Margrét Benediktsdóttir fæddist 17. desember 1951 í Reykjavík. Hún lést á heimili sínu, Kelduhvammi 10 í Hafnarfirði, 2. október 2023 umvafin þeim sem voru henni kærastir.
Foreldrar hennar voru Þorbjörg Katarínusdóttir, f. 29.3. 1934, d. 23.2. 1998 og Benedikt R. Bjarnason, f. 15.5. 1927, d. 7.12. 2000.
Margrét er elst fimm systra, einnig á hún tvo hálfbræður og eina hálfsystur. Margrét hélt sambandi við eina systur sína, Guðbjörgu, f. 1956.
Margrét giftist eiginmanni sínum, Birni Alfreðssyni, f. 20.8. 1946, þann 17.7. 1971. Björn lést af slysförum til sjós 17.4. 1973.
Margrét eignaðist eina dóttur, Birnu Þorbjörgu Long, f. 29.2. 1976. Birna eignaðist tvær dætur, Lilju Írisi Long, f. 15.10. 1998 og Perlu Ósk Long, f. 20.3. 2000, sem á eina dóttur, Úrsúley Thelmu Long, f. 21.9. 2021.
Margrét fór í Húsmæðraskólann Ósk
1969-1970. Hún útskrifaðist síðar sem kjólameistari frá Iðnskólanum í Reykjavík og starfaði lengst af við sitt fag. Margrét hafði alla tíð mikla unun af handavinnu, hvort sem það var að sauma, prjóna eða baka. Margrét kynnist dansi í gegnum Komið og dansið.
Útförin fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 11. október 2023, klukkan 13.
Elskuleg vinkona er horfin á braut.
Ég kynntist Margréti í dansferð á Calpe fyrir nokkrum árum þegar við buðum henni að sitja með okkur á danskvöldunum. Í framhaldi kom hún með okkur á ströndina og í bæjarferðir, eða við sátum bara í sólinni með prjónana okkar. Vinskapurinn þróaðist áfram hér heima og fórum við síðar í fleiri ferðir, s.s. á Dansbandsweckan í Svíþjóð þar sem hún fór alla morgna á dansnámskeið auk danskvöldanna og skeytti engu um þótt fæturnir væru bláir og bólgnir. Aldrei kvartaði hún, var alltaf jafn létt og kát. Fyrir nokkrum árum varð hún fyrir því að stór mistök voru gerð við aðgerð á henni og varð hún aldrei söm upp frá því. Bættist síðan við krabbamein sem að endingu sigraði þessa yndislegu konu sem alltaf var svo ljúf en samt svo kát og aldrei sagði hún styggðaryrði um nokkurn mann. Hún var listamaður í höndunum og eru ófáir hlutirnir sem hún hefur gert fyrir sig og sína og þótt heilsan leyfði henni engan veginn að sitja lengi við handavinnu lét hún það ekki aftra sér. Bútasaumsteppin eru þau fallegustu sem ég hef séð og prjónaflíkurnar ekki síðri. Ég keyrði hana stundum á milli staða og við heimsóttum kaffihús á meðan ég átti fólksbíl en þegar við seldum hann og fengum okkur jeppa þá gekk það ekki lengur þar sem hún réð ekki við að stíga upp í hann og þótti mér afar sárt að missa þessar ferðir okkar. Hún var ótrúlega viljasterk og sem dæmi: Það var örlítil en brött brekka í garðinum hjá henni og þegar ég fór út á snúru fyrir hana að ná í þvottinn þá átti ég eiginlega erfitt með að fóta mig upp brekkuna. Ég sagði við Margréti að hún hlyti að skríða upp brekkuna en nei, aldeilis ekki, hún sagðist bara ganga upp, það hefðist alltaf! Ég keyri oft á milli Reykjavíkur og Njarðvíkur og stytti þá leiðina með því að spjalla við Margréti á meðan. Hún var svo jákvæð og kát þótt líðanin væri alls ekki góð. Ég skammaðist mín oft yfir því hvað maður getur vælt yfir smámunum á meðan hún hló þótt kvalin væri. Það verður erfitt að keyra Reykjanesbrautina og fá ekki að spjalla og heyra hláturinn hennar á meðan. Takk fyrir yndislegar samverustundir, elsku Margrét, og ykkur fjölskyldu hennar votta ég innilega samúð mína.
Sólrún B. Valdimarsdóttir.
Margrét Benediktsdóttir hefur kvatt þetta jarðlíf og er farin yfir í sumarlandið.
Við vorum 28 stelpur í Húsmæðraskólanum Ósk, Ísafirði, árin 1969 til 1970. Magga, ég, Klara og Áslaug vorum herbergisfélagar. Voða fínt hjá okkur og allt í röð og reglu. Magga var mjög róleg og prúð og hefur sennilega stundum fundist nóg um hvað sumar af okkur hinum gátum fundið upp á af alls kyns vitleysu og fíflaskap. En brosti bara og hafði gaman af.
Magga var einstaklega dugleg og það var nánast sama hvað hún tók sér fyrir hendur, saumaskap, útsaum, vefnað, hekl, prjónaskap, matargerð, bakstur en allt lék í höndunum á Möggu. Þetta var skemmtilegur vetur og bundumst við stelpurnar sterkum böndum sem hefur haldist síðan í gegnum saumaklúbba, ferðalög og aðrar samverustundir.
Mikið var gaman hjá okkur þegar við fyrir 20 árum fórum í okkar fyrstu utanlandsferð saman, Magga og sjö aðrar. Við enn ungar og sprækar. Ferðin byrjaði í Prag, vorum þar fyrst nokkra daga og síðan komu þær til mín í Svendborg í Danmörku og gistu hjá mér í tvær nætur. Þetta var alveg ógleymanleg upplifun og dásamleg samvera fyrir okkur allar.
Þetta var svo gaman að ég fékk aftur heimsókn frá skólasystrunum í júní í sumar. Og nú komu þær ellefu og dvöldu í fjóra daga. Þær sömu: Magga B. Anna, Magga Þorkels, Jenný, Ester, Ólöf, Bryndís, Dulla og svo Edda, Sibba og Steinunn. Magga Sig komst ekki í þetta sinn. En nú voru þær allar orðnar mjög ráðsettar konur, komnar yfir sjötugt og margar meira segja orðnar langömmur. Nei, þær voru nú reyndar jafn kátar og glaðar og létu jafn illa. Mikið var hlegið, sungið, spjallað og minningar rifjaðar upp. Nærvera og vináttan á milli okkar allra svo falleg og dýrmæt. Þetta voru yndislegir dagar sem engin okkar mun gleyma. Magga var orðin mjög veik, en var staðráðin í því að fara með í þessa ferð til Danmerkur. Hún vissi að tíminn hjá henni væri að renna út, kvartaði ekki yfir verkjum eða neinu, sat úti í garðinum í sól og blíðu og fuglasöng innan um blómin mín með okkur hinum og naut þess að vera til. Magga skrifaði til mín eftir að hún kom heim til Íslands og þakkaði okkur öllum fyrir þessa yndislegu ferð.
Við skólasystur viljum votta Birnu dóttur Möggu og fjölskyldu okkar innilegustu samúð.
Góða ferð í heim ljóss og friðar elsku Magga. Við viljum kveðja þig með þessu ljóði við lag mitt, sem við sungum saman í júní í sumarblíðunni hjá mér í Svendborg.
Mæt þá er minning vaknar
Myndin frá bernskutíð
Hugur er sár og saknar
Sé ég þig ekki um hríð
Mætust þó minning ljómar
Mér finnst ég heyra um stund
Hlátur sem endurómar
Æskunnar gleðifund
Dagur sem löngu er liðinn
Leikur og dvöl með þér
Dagur sem löngu er liðinn
Lifnar í huga mér
Björt voru bernskuárin
Böðuð í sólaryl
Svo komu tár og sorgin þung
Og sárt var að vera til.
Burt hurfu bernskuárin
Burtu hver stund með þér
En þrátt fyrir sorg og sárin
Er sólskin í huga mér
Því minningar á ég allar
Enginn fær grandað þeim
Svo þegar klukkan kallar
kem ég loks til þín heim.
(Emilía Baldursdóttir)
Fyrir hönd okkar allra,
Gunnlaug Hanna
Ragnarsdóttir.