Rafbílum mokað út og stjórnvöld eru felmtri slegin

Sala rafbíla hrapaði í Þýskalandi í liðnum mánuði og dróst saman um 28,6%. Tæplega 32 þúsund rafbílar voru skráðir á göturnar í september, en 87 þúsund í ágúst. Samdrátturinn er rakinn til þess að stjórnvöld hættu að niðurgreiða rafbíla í mánuðinum.

Í Morgunblaðinu í gær var greint frá því að bílaumboð landsins „mokuðu út rafbílum“ þessa dagana vegna þess að gert er ráð fyrir að þeir hækki töluvert í verði um áramótin þegar virðisaukaskattur verður lagður á þá, en hann var felldur niður til að hraða áætlun stjórnvalda um orkuskipti.

Felmtri slegin stjórnvöld hafa einnig tilkynnt að 2025 verði lagt kílómetragjald á bíla sem ganga fyrir endurnýjanlegu eldsneyti, til að hægt verði að viðhalda vegakerfi landsins. Þetta er ein leið til að láta greiða vegatolla. Í stað þess að setja upp dýrt og umfangsmikið kerfi á tilteknum vegum er einfaldlega tekið saman hvað hverjum og einum bíl er ekið mikið. Spurning hvort Persónuvernd hefur verið höfð með í ráðum um þetta eftirlit.

Samhliða muni gjöld á eldsneyti lækka eða falla niður.

Egill Jóhannsson forstjóri Brimborgar gagnrýnir þetta í blaðinu: „Þetta er ekki vel hugsað svo maður orði það pent. Allt í einu er búið að snúa við blaðinu og nú verður hagkvæmara að kaupa tengiltvinnbíla. Svo verður rekstur bensín- og díselbíla lægri eftir ár. Þetta eru skrítin skilaboð. Þessi sömu stjórnvöld eru með mjög krefjandi orkuskiptamarkmið en svo eru þau alltaf að vinna á móti eigin markmiðum. Ef við náum þeim ekki fara milljarðar í að kaupa losunarheimildir og það eru miklu hærri tölur.“

Áður hefur verið horfið frá því að afnema niðurfellingu virðisaukaskatts á rafbíla á síðustu stundu og það gæti eins gerst nú.

Annað er hvað gerist þegar hvatt er og latt í senn. Hrapið á sölu rafbíla í Þýskalandi er vísbending.