Fjórir leikmenn, allir úr Víkingi og Stjörnunni, koma til greina í kjöri leikmanna Bestu deildar karla á besta leikmanninum á tímabilinu en það mun skýrast í lokaumferðinni í dag og á morgun hver hlýtur vegsemdina

Fjórir leikmenn, allir úr Víkingi og Stjörnunni, koma til greina í kjöri leikmanna Bestu deildar karla á besta leikmanninum á tímabilinu en það mun skýrast í lokaumferðinni í dag og á morgun hver hlýtur vegsemdina. Þetta eru Víkingarnir Birnir Snær Ingason og Pablo Punyed og Stjörnumennirnir Eggert Aron Guðmundsson og Emil Atlason.

Einnig verður upplýst rétt áður en leikirnir hefjast hver var kjörinn efnilegastur í deildinni. Þeir fjórir sem koma til greina eru Ahmad Faqa úr HK, Benoný Breki Andrésson úr KR, Eggert Aron Guðmundsson úr Stjörnunni og Hlynur Freyr Karlsson úr Val.

Franski knattspyrnumaðurinn Paul Pogba, sem leikur með Juventus, féll á lyfjaprófi á dögunum en ítalskir fjölmiðlar skýrðu frá því í gær að skoðun á seinna sýni frá honum hefði rétt eins og sú fyrri sýnt að hann hefði tekið inn karlkynshormónið testósterón. Hann á því yfir höfði sér langt keppnisbann.

Sjö leikmenn koma til greina í kjörinu á besta leikmanni septembermánaðar í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Það eru Julian Álvarez frá Manchester City, Jarrod Bowen frá West Ham, Pedro Neto frá Wolves, Mohamed Salah frá Liverpool, Son Heung-min frá Tottenham, Kieran Trippier frá Newcastle og Ollie Watkins frá Aston Villa.