Styrkþegar Asks ásamt ráðherrum við styrkveitingu ársins 2022.
Styrkþegar Asks ásamt ráðherrum við styrkveitingu ársins 2022.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Askur – mannvirkjarannsóknasjóður er nýtt afl stjórnvalda sem treystir stoðir byggingariðnaðarins í samstarfi við háskólasamfélag og atvinnulíf.

Hrafnhildur Sif Hrafnsdóttir

Aflvakinn Askur – mannvirkjarannsóknasjóður opnar nú fyrir umsóknir í þriðja sinn. Askur er rannsóknasjóður mannvirkjaiðnaðarins, sem var settur á fót árið 2021 og er í eigu innviðaráðuneytisins og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins. Umsýsla sjóðsins er í höndum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS).

Sjóðurinn er nýtt afl stjórnvalda sem treystir stoðir byggingariðnaðarins í samstarfi við háskólasamfélag og atvinnulíf. Sjóðurinn veitir styrki til mannvirkjarannsókna með áherslu á aukna þekkingu, umbætur og nýsköpun til að mæta samfélagslegum áskorunum mannvirkjagerðar í samræmi við markmið laga um mannvirki. Með stofnun Asksins leitast stjórnvöld við að opna opinbert styrkjaumhverfi fyrir fleiri aðila úr háskólasamfélagi og atvinnulífi og einnig að stuðla að auknu samstarfi við erlenda rannsóknaraðila. Áherslur sjóðsins snúa einkum að samfélagslegum áskorunum í byggingariðnaði, svo sem rakaskemmdum í mannvirkjum og aðgerðum til lækkunar kolefnisspors. Við hverja úthlutun er horft til þarfa, eðlis og áskorana á sviði mannvirkjagerðar, áherslu á nýsköpun og markmiða um sjálfbærni.

Sjóðurinn er opinn samkeppnissjóður. Það þýðir að umsækjendur keppa um styrki samkvæmt gefnum áhersluflokkum og umsóknir eru metnar á grunni gæðaviðmiða. Styrkur frá Aski er allt í senn gæðastimpill, hvatning, fjárstuðningur og styrkurinn getur enn fremur skapað grundvöll til frekari fjármögnunar.

Bæði ráðuneytin sem standa að fjármögnun Asks eru stoltir og dyggir stuðningsaðilar hans.

Í ávarpi Sigurðar við síðustu úthlutun Asksins lagði hann áherslu á að „eitt mikilvægasta verkefni okkar um þessar mundir er baráttan við loftslagsbreytingar af mannavöldum. Og sú barátta fer fram á öllum sviðum samfélagsins. Við vitum að byggingariðnaður ber ábyrgð á um 40% af allri losun á heimsvísu. Við verðum að leita allra leiða til að draga úr kolefnisspori mannvirkja og byggingarefna og samtímis að draga úr notkun óumhverfisvænna byggingarefna.“

Áslaug Arna sagði við sama tækifæri: „Rakaskemmdir og hátt kolefnisspor eru dæmi um samfélagslegar áskoranir sem byggingariðnaðurinn glímir við og þessum áskorunum viljum við mæta með hugvitið að vopni. Málaflokkurinn kallar ekki bara á öflugt samstarf þvert á ráðuneyti heldur viljum við líka sjá kröftuga samvinnu og þekkingarmiðlun milli háskóla, stofnana og fyrirtækja á þessu sviði.“

Eitt hundrað milljónir eru til úthlutunar á árinu 2022 og getur hvert og eitt verkefni að hámarki fengið 20% af heildarstyrkfénu eða 20 milljónir og 70% af heildarkostnaði, samkvæmt reglum sjóðsins.

Áhersluflokkar ársins 2023 eru:

Byggingargallar, raki og mygla

Byggingarefni

Orkunýting og losun

Tækninýjungar

Gæði

Eins og áhersluflokkarnir hér að ofan gefa til kynna þá er ekki skilyrði að verkefni í Aski hafi græna skírskotun en raunin er að langflestar umsóknir hafa sterka umhverfislega tengingu.

62 verkefni hafa hlotið styrk hjá Aski síðastliðin tvö ár og hafa rannsóknir styrkþega reynst hreyfiafl framfara í iðnaðinum. Afurðir níu verkefna felast í gerð Rb-blaða eða leiðbeiningablaða í iðnaðinum, 15 verkefni snúa að gerð annars fræðsluefnis fyrir iðnaðinn og þrjú verkefni fela í sér innlegg í uppfærslu á stöðlum. Þá hafa tvö meistaraverkefni hlotið styrk og fjögur doktorsverkefni.

Samstarfsvettvangurinn Byggjum grænni framtíð á rót sína að rekja til aðgerðar C.3. í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum frá júní 2020. Sumarið 2022 gaf vettvangurinn út Vegvísi að vistvænni mannvirkjagerð þar sem tilgreindar eru 74 aðgerðir sem stuðla að vistvænni mannvirkjagerð. Þar af er 13 aðgerðum lokið og 48 komnar í vinnslu. Litið er til Vegvísisins sem fyrirmyndarnálgunar hérlendis fyrir annan iðnað og myndar hann mikilvæga umgjörð og markvissa innleiðingu á stefnu stjórnvalda í málaflokknum. Styrkhafar Asks vinna að 12 aðgerðum Vegvísisins en alls tengjast 33 Asks-verkefni aðgerðum Byggjum grænni framtíð með beinum eða óbeinum hætti. Askur flýtir þannig fyrir innleiðingu á vistvænni vegferð stjórnvalda og atvinnulífs í mannvirkjagerð.

Gríðarlega sterk og fjölbreytt verkefni hafa borist í sjóðinn og hefur styrkfé eingöngu svarað til um 20% af umsóttum styrkfjárhæðum. Styrkþegar og iðnaðurinn eru með sterkt ákall um aukna styrki því núverandi fé skilar rannsóknunum ekki jafn langt og þörf er á.

Askur er ekki bara sjóður, hann er samfélag þar sem styrkhafar og hagaðilar í iðnaðinum hittast, fjalla um áskoranir og tækifæri og miðla niðurstöðum rannsókna og nýsköpunarverkefna sinna. HMS leggur áherslu á að veita styrkþegum vettvang til að kynna verkefni sín á fundum hjá HMS og miðla upplýsingum um verkefni þeirra á vef sjóðsins.

Það eru sterk teymi sem hljóta styrki úr Aski, með stoðir í háskóla, atvinnulífi og stofnunum. Hátt menntunarstig, mikil reynsla og jafnt kynjahlutfall einkennir teymin. Teymin hafa því alla burði til að bregðast við þeim áskorunum sem iðnaðurinn stendur frammi fyrir.

Höfundur er verkefnastjóri Asks – mannvirkjarannsóknasjóðs.

Höf.: Hrafnhildur Sif Hrafnsdóttir