Ólafur Stefánsson
Ólafur Stefánsson
Það er sagt þetta hlaup hafi svo fljótt komið að ein prestsdóttir hafi fundist við Dýralæki með hárgreiðuna í hárinu, með hverri hún var að kemba sér.

Ólafur Stefánsson

Í þessari grein ætla ég meðal annars að tilfæra ljóð þar sem tengt er við fornsögur og gamla texta.

Þegar Guðmundur Böðvarsson orti eftir Jón Pálsson frá Hlíð, þann sem þýddi söngtextann um Stenka Rasin, setti hann sem fyrirsögn „Ekki má ek blóð sjá“. Þarna vísar Guðmundur í Fóstbræðra sögu, þar sem Þorkell mælir þessi orð við Þorgeir Hávarsson.

Annað dæmi frá Guðmundi þar sem hann vinnur úr fornum texta er hið gullfallega og dulúðuga ljóð Stúlkan í Lágey, sem við getum ekki skilið án forsögunnar.

Við Dýralæki

greiddi ég mitt gullna hár

og gott var þeirra hvísl og rísl

í blíðunni

og sólin skein á himninum

og himinninn var blár

ég horfði á mína ungu mynd

í lindinni

og sá að ég var fegurri

en systur mínar þrjár.

Sæl var ég þann morgun

og sæl mín fagra ey

og sál mín full af trú á guð

og hljóðri þrá

- ég hafði heitið stóru kerti

á Maríu mey

við mínum bænum

sagði hún löngum já

ég fann að það fór mjúkur roði

um mína björtu kinn.

Þú manst hvað síðan gerðist

drottinn minn.

Ég sá að ég var fegurri

en systur mínar þrjár

og sunnanblæsins fingur

höfðu bylgjulagt mitt hár.

Sá dagur var mér fyrirheit

um fylling minnar þrár.

Ég fyrirgef þér aldrei

drottinn minn.

Guðmundur sækir efnið í frásagnir séra Jóns Steingrímssonar af hlaupum úr Mýrdalsjökli, sem hann tilfærir í ritum sínum, og við hið 6. hlaup sem Jón ársetur 1316 segir:

„Það er sagt þetta hlaup hafi svo fljótt að komið, að ein prestsdóttir hafi fundist við Dýralæki með hárgreiðuna í höfðinu, með hverri hún var að kemba sér þá hlaupið kom.“

Guðmundur Kamban finnur líka rómantík í fornsögum og vitnar í Þórdísi dóttur Guðmundar ríka sem þráaðist við að gefa Sörla dóttur sína en kom henni fyrir hjá bróður sínum.

Sörli kom þangað en Þórdís var þá úti að léreftum sínum og fagnaði Sörla með þeim frægu orðum: „Nú er mikið um sólskin og sunnanvind og ríður Sörli í garð.“

Kvæði Kambans Vikivaki endar svo:

Hvað er ártalið? Eitthvað lætur

í eyrum mér, færist nær,

hjartað syngur og hjartað grætur,

og hjartað tryllist og slær.

Heyrist jódynur heim að bænum

þau hóftök ein þekki ég

og fer mér stillt eftir grundum grænum

og gesti mínum í veg.

Vantraust Guðrúnar, vonsvik Kjartans

með vopnum enda sinn fund.

En þetta er vísan um vissu hjartans

og vonglaða' íslenska lund …

Stína rakar, og Bjössi bindur

og bóndinn hirðir sinn arð.

Nú er sólskin og sunnanvindur

og Sörli ríður í garð.

Í kvæðinu Jórvík kallast Þorsteinn frá Hamri á við Höfuðlausn Egils og setur sig í spor hans eina nótt.

Sem löngum fyrr

er vor frændum varnað höfuð

lausnar;

svölur klaka við glugg

og spyrji vinir vorir

hvað kvæði líði

svörum við frændur jafnan

að ekki er ort.

Vermalandsferðir vorar

eru að sönnu heldur rislitlar;

vér höfum verið friðmenn hér á götunum;

síðustu forvöð að játa

að umsvif vor mættu vera meiri;

Vér hneigjum dauðadæmd höfuð í feld

í milli þess að vér kneyfum hvert full –

og faldur kemur oss í hug skáldum

meðan þekjan er rofin með hægð;

um síðir bindur blóðöx enda

á marklaust drykkjuraus vort:

Hið besta var kvæðið flutt.

Enn eru Björn Halldórsson í Laufási og Þorbergur eftir.

Björn yrkir á sínum tíma, sumir segja kvöldið fyrir brúðkaup sitt, tragískt kvæði um sólarlag og komandi koldimma nótt.

Dags lít ég deyjandi roða

drekkja sér norður í sæ.

Grátandi skýin það skoða

skuggaleg upp fyrir bæ.

Og síðasta erindið:

Verður þér myrkum á vegi

vesturför óyndisleg?

Kvíðir þú komandi degi

kolbrýnda nótt, eins og ég?

Þorbergur byrjar eins og Björn, en kallar sitt kvæði Bátur sekkur og slær svo öllu upp í kæruleysi.

Dags lít ég deyjandi roða

drekkja sér vestur í mar,

og konan í bólinu bíður

bóndans sem dorgar þar.

Í kveldroðans geislagliti

grilli ég Árna minn

bölvandi byltast í djúpið

með bilaðan stimpilinn.

Séra Magnús Einarsson á Tjörn, 1734-1794, var skáld gott og eftir hann er t.d. Langhenda, sem hann nefnir Draugavísu og gefur Grími Thomsen, 1820-1896, línu í eitt frægasta kvæði Gríms, Á Sprengisandi.

Endast dagur, eg það finn;

eitthvað er nú á ferðum,

drottinn leiði drösulinn minn,

dimmt er í Bakkagerðum.

Grímur fann líka fyrir einhverju óhreinu.

Ríðum, ríðum og rekum yfir sandinn,

rennur sól á bak við Arnarfell,

hér á reiki' er margur óhreinn andinn,

úr því fer að skyggja' jökulsvell;

Drottinn leiði drösulinn minn

drjúgur verður síðasti áfanginn.

Þegar Grímur aftur á móti orti um viðskilnað Sverris konungs gaf hann Magnúsi Ásgeirssyni orðalag sem Magnús notaði í þýðingu á minningarljóði um Paul Verlaine.

Grímur:

Vel er, að þér sálma syngið

og saman öllum klukkum hringið

meðan ég skaflinn moldar klýf.

En í tilbót eitt mér veitið:

Andvökuna mikinn þeytið.

Andvaka var allt mitt líf.

Magnús:

Mun það þú sem menn í kvöld

moldarskaflinn láta kafa

þarna í myrkum garði grafa

bak við þessi þokutjöld.

Sigurður Breiðfjörð (1798-1846) var bæði dáður og smáður í sínu lífi.

Hann var misvirkur en það besta var mjög gott eins og mansöngur úr Númarímum sem byrja svo:

Móðurjörð hvar maður fæðist

mun hún ekki flestum kær

þar sem ljósið lífi glæðist

og lítil sköpun þroska nær.

Guðmundur Böðvarsson kunni að meta Sigurð, yrkir til hans og byrjar eins. Langhenda víxlhent.

„Móðurjörð hvar maður fæðist“

man ég sönginn hvar ég fer

þó í hörðu hjartað mæðist

hann mun löngum fylgja mér.

Lok.

Höfundur er garðyrkjubóndi og grúskari.

Höf.: Ólafur Stefánsson