Réttarhald Eyþór Þorbergsson saksóknari og fulltrúi verjanda.
Réttarhald Eyþór Þorbergsson saksóknari og fulltrúi verjanda. — Morgunblaðið/Þorgeir Baldursson
Karlmaður sem ákærður hefur verið fyrir að bana Tómasi Waagfjörð á Ólafsfirði í október í fyrra neitaði sök við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Norðurlands eystra í gær. Þingfestingunni var frestað fyrir hálfum mánuði vegna þess að verjandi…

Karlmaður sem ákærður hefur verið fyrir að bana Tómasi Waagfjörð á Ólafsfirði í október í fyrra neitaði sök við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Norðurlands eystra í gær.

Þingfestingunni var frestað fyrir hálfum mánuði vegna þess að verjandi sakborningsins, Steinþórs Einarssonar, var einnig verjandi í Bankastræti Club-málinu og fór aðalmeðferð þess þá fram. Steinþór mætti ekki í dómsalinn, en var þess í stað í fjarfundabúnaði. Fyrir hönd saksóknara mætti Eyþór Þorbergsson aðstoðarsaksóknari.

Ákærður fyrir tvær hnífsstungur

Steinþór er ákærður fyrir að hafa stungið Tómas tvisvar í vinstri síðu með hnífi, en Tómas missti mikið blóð og lést. Steinþór er jafnframt ákærður fyrir hraðakstur í Héðinsfjarðargöngum.

Við þingfestinguna neitaði Steinþór öllum sakargiftum, en í framhaldinu var ákveðið að skila skyldi greinargerðum fyrir 31. október. Er aðalmeðferð málsins áformuð 13. og 14. nóvember.

Í tveimur aðskildum einkaréttarkröfum er farið fram á að Steinþór greiði miskabætur samtals að fjárhæð 12 milljónir kr. auk vaxta ásamt skaðabótum að fjárhæð 10.988.438 kr. auk vaxta vegna missis framfæranda.