„Hlutfallslega er fjölgun ríkisstöðugilda mest á Suðurnesjum og svo á Suðurlandi en aukningin er þó mest á höfuðborgarsvæðinu í stöðugildum talið,“ segir Þorkell Stefánsson, sérfræðingur hjá Byggðastofnun og höfundur nýrrar skýrslu…

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Hlutfallslega er fjölgun ríkisstöðugilda mest á Suðurnesjum og svo á Suðurlandi en aukningin er þó mest á höfuðborgarsvæðinu í stöðugildum talið,“ segir Þorkell Stefánsson, sérfræðingur hjá Byggðastofnun og höfundur nýrrar skýrslu stofnunarinnar um fjölda ríkisstöðugilda og dreifingu þeirra um landið, en ríkisstöðugildum hefur fjölgað undanfarin ár.

„Við skilgreinum t.a.m. stöðugildi á dvalarheimilum sem ríkisstörf, því greitt er fyrir þessi störf með daggjöldum frá Tryggingastofnun,“ segir hann og segir það m.a. ástæðuna fyrir því að heildartala ríkisstöðugilda sé frekar há hjá Byggðastofnun, en ekki allir nota sömu skilgreiningu og fjöldinn eykst þegar þessi fjöldi heilbrigðisstarfsmanna er tekinn inn í myndina.

Um síðustu áramót voru samkvæmt greiningunni 27.694 stöðugildi á vegum ríkisins á landinu öllu og þeim fjölgaði um 788 frá árinu á undan. Langflest stöðugildi ríkisins eru á höfuðborgarsvæðinu, eða 70% en 64% landsmanna búa á því svæði. Þá fjölgaði stöðugildum kvenna um 669 á árinu, langflestum í heilbrigðisgeiranum, á móti 119 stöðugildum karla sem fjölgaði mest hjá Isavia og Landspítala.

Þorkell segir að frá því að Byggðastofnun hóf að kanna fjölda og dreifingu ríkisstöðugilda hafi þeim mest fjölgað um 1.341 stöðugildi milli ára og það var í fyrra fyrir tímabilið 2020-2021. Í ár fjölgaði stöðugildum um 788. „Þessi mikla fjölgun í fyrra var sennilega helst út af því að margir heilbrigðisstarfsmenn þurftu að vera í sóttkví vegna covid-faraldursins og þá þurfti að yfirmanna á stofnunum vegna þess,“ segir hann.

„Það er jákvætt að sjá tölurnar hjá Isavia og tengdum félögum sem sýna að ferðaþjónustan er að taka við sér, fyrst og fremst á Suðurnesjum. Í þeim landshluta er mjög stór hluti ríkisstarfanna hjá Isavia og mjög lágt hlutfall heilbrigðisstarfsmanna á hvern íbúa miðað við aðra landshluta.“

Á Suðurlandi er aukningin 9,1% borið saman við 10,7% á Suðurnesjum. „Það hefur verið mikil fólksfjölgun á Suðurlandi sem skýrir að einhverju leyti fjölgun ríkisstöðugilda þar. Síðan var verið að opna hjúkrunarheimilið Móberg á Selfossi sem skýrir að hluta mikla aukningu hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands, sem er víðar en á Selfossi.“ Mikil fjölgun ferðamanna á Suðurlandi sést einnig í fjölgun stöðugilda hjá þjóðgarðinum á Þingvöllum.

Eini landshlutinn þar sem ríkisstöðugildum fækkar er Norðurland vestra, þar sem starfsgildum fækkar um 11, sem er samdráttur um 2,1%. Þorkell segir að hluti af byggðastefnu sé að reyna að færa fleiri ríkisstörf út á landsbyggðina, eins og gert hafi verið með Byggðastofnun þegar hún var færð til Sauðárkróks, en einnig sé litið til þess að fjölga óstaðbundnum störfum.

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir