Umboðsmaður Niðurstaða Skúla Magnússonar umboðsmanns Alþingis um Íslandsbankasöluna var sú að ráðherra hefði skort hæfi í málinu.
Umboðsmaður Niðurstaða Skúla Magnússonar umboðsmanns Alþingis um Íslandsbankasöluna var sú að ráðherra hefði skort hæfi í málinu. — Morgunblaðið/Hallur Már
Umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefði skort hæfi til að taka ákvörðun um sölu á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka hf. Var álit hans þessa efnis birt í gær

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefði skort hæfi til að taka ákvörðun um sölu á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka hf. Var álit hans þessa efnis birt í gær.

Beindist athugun umboðsmanns að þremur atriðum vegna sölunnar, hvort reglum stjórnsýslulaga um sérstakt hæfi við söluna hefði verið fullnægt þar sem einn kaupenda var einkahlutafélag í eigu föður ráðherra. Einnig hvernig undirbúningi hefði verið hagað þannig að tryggt væri að gætt yrði reglna um sérstakt hæfi. Loks að lagalegri og stjórnskipulegri ábyrgð ráðherra á að söluferlið væri í samræmi við lög og reglur um sérstakt hæfi.

Hvað fyrsta atriðið varðar er niðurstaða umboðsmanns sú að skv. ákvæðum stjórnsýslulaga hafi ráðherra verið vanhæfur þar sem faðir hans átti sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta og vísar hann til þeirra fjárhagslegu hagsmuna sem skiptu um hendur með sölu hluta til félagsins og væntinga um hagnað í viðskiptum með hlutabréf.

Um það að gætt hafi verið að reglum um sérstakt hæfi segir umboðsmaður að meginmarkmið reglna sem um það gilda sé að fyrirbyggja að upp komi sú staða að starfsmaður, þ.e. ráðherrann, fjallaði um mál þar sem með réttu mætti efast um óhlutdrægni hans. Segir umboðsmaður að ráðherrann hafi brostið hæfi til ákvarðanatöku um sölu hlutabréfanna, jafnvel þótt hann telji að ekki sé tilefni til að draga í efa staðhæfingu ráðherrans um grandaleysi sitt um þátttöku einkahlutafélagsins í útboðinu.

Um þriðja atriðið segir umboðsmaður að ráðherra hafi m.a. borið að fylgjast með því eftir föngum hvort og hvernig sölumeðferðin horfði við kröfum sérstakra hæfisreglna stjórnsýsluréttar. Þar sem ekkert komi fram í samtímagögnum um þetta atriði verði umboðsmaður að líta svo á að stjórnsýsla ráðherra hafi ekki verið í nægilega góðu samræmi við stjórnunar- og eftirlitsskyldu hans. oej@mbl.is

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson