Keflvíkingar eru einir með fullt hús á toppi úrvalsdeildar kvenna í körfubolta eftir 103:77-stórsigur á Fjölni í fjórðu umferðinni í gærkvöldi. Keflavík hefur unnið þrjá leiki í röð með gríðarlega sannfærandi hætti, eftir nauman sigur á Njarðvík í fyrstu umferðinni. Fjölnir hefur hins vegar byrjað illa og aðeins unnið einn leik.
Daniela Wallen skoraði 21 stig og tók níu fráköst fyrir Keflavík og Anna Ingunn Svansdóttir gerði 20 stig. Raquel Laneiro fór á kostum fyrir Fjölni, skoraði 33 stig og gaf tíu stoðsendingar.
Grindavík tapaði sínum fyrstu stigum á leiktíðinni er liðið heimsótti Njarðvík. Úr varð æsispennandi grannaslagur sem Njarðvík vann naumlega, 60:56. Verma lið frá Suðurnesjunum nú þrjú efstu sætin. Njarðvík og Grindavík eru bæði með sex stig, tveimur stigum á eftir Keflavík.
Tynice Martin skoraði 17 stig fyrir Njarðvík og Jana Falsdóttir bætti við 15 stigum. Danielle Rodríguez skoraði 14 stig og tók 11 fráköst fyrir Grindavík og Hulda Björk Ólafsdóttir gerði 11 stig.
Gott svar Hauka
Haukar eru einnig með sex stig eftir 98:63-stórsigur á Breiðabliki. Breiðablik er enn án stiga. Haukaliðið náði sér engan veginn á strik gegn Njarðvík í síðustu umferð en Hafnarfjarðarliðið var með mikla yfirburði í gær, gegn liði sem verður væntanlega í fallbaráttu í allan vetur. Tinna Guðrún Alexandersdóttir skoraði 26 stig fyrir Hauka og Keira Robinson 20. Brooklyn Pannell gerði 26 fyrir Breiðablik.
Loks vann Stjarnan sinn annan sigur í röð er liðið gerði góða ferð í Stykkishólm og vann Snæfell, 74:68, í nýliðaslag. Stjarnan er nú með fjögur stig, en Snæfell er stigalaust á botninum. Kolbrún María Ármannsdóttir skoraði 21 stig og tók átta fráköst fyrir Stjörnuna og Denia Davis-Stewart gerði 18 stig og tók 13 fráköst. Shawnta Shaw skoraði 22 stig og tók átta fráköst fyrir Snæfell og Jasmina Jones gerði 16 stig og tók níu fráköst.