Óhætt er að segja að Viktor hjá ferðaskrifstofunni Tripical sé athafnasamur ungur maður en hann hafði ekki lokið stúdentsprófi þegar hann stofnaði fyrirtækið og er hann örugglega í hópi yngstu framkvæmdastjóra landsins. Tripical sérhæfir sig í ferðum fyrir hópa, til nálægra áfangastaða á borð við Skotland og Grikkland jafnt sem framandi og fjarlægari slóða s.s. Kúbu og Srí Lanka.
Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?
Stærsta áskorunin sem við stöndum frammi fyrir eru miklar verðhækkanir á flugi og sveiflur í gengi. Starfsfólk Tripical hefur brugðist við því með að leggja hart að sér til að viðhalda virði fyrir viðskiptavini okkar, t.d. með því að finna og útbúa ferðir fyrir hópana okkar á ódýrari áfangastaði þar sem verðlag er hagstæðara.
Hvaða bók hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?
Ég hlusta á mikið af hljóðbókum og gríp nokkra hluti í hverri bók. Nýjasta bókin sem ég var að hlusta á núna er The 5 AM Club en þar er talað um hvernig hægt sé að bæta daginn með því að vakna snemma og fara í gegnum ákveðna morgun-rútínu. Annars er sú bók sem ég hugsa oftast til The Hard Thing About Hard Things eftir Ben Horowitz. Þar er farið í gegnum þær ótalmörgu áskoranir sem koma upp í fyrirtækjarekstri og hvernig má tækla þær.
Hvað gerirðu til að fá orku
og innblástur í starfi?
Skrifstofan okkar er staðsett niðri á Granda við sjávargarðinn. Ég fer reglulega yfir daginn í stutta göngutúra með hundinum Myrru og fæ þannig orku. Innblásturinn kemur frá því að hlusta á bækur og fá þar hugmyndir sem gætu virkað hjá okkur.
Hugsarðu vel um líkamann?
Mér þykir fátt skemmtilegra en að skokka upp á fjöll. Ég byrjaði tólf ára að elta frænda minn upp á Esjuna á hverjum degi í heilt sumar og hef síðan stundað það mikið. Ég reyni líka að stunda líkamsrækt og jóga en næ því ekki alltaf. Það sem ég passa mikið upp á er mataræðið hjá mér; ég borða hollan mat og hef ekki borðað kjöt í tólf ár núna.
Hvernig heldurðu
þekkingu þinni við?
Ég reyni að hlusta á mikið af hljóðbókum sem ég vel út frá meðmælum frá öðrum. Þær eru sumar góðar en aðrar ekki og þegar ég lendi á leiðinlegri bók hætti ég samstundis að hlusta á hana. Ég er líka svo heppinn að eiga fjölbreyttan hóp vina sem allir hafa þann skemmtilega eiginleika að vera með sterkar skoðanir á lífinu. Ég fer reglulega í kvöldsund með þeim og öðlast mikla þekkingu af að spjalla við þá.
Hvert væri draumastarfið
ef þú þyrftir að finna þér
nýjan starfa?
Ég hef oft sagt að í öðru lífi væri ég arkitekt. Mér finnst ótrúlega gaman að rissa upp teikningar af byggingum á blað og hugsa út alla króka og kima.
Hvað myndirðu læra ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu?
Ég hugsa að ég færi út í nám og myndi læra eitthvað sem er ekki jafn bóklegt og það sem ég hef verið í. Það væri gaman að læra eitthvað sem snýr meira að frumkvöðlastarfsemi, ég hef skoðað nokkra skóla erlendis sem ég væri til í að fara í við tækifæri.
Ævi og störf
Nám: Útskrifaðist af hagfræðibraut Verzlunarskóla Íslands 2016; lauk námi í viðskiptafræði með áherslu á fjármál frá Háskóla Íslands 2023.
Störf: Stofnaði, ásamt öðrum, Tripical ferðaskrifstofu í ársbyrjun 2015 og hef aldrei unnið á öðrum vinnustað í fullu starfi.
Áhugamál: Ég hef mikinn áhuga á útivist, fluguveiði, ferðalögum erlendis, samveru með vinum og fjölskyldu, eldamennsku og arkitektúr.
Fjölskylduhagir: Á Pétrínu Guðmundsdóttur fyrir kærustu og eins árs gamlan hund sem heitir Myrra og heldur að hún sé barn.