Rúnar Heiðar Sigmundsson fæddist 8. apríl 1933. Hann lést 8. september 2023.
Útför hans fór fram 6. október 2023.
Föstudaginn 6. október kvöddum við hinsta sinn tengdaföður minn Rúnar Heiðar Sigmundsson. Minningar brjótast fram um hartnær hálfrar aldar kynni mín af honum og hversu góður og heilsteyptur maður hann var. Minningar sem kalla fram söknuð og tár en eru þau ekki bara af hinu góða?
Minningar um jól í Espilundinum þar sem börnin þín, tengdabörn og barnabörn voru alltaf velkomin og jólin þar fastur hluti af tilveru okkar. Með árunum fjölgaði barnabörnunum, erillinn jókst en aldrei var að sjá að það angraði þig, öðru nær. Börn og tengdabörn reyndu að vera fyrri til að ganga frá í eldhúsinu en oftast endaði það með því að þú tókst yfir og ýttir okkur frá með hæglæti og velvilja.
Það var fastur liður á Þorláksmessu að hamfletta rjúpur og ég var svo heppinn að taka þátt í því með þér, þú kenndir mér að hamfletta og hreinsa, ekki skola of mikið því þá gæti bragðið dofnað. Síðar kom í ljós að kennslan hafði rist djúpt og ég kunni handbrögðin enn þokkalega skammlaust.
Það var ekki þinn háttur að grípa fram fyrir hendurnar á okkur en hverslags aðstoð var ljúfmannlega reidd fram ef eftir henni var óskað.
Þið Helga tókuð mér afar vel frá fyrstu tíð og reyndust okkur alltaf vel. Ég sá í ykkur samrýnd hjón sem gott væri að hafa til fyrirmyndar. Það eina sem stakk í stúf hjá ykkur var gönguhraðinn en þar áttum við Helga í vök að verjast enda skrefstyttri en Strandakynið, Rúnar og Sigrún dóttir hans, konan mín.
Það var með takmarkalausri aðdáun sem ég fylgdist með þér taka á veikindum og síðar andláti Helgu af fádæma æðruleysi og yfirvegun. Þú hélst líka ótrauður áfram af sömu yfirvegun og ró sem einkenndi þig. Þá varð fastur liður að þú komst í mat til okkar, teinréttur og kvikur til að byrja með en eins og verða vill fór að hægjast á hreyfingunum og líkaminn að bogna. Andinn var hins vegar óbeygður og stundum var skeggrætt og rifjað upp hvar hinn og þessi hafði búið og hver börnin voru, allt mundir þú. Dagblöðin voru líka lesin upp til agna og ósjaldan greipstu í landabréf og ferðabækur til að athuga eitthvað nánar.
Jafnvel andinn þarf að láta sér líka að eldast og mestu kappar þurfa að sætta sig við að geta ekki stokkið upp á næstu hæð eða jafnvel næsta fjall meðan ferðafélagar hvíla lúin bein eins og þú varst þekktur fyrir.
Það var alveg ómetanlegt að fá að aðstoða þig til að hitta Svein bróður þinn og systkinabörn ykkar fyrstu helgina í september hér á Akureyri. Mér fannst þú þá sitja eldhress og njóta samverunnar en óskaplega fundum við líka vel hvað þú áttir litla orku eftir í líkamanum þegar heim var komið.
Örfáum dögum síðar fannst þér líka komið nóg, þú sáttur við að kveðja. Auðvitað beiðstu samt með það þar til öll börnin þín gátu setið hjá þér og hálftíma eftir að synir þínir komu að sunnan kvaddir þú, jafn hæglátlega og þín var von og vísa.
Helga þín var með stóran faðm og hefur örugglega tekið á móti þér brosandi þennan fallega haustdag. Þig kveð ég með sömu handahreyfingu og þér var tamt: Elsku Rúnar, takk fyrir samfylgdina.
Þinn tengdasonur,
Magnús.