Við störf Atvinnuleysi á landinu jókst lítið eitt í septembermánuði.
Við störf Atvinnuleysi á landinu jókst lítið eitt í septembermánuði. — Morgunblaðið/Eggert
Skráð atvinnuleysi í seinasta mánuði var 3%. Hækkaði það úr 2,9% í ágúst og er hið sama og í maímánuði sl. Vinnumálastofnun spáir því í nýbirtu yfirliti yfir vinnumarkaðinn að atvinnuleysi muni lítið breytast í október og það gæti orðið á bilinu 2,9% til 3,2%

Skráð atvinnuleysi í seinasta mánuði var 3%. Hækkaði það úr 2,9% í ágúst og er hið sama og í maímánuði sl. Vinnumálastofnun spáir því í nýbirtu yfirliti yfir vinnumarkaðinn að atvinnuleysi muni lítið breytast í október og það gæti orðið á bilinu 2,9% til 3,2%.

Að meðaltali voru 5.734 einstaklingar á atvinnuleysisskrá í september, 3.175 karlar og 2.559 konur, en í lok september voru alls 6.035 einstaklingar atvinnulausir.

Mest var atvinnuleysið í síðasta mánuði á Suðurnesjum eða 4,2% og hækkaði það úr 3,9% frá því í ágúst en minnst var atvinnuleysið á Norðurlandi vestra 0,6%, á Austurlandi 1,3% og á Vesturlandi þar sem það mældist 1,7% samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar. Á höfuðborgarsvæðinu var 3,3% atvinnuleysi í seinasta mánuði og hélst það óbreytt frá mánuðinum á undan.

„Alls höfðu 1.159 verið án atvinnu í meira en 12 mánuði í lok september 2023 og fækkaði um 67 frá ágúst. Í september 2022 var fjöldi þeirra hins vegar 2.046 og nemur fækkunin 887 á milli ára. Þeir sem höfðu verið atvinnulausir í 6-12 mánuði voru hins vegar 1.469 í september síðastliðnum en voru 1.566 í september 2022,“ segir í greinargerð Vinnumálastofnunar.

Ef litið er á stöðuna í einstökum atvinnugreinum kemur m.a. fram að atvinnulausum fækkaði lítillega í lok september í nokkrum greinum, mest í upplýsingatækni og útgáfu og opinberri þjónustu við fræðslu, heilbrigðis- og félagsþjónustu. Atvinnulausum fjölgaði hins vegar mest frá mánuðinum á undan í ferðaþjónustu. omfr@mbl.is