Stroke Hjónin Virginia Gillard og Sæmundur Andrésson í hlutverkum sínum sem trúðarnir Cookie og It.
Stroke Hjónin Virginia Gillard og Sæmundur Andrésson í hlutverkum sínum sem trúðarnir Cookie og It. — Ljósmyndir/Owen Fiene
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristín Heiða Kristinsdóttir khk@mbl.is

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

„Við höfum áður gert sýningar með leikurum sem eru sviðsetningar á hinu persónulega, til dæmis með Maríu Thelmu í verkinu Velkomin heim, þar sem hún sagði sögu sína og móður sinnar sem kom til Íslands fyrir tæpum 30 árum,“ segja þær Andrea Elín Vilhjálmsdóttir og Kara Hergils Valdimarsdóttir, leikstýrur og dramatúrgar nýs verks, Stroke, sem frumsýnt verður í Tjarnarbíói á morgun, fimmtudag. Stroke er heimildaverk eftir Virginiu Gillard og sviðslistahópinn Trigger Warning. Í verkinu miðlar Virginia, sem trúðurinn Cookie, upplifun sinni og sögu af því að hafa fengið heilablóðfall fyrir fimm árum. Mótleikari og sviðshönd er eiginmaður Virginiu, Sæmundur Andrésson.

„Virginia hefur sjálf sagt að þegar hún vaknaði eftir heilablóðfallið þá hafi það líkst atriði úr trúðaleikriti. Verk- og málstol gerðu hana að fanga í eigin líkama og hinar hversdagslegustu gjörðir urðu þrautabraut. Áfallið breytti öllu í lífi Virginiu en fyrir það starfaði hún í þrettán ár sem atvinnutrúður á sjúkrahúsum í Glasgow og Edinborg, ýmist fyrir börn eða eldra fólk, oft heilabilaða. Núna situr hún hinum megin við borðið og veit ekki hvort hún á að gráta eða hlæja að fáránleikanum.“

Andrea segir að Sæmundur, eiginmaður Virginiu, sé föðurbróðir sinn og að þau hjónin hafi búið á Íslandi í rúman áratug. Hún þekki því vel til þeirra.

„Ég tók viðtal við Virginiu fyrir áratug fyrir BA-ritgerð mína í þjóðfræði þar sem ég skrifaði um hefðir og siði leikhústrúða. Fyrir vikið á ég hljóðupptökur þar sem hún er að útskýra tækni trúðsins og við notum hluta af þeim upptökum í leikverkinu Stroke, en eftir heilablóðfallið á Virginia erfitt með að tjá sig með orðum,“ segir Andrea og bætir við að fyrir þremur árum hafi hún spurt Virginiu hvort hana langaði ekki að gera sviðslistaverk, koma sér aftur af stað í að vera skapandi. „Ég útskýrði fyrir henni hvernig við hefðum unnið sambærileg verk áður og hvort hún væri til í að gera samsköpunarverk unnið upp úr heimildum og sögunni af hennar lífsreynslu. Hún tók mjög vel í það og þá fór boltinn að rúlla.“

Kara segir að eðli málsins samkvæmt hafi vinnuferlið fyrir sýninguna verið langt.

„Þetta hefur verið tveggja ára ferli sem við höfum unnið í lotum, rétt eins og endurhæfingarferli. Við gerum þetta öll saman og þetta er alfarið unnið upp úr upplifun þeirra hjóna og þeim hindrunum sem þau hafa mætt í sínu lífi eftir heilablóðfallið. Við finnum leiðir til að sviðsetja það og byggjum dramatúrgíu verksins og leikstýrum, en þetta er fyrst og fremst verkið hennar Virginiu, ekki við að segja henni hvað hún á að gera. Hún er með mjög sterkar skoðanir á hlutunum og kemur með alls konar hugmyndir.“

Þær segja að líkamleg skerðing Virginiu hafi gengið frekar hratt til baka eftir heilablóðfallið, en hún lamaðist að hluta.

„Hún er fullfær á sviði, en glímir enn við verk- og málstol. Verkið snýst einmitt líka um að mæta henni þar sem hún er. Sæmundur hefur verið hennar stuðningsmaður síðan áfallið reið yfir, og því datt okkur í hug að byggja hans hlutverk inn í verkið. Hann er sviðshönd, hann er þarna til að aðstoða hana í gegnum verkið, en líka í hlutverki trúðs.“

Virginia hefur sagt að það sé afar sérstök upplifun fyrir sig, trúðaleikkonuna, að verða fyrir skerðingu af völdum heilablóðfalls, því trúður á erfitt með að læra af mistökum og kemur að sömu hindrunum aftur og aftur.

„Þannig er það einmitt hjá fólki sem þarf að takast á við verkstol, það er eins og að vera trúður. Þarna verða því áhugaverðar hliðstæður. Að vinna að þessu verki hefur hjálpað Virginiu mikið að vinna úr áfallinu og ástandinu, þetta hefur að einhverju leyti verið eins og meðferð.“

Þær segja að verkið spyrji líka áleitinna samfélagslegra spurninga, t.d. hvenær fólk eigi afturkvæmt inn í samfélagið og inn í starf sitt eftir veikindi.

„Er Virginia til dæmis vanhæfur trúður af því að hún er með málstol? Stroke er fyrsta verkið sem hún vinnur á sviði eftir áfallið og hún skilar því með miklum sóma. Fyrir okkur hefur verið áhugavert og lærdómsríkt að vinna í umhverfi þar sem ekki er allt eins og við erum vanar, en á sama tíma mjög skemmtilegt. Við höfum tekist á við nýjar áskoranir til að finna út úr hlutunum.“

Andrea segir að sér hafi fundist merkilegt að fylgjast með Virginiu eftir að hún fékk heilablóðfallið.

„Heilinn er margslungið fyrirbæri og afleiðingar heilablóðfalls eru ólíkar eftir einstaklingum, eftir því hvar og hversu mikið blæðir inn á heila viðkomandi. Ótal spurningar vakna hjá fjölskyldu og vinum þess sem fær heilablóðfall. Mér finnst merkilegt að sjá virknina í heilastarfseminni hjá Virginiu, því sumt er ekkert mál fyrir hana en annað eru endalausar hindranir. Ég sé samt alltaf persónu hennar skína í gegn, hún er þarna, nákvæmlega sama manneskjan, en í breyttum aðstæðum.“

Kara segir að þó svo að það sé átakanlegt að sjá Virginiu hefta í afleiðingum heilablóðfalls, þá sé líka fallegt og magnað að fá að verða vitni að því hvað húmor geti verið sterkt verkfæri í slíkum aðstæðum.

„Þau hjónin, leikararnir í verki um erfiðar aðstæður í þeirra lífi, hafa náð að halda í léttleikann sín á milli, þau nota trúðinn til að komast í gegn um þetta. Húmor er greinilega öflugt bjargráð.“ Þær segja að í ljósi þess að í mörgum fjölskyldum sé einhver sem hefur fengið heilablóðfall, þá telji þær að það gæti haft meðferðargildi fyrir marga að sjá svona sýningu á sviði. Þær taka fram að í verkinu séu næmir leikhústrúðar; Virginia og Sæmundur séu ekki með krulluhárkollur eða andlitsmálningu.

„Rauða trúðanefið er þeirra eina gríma, minnsta gríma í heimi en afar áhrifamikil, því allt breytist eftir að leikari setur upp slíkt nef.“

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir