Hiti „Þrátt fyrir orðaflaum og snerpu í tilsvörum nær sýningin fyrir vikið aldrei að hitna almennilega,“ segir í rýni um Ekki málið eftir Mayenburg.
Hiti „Þrátt fyrir orðaflaum og snerpu í tilsvörum nær sýningin fyrir vikið aldrei að hitna almennilega,“ segir í rýni um Ekki málið eftir Mayenburg. — Ljósmynd/Jorri
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þjóðleikhúsið Ekki málið ★★★·· Eftir Marius von Mayenburg. Íslensk þýðing: Bjarni Jónsson. Leikstjórn: Marius von Mayenburg. Leikmynd og búningar: Nina Wetzel. Tónlist: David Riaño Molina. Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson og Ýmir Ólafsson. Hljóðhönnun: Aron Þór Arnarsson. Leikarar: Björn Thors og Ilmur Kristjánsdóttir. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins laugardaginn 23. september 2023, en rýnt í 3. sýningu á sama stað laugardaginn 30. september 2023.

Leiklist

Silja Björk

Huldudóttir

Ekki málið nefnist þriðja og síðasta verkið í þríleik þýska leikskáldsins Mariusar von Mayenburg í þýðingu Bjarna Jónssonar sem frumsýnt er í Þjóðleikhúsinu í ár, að þessu sinni í leikstjórn höfundar. Verkin eiga það sameiginlegt að hafa verið skrifuð meðan heimsfaraldurinn gekk yfir með tilheyrandi samkomutakmörkunum og því einkennir viss innilokunarkennd textann. Þau eiga það einnig sameiginlegt að vera leikrit sem gerast í rauntíma og því leikin án hlés. Að öðru leyti stendur hvert verk sem sjálfstæð eining, þótt sama leikmynd Ninu Wetzel bindi þau sjónrænt saman. Hvítur hornsófi á upphækkuðum ferhyrndum palli og risastór ferkantaður LED-lampi í loftinu ramma inn svæðið þar sem átök verkanna eiga sér stað. Í þessu lokaverki þríleiksins falla litrík föt úr loftinu, sennilega til að minna okkur á að heimilisstörfunum lýkur aldrei, og hringsviðið er notað í seinni hlutanum sem kallast á við það hamstrahjól atvinnulífsins sem við flest hlaupum í.

Verkin Ellen B. og Ex, sem frumsýnd voru á Stóra sviðinu í upphafi árs, eiga það sameiginlegt að
(ó)boðinn gestur raskar heimilisfriði hjóna/pars. Í Ekki málið eru persónur verksins aðeins tvær, hjónin Erik (Björn Thors) og Simone (Ilmur Kristjánsdóttur), en segja má að umheimurinn ryðjist inn í samtal þeirra þegar síst skyldi. Þau sem ekki vilja láta spilla fyrir sér ættu að hoppa yfir í næstu málsgrein. Í hvert sinn sem síminn hringir skipta Erik og Simone um hlutverk í leikritinu. Það virðist ekki gert til að neyða þau til að setja sig í aðstæður maka síns og öðlast þannig aukinn skilning á aðstæðum og sjónarmiði hins, heldur fremur fyrir áhorfendur til að skoða hvort orð og upplýsingar hljómi og meðtakist með ólíkum hætti eftir því hvers kyns mælandinn er. Sjálfur lýsir höfundurinn því í leikskránni að hann geri reglulega þá tilraun þegar hann skrifar að skipta um kyn á persónum til að komast að því hvernig sagan breytist við það auk þess sem þetta snúi upp á staðalímyndir kynjanna. Segist hann með verkinu hafa viljað skoða hversu jafna möguleika kynin hafi í raun og veru í samböndum til að byggja upp starfsferil og sinna skyldum gagnvart fjölskyldunni.

Í tilfelli Eriks og Simone vinnur annað þeirra sem verkfræðingur við að hanna diskabremsur fyrir kappakstursbíla og hitt sem þýðandi og ritstjóri. Þau tilheyra augljóslega millistétt og virðast ekki hafa fjárhagsáhyggjur, þótt í ljós komi að annað þeirra þénar augljóslega meira en hitt. Í upphafi verksins er annað þeirra að koma heim eftir vikulanga vinnuferð meðan hitt hefur sinnt börnunum eitt og fyrir vikið komið litlu í verk vinnulega séð með tilheyrandi ergelsi. Vinnuferðirnar skapa greinilega ákveðna togstreitu í sambandinu, þótt hjónin tali fjálglega um það hversu framsækin þau séu þar sem þau skipti heimilishaldinu til jafns samtímis því að sinna vinnuskyldum sínum. Á sama tíma upplifa þau sig sem verandi á tilraunastofu hins kapítalíska samfélags þar sem starfsframi og heimilislíf takast á, yfirmenn líta á barneignir sem tómstundagaman og enginn kemst til metorða (óháð kyni) sem þarf að sinna börnum og búi.

Það hjónanna sem nýkomið er heim úr vinnuferðinni kemur færandi hendi með gjöf handa makanum. Í stað þess að taka við gjöfinni og opna tekst hjónunum að eyða ómældum tíma í að jagast um það hvers vegna gjöfin hafi verið keypt og hvers vegna þiggjandinn ætli ekki að opna hana strax heldur þegar sér henti. Gjöfin og öll vandræðin í kringum hana verða þannig táknbirtingarmynd fyrir það samskiptaleysi og valdatogstreituna sem einkennir hjónabandið. Það er líkt og höfundurinn hafi ákveðið að gera formtilraun þar sem hann lætur persónur sínar fara í spuna með öfugum formerkjum. Í stað þess að eina regla spunans sé að segja alltaf „já“ og halda þannig orkunni gangandi í samspilinu þá lætur Mayenburg persónur sínar nær undantekningarlaust hafna hugmyndum hins eða setja upp einhvers konar hindrun. Á pappírnum gæti þetta hljómað sem áhugaverð tilraun eða leikur, en eftir smátíma snýst þetta upp í staglkennt þras sem verður afskaplega þreytandi til lengdar. Á sama tíma er höfundur afar spar á upplýsingar sem gætu varpað ljósi á það hvað sé raunverulega límið í samskiptum hjónanna og fyrir vikið verður nánast óskiljanlegt hvers vegna þessu hjónabandi sé ekki löngu lokið. Um miðbik verksins deilir önnur persónan vondum fréttum með hinni, en þær upplýsingar standa engan veginn undir því að vera hvörf verksins því heilt yfir breytist ekkert í samskiptunum. Fyrir vikið fá Björn og Ilmur sem leikarar úr afskaplega litlu að moða. Þau fá í raun aðeins einn tón til að leika á og hafa fá tækifæri til að sýna einhvers konar blæbrigði.

Meðan bæði Ellen B. og Ex voru drifin áfram af baráttu um yfirráð í samskiptum og áhugaverðum afhjúpunum sem skapaði sprengikraft á sviðinu spólar Ekki málið fast í sömu hjólförunum meðan persónur verksins tala sig hásar án þess að sýna minnsta vilja til lausna. Þrátt fyrir orðaflaum og snerpu í tilsvörum nær sýningin fyrir vikið aldrei að hitna almennilega. Það er mikil synd því grunnspurningin um það hvort og hvernig við sem manneskjur getum samþætt vinnu og fjölskyldulíf í hinu kapítalíska samfélagi er vissulega aðkallandi.