Uppgjör 2023
Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
Agla María Albertsdóttir, kantmaður Breiðabliks, var besti leikmaðurinn í Bestu deild kvenna í fótbolta árið 2023, samkvæmt einkunnagjöf Morgunblaðsins, M-gjöfinni.
Hún fékk samtals 21 M í 23 leikjum Breiðabliks en Agla María var í byrjunarliði Breiðabliks í öllum leikjunum og var markahæsti leikmaður liðsins með 10 mörk, og sú næstmarkahæsta í deildinni í heild.
Frammistaða Öglu Maríu var jöfn allt tímabilið en hún var í úrvalsliði Morgunblaðsins í fjórum fyrstu mánuðunum af fimm, maí, júní, júlí og ágúst, og var varamaður í úrvalsliði haustmánaðanna. Hún fékk fjögur M í maí, fjögur í júní , fimm í júlí, fjögur í ágúst og fjögur í september.
Fjórum sinnum fékk hún tvö M fyrir frammistöðu sína og þrettán sinnum eitt M í þessum 23 leikjum Breiðabliks.
Þetta er í annað sinn sem Agla María verður efst í M-gjöf Morgunblaðsins en það var hún einnig árið 2021.
Agla María er 24 ára gömul og uppalin í Breiðabliki. Hún hóf þó meistaraflokksferilinn 15 ára gömul með Val árið 2015, lék síðan með Stjörnunni 2016 og 2017 en með Breiðabliki frá 2018, að undanskildum fyrri hluta ársins 2022 þegar hún lék með Häcken í Svíþjóð.
Hún hefur skorað 70 mörk í 142 leikjum í efstu deild hér á landi og fjögur mörk í 56 A-landsleikjum fyrir Íslands hönd.
Shaina önnur og Katla þriðja
Baráttan í M-gjöfinni var jöfn og tvísýn allt tímabilið. Shaina Ashouri úr FH, Katie Cousins úr Þrótti og Taylor Ziemer úr Breiðabliki voru lengst af í slagnum við Öglu Maríu um efsta sætið og þær Sandra María Jessen úr Þór/KA og Katla Tryggvadóttir úr Þrótti voru skammt undan. Sandra var með forystu framan af en meiddist á miðju sumri og missti nokkra leiki úr og Katla varð líka fyrir meiðslum sem settu strik í reikinginn hjá henni.
Taylor yfirgaf Breiðablik um miðjan september og Katie varð fyrir meiðslum, þannig að þær misstu báðar af þremur síðustu umferðunum.
Shaina og Agla María voru jafnar og efstar með 19 M þegar tvær umferðir voru eftir en FH-konan meiddist snemma í næstsíðasta leiknum á meðan Agla María fékk M í báðum leikjum Breiðabliks sem eftir voru.
Niðurstaðan varð sú að Shaina varð í öðru sæti M-gjafarinnar með 19 M og Katla Tryggvadóttir þriðja með 18 M.
Næstar á eftir þeim komu Sandra María og Hulda Ósk Jónsdóttir úr Þór/KA og Murielle Tiernan úr Tindastóli með 17 M hver en Taylor Ziemer og Katie Cousins enduðu með 16 M, eins og Arna Sif Ásgrímsdóttir úr Val, Sif Atladóttir frá Selfossi og Mackenzie George úr FH.
Leikmenn mánaðar
Morgunblaðið valdi fimm sinnum besta leikmann mánaðarins á tímabilinu út frá M-gjöfinni. Sandra María Jessen úr Þór/KA var best í maí, Mackenzie George úr FH í júní, Bryndís Arna Níelsdóttir úr Val í júlí, Monica Wilhelm úr Tindastóli í ágúst og Tanya Boychuk úr Þrótti á haustmánuðunum.
Einkunnagjöf Morgunblaðsins
Íþróttafréttamenn Morgunblaðsins voru á öllum 111 leikjum Bestu deildar kvenna á tímabilinu, lýstu þeim á mbl.is og gáfu leikmönnum einkunnir sem birtust í blaðinu. Til að fá eitt M þarf leikmaður að eiga góðan leik, til að fá tvö M þarf mjög góðan leik og til að fá þrjú M, sem er nokkurs konar sparieinkunn, þarf að eiga algjöran toppleik á íslenskan mælikvarða.
Þrír leikmenn fengu einkunnina þrjú M á tímabilinu. Monica Wilhelm, markvörður Tindastóls, fyrir frammistöðu sína í útisigri á Þrótti 15. ágúst, 2:0, Amanda Andradóttir úr Val sem lagði upp fjögur mörk og skoraði eitt í sigri gegn Þór/KA 31. ágúst og Murielle Tiernan úr Tindastóli sem skoraði fjögur mörk gegn ÍBV í hreinum úrslitaleik liðanna um áframhaldandi sæti í deildinni í lokaumferð neðri hlutans 16. september.
Í blaðinu á morgun verður birt niðurstaðan í M-gjöfinni í Bestu deild karla og síðar í vikunni verða birtir sex til sjö efstu leikmennirnir í hverju liði. Þá verða dómarar ársins í báðum deildum kynntir fljótlega.