— Morgunblaðið/Eggert Jóhannesson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Líklegt er að yfirtökutilboð Regins í Eik fasteignafélag verði samþykkt á næstu vikum samkvæmt heimildum ViðskiptaMoggans. Reginn lagði sem kunnugt er fram valfrjáls yfirtökutilboð í Eik í byrjun júní sl

Líklegt er að yfirtökutilboð Regins í Eik fasteignafélag verði samþykkt á næstu vikum samkvæmt heimildum ViðskiptaMoggans. Reginn lagði sem kunnugt er fram valfrjáls yfirtökutilboð í Eik í byrjun júní sl. Eins og Morgunblaðið greindi frá lögðust Brimgarðar ehf., stærsti eigandi Eikar, gegn yfirtökutilboðinu, meðal annars með þeim rökum að þeir teldu eignasafn Eikar vanmetið af hálfu Regins og félagið þannig verðmætara en Reginn hafði lagt upp með í yfirtökutilboðinu. Forsvarsmenn Brimgarða hafa þó mildast í afstöðu sinni síðan þá enda hefur Reginn lagt fram uppfært tilboð.

Gildistími tilboðsins var framlengdur í síðustu viku til 13. nóvember nk., þar sem fyrir liggur að rannsókn Samkeppniseftirlitsins á viðskiptunum verður ekki lokið í tæka tíð.

Í millitíðinni hófu Eik og Reitir samrunaviðræður en þeim viðræðum var slitið í byrjun október þar sem ekki náðist samkomulag um skiptihlutföll milli félaganna.

Nýtt verðmat frá Jakobsson Capital

Í nýju verðmati Jakobsson Capital, sem ViðskiptaMogginn hefur undir höndum, á rekstri Eikar og Regins er það niðurstaða Jakobsson að virði eiginfjár Regins sé 64,5 milljarðar króna og að virði eiginfjár Eikar sé 59,6 milljarðar króna. Þannig sé skiptihlutfall félaganna 52% fyrir Regin og 48% fyrir Eik. Það er í samræmi við uppfært tilboð Regins.

Jakobsson bendir á að Eik endurmat virði lóða og byggingarheimilda milli fyrsta og annars ársfjórðungs. Það endurmat hafði veruleg áhrif á verðmat, en bókfært virði lóða og byggingarheimilda nam 652 milljónum króna í lok fyrsta ársfjórðungs en 3.669 milljónum króna í lok annars ársfjórðungs. Ef ekki hefði komið til þessarar uppfærslu væri skiptihlutfallið 46,7% í stað 48%. Það er í nokkru samræmi við upphaflegt tilboð Regins sem lagt var fram í júní sl.

Jakobsson Capital metur Eik á genginu 17,5, eða 48% yfir markaðsgengi Eikar við lok markaða í gær, sem var 11,8.