Varnir Stjórnandi á landgöngutæki sést hér á sameiginlegri heræfingu Svía og Bandaríkjamanna sem haldin var við Stokkhólm í september sl.
Varnir Stjórnandi á landgöngutæki sést hér á sameiginlegri heræfingu Svía og Bandaríkjamanna sem haldin var við Stokkhólm í september sl. — AFP/Jonathan Nackstrand
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Sænsk stjórnvöld hafa ákveðið að veita Úkraínu frekari hernaðaraðstoð að andvirði 190 milljóna evra. Að auki kemur til greina að senda orrustuþotur af gerðinni Saab JAS 39 Gripen. Sá búnaður sem nú verður sendur Úkraínumönnum er að stærstum hluta skotfæri, vara- og íhlutir í sænsk vopnakerfi sem áður hafa verið send.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Sænsk stjórnvöld hafa ákveðið að veita Úkraínu frekari hernaðaraðstoð að andvirði 190 milljóna evra. Að auki kemur til greina að senda orrustuþotur af gerðinni Saab JAS 39 Gripen. Sá búnaður sem nú verður sendur Úkraínumönnum er að stærstum hluta skotfæri, vara- og íhlutir í sænsk vopnakerfi sem áður hafa verið send.

„Við erum búin undir langt stríð og af þeim sökum er nauðsynlegt að útvega nægjanlegan stuðning til lengri tíma,“ hefur fréttaveita AFP eftir sænska varnarmálaráðherranum Pål Jonson. Munu Svíar jafnframt gefa Úkraínuher fjarskiptabúnað sem styðst við gervihnetti og þjálfa verðandi hermenn fyrir komandi átök.

Er þetta í 14. skipti sem ríkisstjórn Svíþjóðar veitir Úkraínu hernaðaraðstoð í yfirstandandi átökum. Heildarverðmæti er um 2 milljarðar evra.

Engar þotur án NATO-aðildar

Varnarmálaráðuneyti Svíþjóðar hefur verið beðið um að leggja mat sitt á kosti þess og galla að senda Úkraínumönnum Gripen-orrustuþotur. Niðurstaða þessarar úttektar á að liggja fyrir eigi síðar en 6. nóvember næstkomandi. Hópur flugmanna frá Úkraínu hefur þegar fengið frumþjálfun á þotuna. Verði afhending vopnakerfisins metið gagnlegt í stríðinu við Rússland fær hópurinn frekari þjálfun.

Ríkisstjórn Svíþjóðar hefur þó sagt nær útilokað að senda orrustuþotur án þess að Svíþjóð eigi fulla aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO). Ástæðan er þjóðaröryggi, ekki sé hægt að gefa frá sér mikilvæg vopnakerfi á borð við orrustuþotur án þess að búið sé að tryggja til hvaða annarra varna skuli grípa, komi upp óvænt staða. NATO-aðild myndi, að sögn ríkisstjórnarinnar, tryggja öryggi landsins.

Gripen er fjölhæf orrustuþota sem framleidd er af sænska vopnaframleiðandanum Saab AB. Við hönnun var lögð áhersla á að þróa litla þotu sem gæti borið mikið magn vopna. Forstjóri Saab AB sagði í viðtali við CNN að einfalt væri að nota vélina til árása þó innviði á borð við flugvelli vanti, lenda megi henni á þjóðvegum og einungis taki um 10 mínútur að hlaða vélina af vopnum og eldsneyti.