Pétur Stefánsson gaukaði þessum tveim vísum að mér. Sú fyrri er um það hve gaman Pétri þykir að yrkja og seinni vísan um veðrið eins og það er þessa daga: Mín er ellin unaðsleg, ekkert hrellir kauðann

Pétur Stefánsson gaukaði þessum tveim vísum að mér. Sú fyrri er um það hve gaman Pétri þykir að yrkja og seinni vísan um veðrið eins og það er þessa daga:

Mín er ellin unaðsleg,

ekkert hrellir kauðann.

Yrki helling uns að ég

að ending fell í dauðann.

Himinn grár og gugginn er,

grætur tárum óður.

Ýfast bárur út við sker,

orgar Kári móður.

Eggert Hauksson (kt. 190442-4979) skrifar mér:

Fyrirsögnin á Vísuhorninu 4. október sl. var: „Hausthrollur í mönnum“. Fyrir rúmum 70 árum var ég viðstaddur þegar gangnamenn úr Vatnsdal, A-Hún. komu með safnið af fjalli, blautir og kaldir eftir slydduhríð, sem hafði angrað þá í leitunum. Þeir náðu úr sér hausthrollinum með því að staupa sig, og einn lýsti veðráttunni þannig:

Nú er úti hregg og hríð,

hristist skegg á köllum,

einhver segir „aum er tíð,

uppi er snjór á fjöllum!“

Kannast einhver við þennan kveðskap og höfund hans?

Davíð Hjálmar Haraldsson leikur sér við nokkrar rímæfingar. Hér eru tvær dróttkveður, sú seinni hringhend:

Æða logar óðir,

eldgos hefst að kveldi.

Geigvænn opnast gígur,

gjall og hraunár falla.

Brunnið grjótið brennur,

brestur allt og gnestur.

Gos með lúmsku gasi

glepur líf og drepur.

Möl er grá á melum,

mengun hrjáir engi.

Máð er lá í móðu,

mikið háir rykið.

Hósti þjáir hesta,

hallast strá og falla.

Himinbláa húmið

halir þrá um dali.

Stökur eftir Davíð Hjálmar:

Fyrsta sopann ungur drengur drakk

í Drottins nafni af signdu messuvíni.

Síðan út úr fjölda staupa stakk

sturlaðist og varð að drykkjusvíni.

Vaða skafla, aur og ár

angurgapar.

„Á rjúpnaveiðum fitnar fár“,

fjöldinn tapar.