Sigursæll John Andrews á góðri stundu með sínum stúlkum úr Víkingi eftir einn af sigurleikjunum á nýloknu og vel heppnuðu keppnistímabili.
Sigursæll John Andrews á góðri stundu með sínum stúlkum úr Víkingi eftir einn af sigurleikjunum á nýloknu og vel heppnuðu keppnistímabili. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Tilfinningin er frábær. Eins og ég hef sagt við nokkra var mikill áhugi frá öðrum félögum en um leið og Víkingur kom aftur til skjalanna og tjáðu mér að þeir vildu halda mér þá varð ekki aftur snúið

Víkingur

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

„Tilfinningin er frábær. Eins og ég hef sagt við nokkra var mikill áhugi frá öðrum félögum en um leið og Víkingur kom aftur til skjalanna og tjáðu mér að þeir vildu halda mér þá varð ekki aftur snúið. Það var ekki spurning,“ sagði John Henry Andrews, þjálfari kvennaliðs Víkings úr Reykjavík í knattspyrnu, eftir að hann skrifaði undir nýjan tveggja ára samning við félagið í gær.

Írinn hefur stýrt liðinu frá árinu 2020 þegar sameiginlegt lið HK og Víkings var leyst upp. Spurður nánar út í áhuga annarra félaga áður en hann skrifaði undir nýjan samning hjá Víkingi sagði John:

„Ég fékk nokkur skilaboð og fór á nokkra fundi og ég vil þakka öllum félögunum sem settu sig í samband við mig því það er heiður. Sérstaklega þegar litið er til stærðar félaganna og fólksins sem var í sambandi við mig.

Það er heiður að vera mikils metinn. Ég hef verið hluti af nokkru mjög sérstöku undanfarin fjögur ár. Við höfum byggt liðið upp frá því að vera með fjóra leikmenn árið 2019 til þess að verða bikarmeistarar árið 2023.“

Erum fjandakornið ekki hætt

„En það er enn löng leið fram undan. Eins og ég hef áður sagt erum við fjandakornið ekki hætt. Það hljómar eins og slagorð en vegferðinni er ekki lokið hér.

Það er löng leið fram undan þegar kemur að því að koma félaginu á þann stað sem við teljum að það geti verið á. Um leið og Víkingur vildi hefja viðræður þá sagði ég nánast um leið við hin félögin: „Mér þykir það leitt en þessu er lokið,““ bætti hann við.

Allt þess virði

Nýafstaðið tímabil reyndist fullkomið fyrir Víking. Liðið stóð afar óvænt uppi sem bikarmeistari eftir sigur á Breiðabliki í úrslitaleik og vann 1. deildina, sem þýðir að Víkingur leikur í Bestu deildinni á næsta tímabili, í fyrsta skipti frá árinu 1985. Beðinn um að gera tímabilið upp sagði John:

„Ég hef verið lánsamur, bæði sem leikmaður og þjálfari, að hafa unnið ýmsa titla. Ég hef unnið bikara í Bandaríkjunum og á Indlandi. Það sem ég hef lært er að það er mun erfiðara að vinna heldur en að tapa.

Þú verður að gefa þér ansi mikinn tíma til þess að vinna, ef þú vilt gera það að venju að vinna leiki. Það fyrsta sem þú þarft að gera er að hunsa sigra, sem er mjög erfitt fyrir fólk.

Áður en tímabilið hófst, í október á síðasta ári, sáum við hvar við stóðum þegar við prufuðum leikmennina. Við vissum hvert við þurftum að komast. Ef við erum hreinskilin þá var markmið númer eitt ávallt að komast í Bestu deildina.

Við sögðum að þangað vildum við komast. Fyrsta deildin var aðalmálið. Bikarkeppnin var svo gullfalleg gulrót. Það var dásamlegur dagur og leikirnir í bikarnum bjuggu okkur kannski undir það sem við megum eiga von á á næsta tímabili, undirbjuggu leikmennina fyrir það sem er fram undan.

Ef horfum til baka á undanfarið ár þá lögðum við svo mikla vinnu í það. En þegar allt kom til alls komum við heim eftir langa daga með leikmönnunum, stundum tólf tíma, með tvær gullmedalíur um hálsinn. Það er þess virði. Það gerði þetta þess virði.“

Hvað er mikilvægast að Víkingur bæti í sínum leik ætli liðið að festa sig í sessi í Bestu deildinni á næsta tímabili?

„Ég hef farið á um 30-35 leiki í Bestu deildinni í ár og það er einfaldlega hraði leiksins. Þegar kemur að leikskipulagi og öðru er ég ekki viss um að margt breytist í raun og veru, sama á hvaða stigi maður spilar.

Þurfum að fara upp um stig

Knattspyrna er frekar einfaldur leikur en þetta snýst um hversu snöggur þú ert að framkvæma hlutina og hvernig þeir eru framkvæmdir. Ég tel okkur þurfa að bæta okkur á því sviði.

Leikmenn okkar eru í ansi góðu líkamlegu formi en við gætum þurft að fara upp um stig svo við getum hraðað aðgerðum, verið fljótari að senda boltann og almennt hraðað því hvernig við gerum hlutina.

Þá mega önnur lið huga að því hvernig þau ætla að spila gegn okkur í stað þess að við höfum áhyggjur af því að vera t.d. að fara að spila á móti Val eða Stjörnunni. Kannski kíkja þau á Víking og hugsa með sér: „Hvað ætli þau séu að gera?“ Það gæti verið lykillinn,“ sagði hann.

Stóðum þeim á sporði

„Hugarfar er einnig mikilvægt. Við lékum þrjá risastóra bikarleiki á þessu ári. Eða í rauninni sex, en í leikjunum þremur gegn hinum bestu liðunum, Selfossi, FH og Breiðablik, fengum við að sjá hvert stigið er sem við verðum að vera á og vorum að mínu mati á í tveimur eða þremur af þessum leikjum.

Leikmennirnir stigu upp. Við stóðum þessum liðum á sporði. Við þurfum að átta okkur á því að þess verður þörf í 18 eða 25 leikjum á næsta ári í stað þess að við spilum 18 leiki og svo er allt búið.

Það gæti verið lausnin til þess að ná fram stöðugleika, að bæta okkur á þessum sviðum með stöðugum hætti,“ sagði John að lokum.