Knattspyrnumaðurinn Hans Viktor Guðmundsson, fyrirliði Fjölnis, hefur rift samningi sínum við félagið. Björgvin Jón Bjarnason, formaður knattspyrnudeildar Fjölnis, staðfesti tíðindin við Fótbolta.net í gær. Hans Viktor, sem er 26 ára gamall, hefur allan ferilinn leikið með Fjölni. Hefur hann leikið 81 leik í efstu deild með liðinu og 73 í 1. deild. Hann lék á sínum tíma tólf leiki fyrir U21 árs landslið Íslands og skoraði í þeim eitt mark.
Belgíski knattspyrnumaðurinn Eden Hazard hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna, 32 ára að aldri. Samningi Hazard við spænska stórveldið Real Madríd var rift í sumar og hafði vængmaðurinn átt í erfiðleikum með að finna sér nýtt félag. Dvöl hans hjá Real Madríd markaðist af þrálátum meiðslum og náði Hazard sér aldrei á strik á þeim fjórum árum sem hann varði í höfuðborg Spánar eftir að hafa verið keyptur á 120 milljónir punda frá Chelsea, þegar hann þótti einn besti leikmaður heims.