Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Árbæingurinn Pétur Haukur Helgason hefur ásamt Degi Egonssyni skipulagt 138 tíu km vetrarhlaup á göngustígum í Elliðaárdalnum frá aldamótum, en næsta tímabil hefst á morgun við Árbæjarlaugina og verður Powerade-vetrarhlaupið haldið annan fimmtudag í mánuði fram í mars. „32.000 hafa tekið þátt í hlaupinu frá byrjun og menn eru sjálfsagt búnir að hlaupa samanlagt til tunglsins,“ segir hann.
Pétur bendir á að hlaupaserían hafi lengi verið sú eina sinnar tegundar hérlendis á veturna og því kærkomin viðbót fyrir götuhlaupara. „Við höfum aldrei þurft að fella niður hlaup.“ Félag maraþonhlaupara með Pétur Franzson í fararbroddi byrjaði að skipuleggja vor- og haustmaraþon í Elliðaárdalnum 1998 og fékk Pétur fljótlega til að taka við keflinu. „Við höfum skipulagt 50 vor- og haustmaraþon og einnig nokkur hálfmaraþon. Þetta er hugsjónastarf, sem margir koma að, lýðheilsumál til að stuðla að því að fólk hreyfi sig og hlaupi.“ Næsta haustmaraþon, það 25. í röðinni, verður 21. október.
Á hlaupum í 30 ár
Fyrir tæplega 30 árum byrjaði Pétur að hlaupa reglulega götuhlaup til að bregðast við ótæpilegri þyngdaraukningu. „Ég var 38 ára og ákvað að gera eitthvað í málinu.“ Hann hafi reyndar æft í líkamsræktarstöð í tvö ár áður en viljað fara á næsta stig og því farið í hlaupin. Hann hafi byrjað að hlaupa með langhlaupurum sem hafi síðar hlaupið 100 km fyrstir Íslendinga. Þeir hafi hlaupið frá mismunandi sundlaugum og fyrsta hlaup Péturs verið frá Vesturbæjarlaug. „Ég keyrði úr Árbænum vestur í bæ og spurði strákana hvert ætti að hlaupa. Í átt að Öskjuhlíðinni, var svarið, en þegar við vorum komnir í Árbæinn hvarflaði að mér að láta mig hverfa og fá konuna mína til að skutla mér vestur eftir til að ná í bílinn. Ákvað samt að láta slag standa og reyna að dröslast með þeim til baka. Gerði það og var talsvert þreyttur.“
Pétur hljóp fyrst 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu 1994 og var ánægður með sig og tímann, 44 mínútur. „Árið eftir fór ég hálft maraþon og heilt maraþon þar á eftir, en ég hef hlaupið yfir 50 maraþon heima og erlendis og auk þess eitt 100 kílómetra hlaup.“
Ekkert hlaupafélag var í Árbænum og Pétur bætti úr því. „Ég var alltaf einn að hlaupa og eftir að ég datt á hausinn í mikilli hálku seint um kvöld og missti lyktarskynið í nokkra mánuði stofnuðum við Vöggur Magnússon, Áslaug Aðalsteinsdóttir og Kári Halldórsson hlaupahópinn HÁS, Hlaupahóp Árbæjar og Seláss, 1999 en ég breytti nafninu síðar í Árbæjarskokk.“
Dr. Helgi Pjeturss, jarðfræðingur og langafi Péturs, vakti athygli á fyrri hluta 20. aldar fyrir að hlaupa reglulega sér til heilsubótar og var þess getið í barna- og unglingablaðinu Hörpu í tilefni 65 ára afmælis hans 1937. „Hlaup kvað dr. Helgi hafa orðið sér til mikilla heilsubóta og hressingar og telur líklegt, að þau, í framtíðinni, verði meir iðkuð í því augnamiði en nú,“ segir þar, en fátítt var að sjá fullorðna iðka hlaup fram eftir liðinni öld. Hann bjó á Smiðjustíg og fór í sund í Laugardal á hverjum degi, hljóp báðar leiðir. „Til samanburðar er eigi laust við, að spaugilegt sé að sjá ungt fólk fylla strætisvagnana þessa sömu leið,“ kemur fram í greininni.
Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni. Þóra Bríet dóttir Péturs hefur tekið upp hlaupalífsstílinn og á þá ósk heitasta að hlaupa maraþon með föður sínum. Pétur hleypur reglulega, m.a. þrisvar í viku með Árbæjarskokki, um 10 til 20 km í hvert sinn. „Ég er allur að koma til,“ segir hann.