Bernharður Garðar Guðmundsson fæddist 28. janúar 1937. Hann lést 1. september 2023. Útför hans fór fram 15. september 2023.
Séra Bernharður Guðmundsson er látinn. Með andláti hans er höggvið stórt skarð í vinahóp okkar Guðnýjar. Bernharður var fjölgáfaður maður og gegndi mörgum mikilvægum trúnaðarstörfum á vegum íslensku þjóðkirkjunnar, bæði hér heima og erlendis. Þar sameinaði hann á fegursta máta mikla skipulagshæfileika, persónutöfra og köllun sína í þjónustu andans.
Ég kynntist Bernharði fyrst í byrjun níunda áratugarins, en þau kynni dýpkuðu stöðugt með árunum. Að hitta hann á förnum vegi var alltaf jafn gefandi. Hið geislandi bros hans og hlýja yljaði manni ósjálfrátt um hjartaræturnar. Hann var umfaðmandi persónuleiki. Bernharður var mikill gæfumaður í sínu einkalífi með sína yndislegu eiginkonu Rannveigu sér við hlið. Saman eiga þau þrjú börn sem öll eru framúrskarandi einstaklingar hvert á sínu sviði. Rannveig og Bernharður voru hjón sem sýndu okkur hinum hverju máttug trúmennska, umhyggja, virðing og væntumþykja kemur til leiðar á lífsferlinum. Að leiðarlokum kveðjum við hjónin þennan heiðursmann með þakklæti. Fjölskyldu og aðstandendum öllum vottum við okkar dýpstu samúð.
Gunnar Kvaran.