir húsmóðir og verkakona.

Námsferill Jóels hófst á Brúarlandi í Mosfellssveit. Síðar sótti hann nám í barnaskóla og unglingaskóla á Dalvík. Þar lauk hann landsprófi. Eftir landsprófið fór hann í Menntaskólann á Akureyri. Stóð þar stutt við eða aðeins eitt ár. Eftir það fór hann út á vinnumarkað.

Lífið fór ekki alltaf um hann mjúkum höndum. Móðir okkar lést þegar Jóel var 13 ára. Ég man eftir sorginni sem gagntók hann þegar pabbi sagði honum frá andláti hennar. Hann missti mjög mikið þegar það gerðist.

Hann átti samt góða æsku í Mosfellssveitinni og á Dalvík. Vegna veikinda mömmu okkar bjuggum við til lengri og skemmri tíma hjá ættfólki okkar og var vel hugsað um okkur.

Tíminn leið og við uxum úr grasi. Jóel var á vinnumarkaði. Hann átti vinkonu, hana Sollu Bomma, en hún var í New York og vann þar sem húshjálp/barnfóstra í u.þ.b. eitt ár.

Jóel og Solla skrifuðust á megnið af tímanum sem hún var ytra. Þegar hún kom heim tókust með þeim ástir. Þau hófu sambúð, eignuðust tvö börn, þau Svein og Sigrúnu, og síðar fimm barnabörn. Solla og Jóel slitu samvistir. Sveinn flutti til pabba síns en Sigrún bjó hjá mömmu sinni. Solla lést 7. nóvember 1998.

Ekki var mikill samgangur á milli okkar systkina, sérstaklega á meðan við bjuggum hvort á sínu landshorninu. Eftir að ég flutti norður jókst samgangurinn nokkuð.

Fyrir nokkrum árum veiktist Jóel og fór í nokkrar innlagnir á SAk. Á meðan á síðustu innlögninni stóð sáumst við oft. Í desember á síðasta ári flutti hann á Einihlíð sem er eitt af heimilum hjúkrunarheimilisins Hlíðar á Akureyri. Frá því hann fluttist þangað hittumst við nánast daglega. Mikill systkinakærleikur þróaðist með okkur þetta tæpa ár sem hann dvaldi á Hlíð.

Á Einihlíðinni leið honum mjög vel. Þar er yndislegt starfsfólk sem reyndist honum vel. Hann fékk góða umönnun í anda hugmyndafræði Þjónandi leiðsagnar. Hjartans þakkir fyrir það, kæra starfsfólk.

Síðustu mánuði fór honum aftur og fór að bera mikið á málstoli og verkstoli.

Jóel lést sunnudaginn 17. september á heimili sínu Einihlíð/hjúkrunarheimilinu, Hlíð Akureyri.

Í heitu myrkri líkamans

byrjar ferð vor

án þess vér vitum

hvert vegurinn liggur

Í köldu myrkri jarðarinnar

endar ferð vor

og vér vitum ekki lengur

að þessi ferð var farin

(Halldóra B. Björnsson)

Elsku Jóel, nú skiljast leiðir. Hjartans þakkir fyrir allt. Megi almættið varðveita sál þína og megir þú eiga óteljandi ánægjulegar hjólaferðir í Sumarlandinu.

Þín systir,

Margrét (Magga).