Það er aðdáunarvert hvað við höfum náð að byggja hér upp sterkt heilbrigðiskerfi í okkar stóra og fámenna landi. Það er hins vegar ámælisvert hvað það brenna víða eldar í kerfinu, gríðarlegt álag er á starfsfólki og óásættanleg bið eftir alls kyns mikilvægri þjónustu. Sífellt stærri hluti útgjalda ríkisins fer í heilbrigðisþjónustu á sama tíma og skömm er að því hvað margir þættir heilbrigðiskerfisins eru illa fjármagnaðir.
Útgjöld til heilbrigðismála á Íslandi nema rúmlega fjórðungi útgjalda ríkisins. Í inngangi að heilbrigðisstefnu stjórnvalda til 2030 segir að við ráðstöfun þeirra fjármuna verði ríkið að ráða för og axla ábyrgð sem vel upplýstur og gagnrýninn kaupandi þjónustu í þágu heildarinnar. Það sé lögbundið hlutverk heilbrigðisráðherra að marka stefnu í heilbrigðismálum, forgangsraða verkefnum og tryggja fjármögnun þeirra.
Þetta er býsna skýrt. Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, talar líka tæpitungulaust í grein í nýjasta tölublaði Læknablaðsins. Hún talar þar um ört vaxandi álag á heilbrigðiskerfið vegna hraðrar fjölgunar íbúa til viðbótar við fjölda ferðamanna, vegna öldrunar þjóðarinnar og vegna skorts á heilbrigðisstarfsfólki. Af þessu leiði að hin íslenska „þetta reddast“-nálgun sem byggist á meðvirkni einstaklinga með kerfinu dugi ekki lengur. Ekki verði lengur við það búið að gögn um mönnun og álag á lækna séu ekki til staðar eða ófullnægjandi og að aðgerðir til að mæta álaginu séu fáar og ómarkvissar. Eins þurfi að bæta úr þeim misbresti að árangur slíkra aðgerða sé ekki metinn hlutlægt og aðgerðirnar endurskoðaðar út frá því.
Það er full ástæða til að leggja við hlustir þegar sérfræðingar innan heilbrigðiskerfisins tala um stöðuna. Skilaboðin frá stjórnendum heilbrigðisstofnana og heilbrigðisstarfsfólki eru þau að það vantar stýringu á kerfinu. Hvert fer fjármagnið, af hverju og hvernig nýtist það? Hvar þarf að bæta í, hvar á að draga úr?
Í gær tilkynnti formaður Sjálfstæðisflokksins að hann stigi úr stól fjármálaráðherra eftir áfellisdóm umboðsmanns Alþingis í tengslum við sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Það eru vissulega stór tíðindi, annað en þær oft frekar óáhugaverðu uppákomur sem tengjast raunum ósamlyndrar ríkisstjórnar og þjóðin hefur neyðst til að fylgjast með í beinni útsendingu síðustu vikur og mánuði. Má láta sig dreyma um að næstu fréttir af ríkisstjórninni verði þær að hún sjái til sólar þegar kemur að því að hafa stjórn á heilbrigðismálum þjóðarinnar? Að hún hafi dug í sér til að lyfta nauðsynlegu grettistaki í málefnum hjúkrunarheimila eða efla grunnheilbrigðisþjónustu um land allt svo dæmi séu tekin. Hverjar eru líkurnar á því?
Höfundur er þingflokksformaður Viðreisnar. hannakatrin@althingi.is