121 Þórey Rósa Stefánsdóttir er með flesta landsleiki í hópi Íslands.
121 Þórey Rósa Stefánsdóttir er með flesta landsleiki í hópi Íslands. — Morgunblaðið/Óttar
Ísland mætir í kvöld Lúxemborg í fyrsta leiknum í undankeppni Evrópumótsins 2024 en viðureign þjóðanna fer fram á Ásvöllum í Hafnarfirði og hefst klukkan 19.30. Ísland, Svíþjóð, Lúxemborg og Færeyjar leika saman í riðli og tvær efstu þjóðirnar…

Ísland mætir í kvöld Lúxemborg í fyrsta leiknum í undankeppni Evrópumótsins 2024 en viðureign þjóðanna fer fram á Ásvöllum í Hafnarfirði og hefst klukkan 19.30.

Ísland, Svíþjóð, Lúxemborg og Færeyjar leika saman í riðli og tvær efstu þjóðirnar komast í lokakeppnina, auk þess sem fjögur bestu lið af átta í þriðja sæti undanriðlanna fara einnig á EM.

Lokakeppnin fer fram í þremur löndum, Austurríki, Ungverjalandi og Sviss, í nóvember og desember 2024, eða eftir rúmt ár. Íslenska liðið er á leið í lokakeppni HM í Noregi á sama tíma á þessu ári.

Óhætt er að segja að Ísland eigi afar góða möguleika á að komast á EM 2024. Lúxemborg tapaði öllum sínum leikjum, gegn Portúgal, Kósovó og Kýpur, í forkeppni fyrir EM 2022 og tapaði með 42 marka mun samanlagt fyrir Úkraínu í tveimur leikjum í fyrstu umferð undankeppni HM 2023.

Baráttan um annað sæti riðilsins ætti að vera á milli Íslands og Færeyja sem mætast í fyrri leik sínum í riðlinum í Þórshöfn á sunnudaginn kemur. Svíþjóð og Færeyjar mætast í fyrstu umferðinni í Uppsala í dag.

Það er aðeins óvenjulegt fyrir okkur að vera stóra liðið. Oftar en ekki erum við í verkefnum þar sem við erum litla liðið. Við verðum klárlega stóra liðið á móti Lúxemborg,“ sagði Þórey Rósa Stefánsdóttir, landsliðskonan reynda, en nánar er rætt við hana, fleiri leikmenn og Arnar Pétursson þjálfara á mbl.is/sport.