Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur heimilað fjarskiptafélaginu Sýn hf. að kaupa upplýsingaveituna Já.is og eignarhaldsfélagið Njálu ehf. samkvæmt frétt sem birt var á heimasíðu SKE. Kaup Sýnar eru þó háð ákveðnum skilyrðum.
Telja stöðu Já.is sterka
Samkvæmt tilkynningu SKE vegna málsins mun rannsókn sem SKE lagðist í vegna kaupanna hafa leitt í ljós að staða Já.is á markaði fyrir aðgengi að gagnagrunni, væri sterk og gæti styrkst með samruna við Sýn hf. Einnig gaf rannsóknin til kynna, að mati SKE, að sú staða, verði Sýn eigandi Já.is sem er mikilvægur viðskipta- og þjónustuaðili fyrir bæði Já og helsta keppinauta þess, gæti haft skaðleg samkeppnisleg áhrif. SKE áréttar einnig að það gætu verið aðstæður þar sem viðkvæmum viðskiptaupplýsingum um viðskiptavini annarra fjarskiptafyrirtækja gæti verið miðlað til Sýnar.
Sýn verður að tryggja jafnræði ótengdra aðila
Til að varna því að samruninn hafi skaðleg áhrif á samkeppni gerði Sýn sátt við SKE. Samkvæmt sáttinni er Sýn skylt að gæta jafnræðis og óhlutdrægni gagnvart ótengdum fyrirtækjum sem reka samskonar þjónustu og Já.is. Þannig má sem dæmi nefna ef ótengdir aðilar óska eftir að fá þjónustu frá Já.is við reikningsgerð og innheimtu símtala í upplýsingaveitur. Í því felst að Sýn verður að tryggja að ótengd fyrirtæki sem starfa á upplýsingaþjónustumarkaði fái sambærilegt verð og aðrir aðilar sem tengjast Sýn með einhverjum hætti. Tengdir aðilar geta verið fyrirtæki sem veita upplýsingaþjónustu sambærilega þeirri sem Já.is veitir.
Gæta þess að viðkvæmum upplýsingum sé ekki dreift
Þá ber Sýn að girða fyrir að möguleiki sé á því að viðkvæmum viðskiptaupplýsingum sem koma frá öðrum fjarskiptafélögum sé dreift frá upplýsingaþjónstu Sýnar til annarra deilda innan samstæðunnar. Slíkar upplýsingar geta t.d. verið ný- og afskráningar eða breytingar á grunnupplýsingum sem rekja má til annarra fjarskiptafyrirtækja hjá Já.is.
Til að ná því markmiði að jafna stöðu fyrirtækja sem reka upplýsingaveitur um símanúmer ber Sýn að samþykkja beiðnir og veita fyrirtækjum aðgang að rafrænum gagnagrunni símanúmera hjá upplýsingaþjónustu Sýnar, en það er háð því skilyrði að í gagnagrunni hjá viðkomandi fyrirtæki séu að minnsta kosti 50% af fjölda símanúmera hjá Já.is. En það á ekki við þau tilfelli þar sem ótengt fyrirtæki er með sítengingu við gagngrunn Já.is. Sýn ber að gæta að því að verðlagning sé hæfileg, með skilmálum sem eru sanngjarnir og að jafnræði sé tryggt.