Rekstur ríkisins snertir okkur öll með einum eða öðrum hætti og okkar markmið er að besta nýtingu opinbers fjár sem okkur sem innkaupaaðilum ríkisins er treyst fyrir.

Opinber rekstur

Pétur Sigurðsson

Sérfræðingur stefnumótandi innkaupa hjá Ríkiskaupum

Þann 25. ágúst sl. kynnti fjármála- og efnahagsráðherra 17 ma.kr. hagræðingarkröfu stjórnvalda. Utan fimm ma.kr. hagræðingarkröfu á launalið varða aðrar aðgerðir opinber innkaup með beinum hætti. Annars vegar aukna áherslu á sóknarfærin í sameiginlegum innkaupum og hins vegar aðgerðir til að draga úr ferðakostnaði ríkisstarfsmanna. Áherslurnar koma Ríkiskaupum ekki á óvart en ríkið ver verulegum hluta af þeim fjármunum sem þeim er falið til ráðstöfunar í innkaup, eða um 266 mö.kr., og fyrir vikið eru hagkvæm innkaup grundvallarforsenda fyrir góðri nýtingu opinbers fjár.

Greiningar Ríkiskaupa hafa leitt í ljós tækifæri til að auka sameiginleg innkaup til muna og gera stofnunum á sama tíma kleift að hafa markviss áhrif á sjálfbærni, nýsköpun og samkeppni í rekstri. Sem dæmi má nefna nýjan rammasamning um samgönguþjónustu sem tekur mið af breyttu rekstrarumhverfi leigubílaþjónustu og auknu framboði á samgöngumáta t.d. í formi deilibíla og rafskúta. Þá er einnig unnið að miðlægum samningum um flugsamgöngur og bókunarþjónusta sem styðja við fyrrgreind markmið. Aðild að rammasamningum Ríkiskaupa tryggir kjör í ríflega 50 vöru- og þjónustuflokkum sem hefur gert þeim ríflega 600 kaupendum mögulegt að ná fram aukinni hagkvæmni í rekstri en greiningar á kjörum rammasamninga sýna 25% meðaltalsafslátt af vörukörfum innan samninga. Sé það sett í samhengi við heildarveltu innkaupa innan rammasamningakerfisins á liðnu ári, sem nam rúmum 23 mö.kr., er heildarávinningur opinberra aðila um sex milljarðar á ári af viðskiptum innan samninga. Þessum sóknarfærum til viðbótar má svo nefna þann ávinning sem opinberir aðilar geta náð í formi sameiginlegra útboða milli opinbera innkaupaaðila á nauðsynlegum rekstrarvörum og þjónustu. Má þar helst nefna bifreiða- og úrgangslosun og hvers kyns rekstrarþjónustu, líkt og mötuneyti, ræstingu, hýsingu og rekstur tölvumála, sem er boðin út af fleiri en einum aðila ríkisins ár hvert.

Með betri yfirsýn og aðgengi að fjárhagsáætlunum geta Ríkiskaup hjálpað stofnunum og sveitarfélögum að bjóða þessa þætti út sameiginlega. Hagræðingin er margþætt. Þannig geta stofnanir sparað tíma og kostnað með því að útvista útboðsvinnunni til okkar útboðsráðgjafa og deilt þeim kostnaði. Í þriðja lagi ná þau fram betri árangri í útboðinu sjálfu með stærðarhagkvæmni. Það sem af er ári hafa Ríkiskaup lokið 95 útboðsverkefnum og ávinningur þeirra nemur um 850 m.kr. sé miðað við mismun boðins verðs og samningsverðs. Heildarsamningsverð þessara innkaupa nemur 10 mö.kr. og kostnaður stofnana við vinnu Ríkiskaupa um 43 m.kr. eða um 5% af áætluðum sparnaði.

Ríkiskaup hafa unnið að aukinni gagnavæðingu og hagnýta innkaupagögn ríkisins við vöruflokkastjórnun og gerð rammasamninga. Í þeirri vinnu er litið til tækifærisgreininga til að ná fram aukinni hagkvæmni með reglubundinni samningsstjórnun rekstrarráðgjafar og viðskiptastjórnunar gagnvart birgjum, kaupendum og öðrum haghöfum ríkisins.

Í lok ágúst bauð Ríkiskaup rúmlega 350 forstöðumönnum og innkaupastjórum að fara í heildstæða yfirferð á innkaupum með hagræðingartækifæri í huga. Þetta er liður í þjónustumiðaðri nálgun Ríkiskaupa sem við teljum að muni leiða til aukinnar hagkvæmni til framtíðar. Vilji Ríkiskaupa er að í sameiningarkrafti allra hagaðila rammasamninga náum við þeim markmiðum sem stefnt er að til hagræðingar í rekstri hins opinbera. Það sem við þurfum til að láta það ganga upp er bætt samvinna milli opinberra kaupenda og skilningur á því að stærðarhagkvæmni við innkaup verður ekki náð að fullu án hennar. Rekstur ríkisins snertir okkur öll með einum eða öðrum hætti og okkar markmið er að besta nýtingu opinbers fjár sem okkur sem innkaupaaðilum ríkisins er treyst fyrir. Ákallið af okkar hálfu er skýrt. Við köllum eftir nánara samstarfi og hvetjum alla innkaupaaðila að sækja okkar ráðgjöf við að takast á við þær áskoranir og finna leiðir til hagræðingar á innkaupum.