Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Stjórnvöld í Ísrael sögðu í gær að staðfest væri að fleiri en þúsund manns hefðu fallið í hryðjuverkum Hamas-samtakanna um helgina, og gætu þær mannfallstölur enn hækkað. Er það mesta mannfall sem orðið hefur í Ísraelsríki í hryðjuverkum frá stofnun ríkisins árið 1948.
Ísraelsher sagðist í gær hafa náð fullum tökum á landamærum Ísraels og Gasasvæðisins, og að þeir hefðu fundið lík rúmlega 1.500 Hamas-liða. Herinn hélt áfram stöðugum loftárásum á Gasasvæðið í gær. Sagðist herinn hafa hitt um 200 skotmörk á svæðinu um nóttina. Daniel Hagari, undiraðmíráll og talsmaður Ísraelshers, sagði í gær að aðgerðir hersins myndu nú miða að því að fella forystu Hamas-samtakanna.
Embættismenn á Gasasvæðinu, sem er á valdi Hamas-samtakanna, sögðu í gær að rúmlega 800 manns hefðu fallið í loftárásum Ísraela til þessa, en ekki er hægt að staðfesta þær tölur.
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, ávarpaði þjóð sína á mánudagskvöldið og líkti þar voðaverkum Hamas-samtakanna við þau ódæði sem liðsmenn Ríkis íslams (ISIS) frömdu á sínum tíma. „Hryðjuverkamenn Hamas bundu, brenndu og tóku börn af lífi,“ sagði Netanjahú meðal annars í ávarpi sínu, en staðfest var í gær að um 40 börn undir tveggja ára aldri hefðu verið afhöfðuð í árás Hamas-liða á samyrkjubúið Kfar Azza.
Netanjahú greindi frá því í ávarpi sínu að hann vildi mynda þjóðstjórn með stjórnarandstöðuflokkunum, en ísraelsk stjórnmál hafa einkennst af mikilli misklíð undanfarin misseri. Voðaverk helgarinnar hafa hins vegar orðið til þess að láta flokkana snúa bökum saman, og tilkynnti Líkud-flokkur Netanjahús í gærmorgun að hinir ríkisstjórnarflokkarnir hefðu samþykkt myndun þjóðstjórnar.
Dæmi um „hreina illsku“
Joe Biden Bandaríkjaforseti og Kamala Harris varaforseti ræddu símleiðis við Netanjahú í gær um stöðuna. Biden flutti ávarp að samtali þeirra loknu og staðfesti þar að minnst 14 bandarískir ríkisborgarar hefðu fallið í árás Hamas-samtakanna um helgina, og að vitað væri um Bandaríkjamenn í haldi Hamas-samtakanna.
Biden fordæmdi árásirnar harkalega og sagði þær vera dæmi um þær stundir í lífinu þegar „hrein illska“ birtist ljóslifandi. Ítrekaði hann stuðning Bandaríkjanna við Ísraelsríki og fór sérstaklega yfir það hvað Bandaríkjastjórn hefði gert og hygðist gera til að styðja Ísrael á komandi dögum, vikum og mánuðum. Nefndi Biden meðal annars að Bandaríkin myndu hjálpa Ísraelum að viðhalda loftvarnakerfi sínu, járnhvelfingunni, með því að senda þeim skotfæri fyrir kerfið.
Þá nefndi Biden það að Bandaríkjafloti hefði sent flugmóðurskipið Gerald H. Ford á vettvang, og tók fram að Bandaríkin væru tilbúin til þess að senda fleiri flotadeildir til austurhluta Miðjarðarhafs til stuðnings Ísraelum. Þá varaði hann önnur ríki og aðra óvini Ísraels sérstaklega við því að ráðast á Ísrael á þessari stundu.
Danir og Svíar fresta aðstoð
Stjórnvöld í Danmörku og Svíþjóð lýstu því yfir í gær að þau hefðu frestað allri þróunaraðstoð sinni til Palestínu vegna árása Hamas um helgina, en að mannúðaraðstoð ríkjanna myndi halda áfram.
Fylgdu norrænu ríkin þar fordæmi Þjóðverja og Austurríkismanna, sem sögðu á mánudaginn ætla að endurskoða þróunaraðstoð sína til Palestínu, á sama tíma og Evrópusambandið ákvað að hefja svipaða endurskoðun á því fjármagni sem það sendir til palestínsku heimastjórnarinnar.
Í tilkynningu dönsku ríkisstjórnarinnar sagði að farið yrði rækilega yfir það hvert það fjármagn sem Danir senda til Palestínu rynni svo að tryggt væri að það væri ekki notað til þess að styðja óbeint við hryðjuverkasamtök sem ráðast á Ísrael. Þá yrði endurskoðunin gerð í samstarfi við bæði ESB og hin norrænu ríkin.
Danir höfðu eyrnamerkt um 235,5 milljónir danskra króna, eða sem nemur um 4,6 milljörðum íslenskra króna, í þróunar- og mannúðaraðstoð til Palestínu á þessu ári. Eiga þeir enn eftir að senda um 72 milljónir danskra króna, eða um 1,4 milljarða íslenskra króna, til Palestínu, og hefur það fjármagn nú verið fryst.
Johan Forssell, þróunarráðherra Svíþjóðar, staðfesti ákvörðun sænsku ríkisstjórnarinnar á blaðamannafundi í gær, en fór ekki út í smáatriði um hversu mikið fjármagn væri um að ræða. Sagði Forsell að allar aðstæður hefðu breyst eftir árásina um helgina og að þróunaraðstoð yrði því hætt tímabundið þar til annað yrði ákveðið.
Utanríkisráðherrar Evrópusambandsins héldu neyðarfund í gær til þess að ræða ástandið og hvort ástæða sé til þess að halda áfram aðstoð til Palestínumanna, en framkvæmdastjórn ESB hætti í fyrrakvöld við áform um að frysta alla aðstoð til Palestínu eftir að Spánverjar og Írar mótmæltu því. Josep Borrell, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, sagði eftir fundinn að „yfirgnæfandi meirihluti“ aðildarríkjanna væri mótfallinn því að skera á alla aðstoð til Palestínumanna.
Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands, sagði fyrir fundinn að rangt væri að hætta að senda áfram mannúðaraðstoð fyrir óbreytta borgara í Palestínu, þrátt fyrir að hömlur væru settar á þróunaraðstoð. Skoraði hún jafnframt á palestínsku heimastjórnina á Vesturbakkanum að fordæma aðgerðir Hamas-samtakanna.
Segja umsátrið ólöglegt
Borrell sagði einnig eftir fund utanríkisráðherranna að Evrópusambandið myndi hvetja Ísraelsríki til þess að skera ekki á birgðir Gasasvæðisins af matvælum, vatni og rafmagni, en Yoam Gallant, varnarmálaráðherra Ísraels, tilkynnti á mánudaginn að svæðið yrði sett undir „algjört umsátur“. Þá skoraði Borrell á Ísraela að koma upp leiðum fyrir þá flóttamenn sem vildu yfirgefa Gasasvæðið á komandi dögum.
Volker Turk, mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, lýsti því yfir fyrr um daginn að algjört umsátur af því tagi sem Ísraelar hefðu boðað væri ólöglegt samkvæmt alþjóðlegum mannréttindalögum, þar sem það tefldi lífi óbreyttra borgara í hættu.
Um 2,3 milljónir manna búa á Gasasvæðinu, og eru rúmlega 185.000 þeirra nú sagðir á vergangi eftir atburði síðustu daga. Landamæri svæðisins að bæði Egyptalandi og Ísrael eru hins vegar lokuð og hafa þeir því takmarkaðar leiðir til þess að flýja.