Daði Kristjánsson
Daði Kristjánsson
Velflest af stærstu eignastýringarfyrirtækjum heims eru farin að viðurkenna rafmyntir sem eignaflokk og meirihluti þeirra býður nú þegar upp á þjónustu á sviði rafmynta. Sérfræðingur í rafmyntageiranum segir miklar vendingar hafa átt sér stað á…

Velflest af stærstu eignastýringarfyrirtækjum heims eru farin að viðurkenna rafmyntir sem eignaflokk og meirihluti þeirra býður nú þegar upp á þjónustu á sviði rafmynta. Sérfræðingur í rafmyntageiranum segir miklar vendingar hafa átt sér stað á undanförnum misserum og að ljóst sé að hans mati að sú þróun nái til Íslands.

Larry Fink forstjóri BlackRock tjáði sig á dögunum um rafmyntamarkaði í viðtali við FOX og CNBC. BlackRock sótti um að stofna kauphallarsjóð (ETF) sem fjárfestir í bitcoin fyrir skömmu. Í viðtölunum kemur fram að hann telji að fjárfestingaheimurinn muni færast enn meira í kauphallarsjóði. Hann rifjar upp að fyrsti ETF-sjóðurinn sem fjárfesti í gulli gerði fjárfestum kleift að kaupa gull með mun einfaldari og ódýrari hætti en áður þekktist. Hann lýsir þeirri skoðun sinni að það sama muni gerast með bitcoin og aðrar rafmyntir.

Fink bendir á að sífellt fleiri viðskiptavinir BlackRock spyrji út í rafmyntir og hvernig best sé að nálgast slíkar fjárfestingar. Hann segir að rafmyntir séu einstakar að því leyti að þær séu alþjóðleg eign og ættu því að geta náð mun víðtækari dreifingu en hefðbundnir gjaldmiðlar. Hann telur að þetta skapi mikil tækifæri og það sé ástæðan fyrir þessum mikla áhuga á rafmyntum. Sá áhugi komi frá breiðum hópi fjárfesta úti um allan heim.

Skref fyrirtækjanna hafi mikla þýðingu

Daði Kristjánsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Visku Digital Assets, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að það hafi orðið gríðarleg breyting í heimi rafmynta á undanförnum mánuðum. Það að stærstu fjármálafyrirtæki heims séu farin að bjóða upp á þjónustu á sviði rafmynta og viðurkenna rafmyntir sem eignaflokk hafi mikla þýðingu.

„Þetta getur orðið til þess að fjárfestar fari að hafa trú á þessum eignaflokki og að hann verði meira viðurkenndur. Rafmyntir eru eignaflokkur og bitcoin er undir þeim hatti. Bitcoin og ethereum eru með 70 prósent af markaðsvirði allra rafmynta.“

Daði bætir við að mikil hreinsun hafi átt sér stað í heimi rafmyntanna á undanförnum misserum.

„Það var augljóslega mikið af kúrekum í þessum geira sem höfðu gengið of langt og skýrasta dæmið um það er fall rafmyntakauphallarinnar FTX. Síðan hafa verið sjóðir sem hafa farið fram með ógætilegum hætti og svo framvegis. Nú eru þessi stóru fjármálafyrirtæki að stíga fram og bjóða þjónustu á þessu sviði. Hvort sem það er að byrja með vörsluþjónustu, sækja um að stofna kauphallarsjóð eða ETF, eða stofna rafmyntadótturfélög og slíkt,“ segir Daði.

Hann bætir við að hann sé bjartsýnn fyrir hönd geirans sem sé enn sem komið er mjög lítill.

„Á einu ári hefur gríðarlega mikið gerst í þessum geira. Nú eru þessi stóru fyrirtæki að taka skref inn í geirann. Staðan er þannig í dag að stofnanafjárfestar eru með gríðarlega lítið hlutfall af sínum eignum í þessum eignaflokki en það er allt sem bendir til þess að það sé að fara að breytast.“

ETF-kapphlaupið

Tólf umsóknir hafa verið sendar til fjármálaeftirlits Bandaríkjanna um bitcoin-kauphallarsjóði eða „spot Bitcoin ETF“. Meðal þeirra sem hafa sótt um eru BlackRock, Fidelity, ARK og Invesco. Væntingar markaðsaðila eru að kauphallarsjóðirnir verði samþykktir í janúar en eigi síðar en í mars á næsta ári. Mörg þessara stóru fyrirtækja eru að keppast um að skrá fyrsta ETF-sjóðinn og því ljóst að samkeppnin verður mjög mikil.

Daði segir að skrefin sem þessi fyrirtæki hafi tekið muni hjálpa við að kynna bitcoin sem alvöru fjárfestingarkost fyrir stærstu stofnanafjárfestum heims. Hann segist gera ráð fyrir að stærstu bitcoin ETF-sjóðirnir verði fljótlega nokkrir milljarðar dollara að stærð.

„Það er því til mikils að vinna fyrir fyrirtækin að ná flæðinu til sín. Það hefur verið þannig að regluverk í kringum rafmyntir er enn í þróun og ýmislegt sem þarf að skilgreina með betri hætti. Það er ýmis óvissa, hvort sem hún er bókhaldsleg eða skattaleg og svo framvegis. Með því að pakka þessu inn í kauphallarsjóði er verið að gera það einfaldara og skýrara hvernig beri að meðhöndla þessar eignir.“

Íslensk fyrirtæki muni fylgja fordæmi þeirra erlendu

Spurður hvort hann telji að íslensk fjármálafyrirtæki muni fylgja fordæmi þeirra erlendu og bjóða upp á þjónustu á sviði rafmynta segist Daði telja að það sé óhjákvæmilegt.

„Ég vona það svo sannarlega og ég tel það vera óhjákvæmilegt. Spurningin er bara hversu fljótt fólk er að átta sig á því hvað er að gerast. Það hefur verið ákveðinn sofandaháttur gagnvart þessum eignaflokki í hefðbundna fjármálageiranum. Fólk hefur vanmetið þennan eignaflokk alveg gríðarlega. Nú er staðan sú að ekki er hægt að vanmeta hann lengur.“

Hann bætir við að hann telji að vægi rafmynta í eignasöfnum íslenskra fjárfesta sem og erlendra aukist á næstu árum.

„Ég er viss um að íslensk fjármálafyrirtæki vilji taka þátt í þessu alveg eins og erlend fjármálafyrirtæki eru byrjuð að gera. Það aftur á móti vantar gríðarlega þekkingu inn í þennan geira hér á landi. Það er því mikilvægt að sem flestir afli sér þekkingar á þessu sviði því staðreyndin er sú að þessi þróun er að eiga sér stað og þessi geiri er kominn til að vera.“