Hún er mikil sú ábyrgð sem þeir Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnðarsambandsins, og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, bera.
Hún er mikil sú ábyrgð sem þeir Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnðarsambandsins, og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, bera. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Það kom flestum á óvart að Seðlabankinn skyldi í síðustu viku gera hlé á vaxtahækkunarferli sínu, eftir að hafa hækkað vexti fjórtán sinnum í röð frá því í fyrravor. Þó er rétt að hafa það í huga að bankinn var mjög skýr með framhaldið og er…

Það kom flestum á óvart að Seðlabankinn skyldi í síðustu viku gera hlé á vaxtahækkunarferli sínu, eftir að hafa hækkað vexti fjórtán sinnum í röð frá því í fyrravor. Þó er rétt að hafa það í huga að bankinn var mjög skýr með framhaldið og er líklegur til að hækka vexti á ný ef raunvextir verða ekki viðunandi fram að næstu vaxtaákvörðun. Hækkunarferlinu er því alls ekki lokið.

Það má með einföldum hætti segja að Seðlabankinn hafi kastað boltanum til Alþingis (sem er með fjárlagafrumvarp næsta árs til umfjöllunar), aðila vinnumarkaðarins og að einhverju leyti til almennings. Það á síðan eftir að koma í ljós hvort þessir aðilar grípa boltann og það sem skiptir meira máli, hvernig þeir spila með hann. Það er rétt að stilla væntingum sínum í hóf hvað forystu verkalýðshreyfingarinnar varðar. Nýjasta útspilið á þeim bæ felst í því að boða fjögurra daga vinnuviku og látið er að því liggja að það kosti ekki neitt. Það er líklega bara byrjunin á þeim skrípaleik sem við getum átt von á í vetur.

Við erum að öllu óbreyttu að fara inn í enn einn veturinn þar sem við horfum á deilur á vinnumarkaði án þess þó að takast á við hinn raunverulega vanda; sem er sá að íslenska vinnumarkaðsmódelið er gallað. Á meðan frændum okkur á Norðurlöndunum hefur tekist að búa til módel þar sem hækkun launa byggist á raunverulegum hagvexti ætlum við að halda áfram að spóla í sömu hjólförum kerfis sem einkennist af víxlverkun of mikilla launahækkana og verðbólguþrýstings. Þetta er almenn vitneskja þeirra sem hafa með þessi mál að gera en þrátt fyrir það er ekki hægt að ná samstöðu um skynsamlegar aðferðir sem myndu fela í sér aukna hagsæld til lengri tíma. Það er ekki oft hvatt til þess hér á þessum stað að auka valdaheimildir ríkisstarfsmanna, en það liggur þó fyrir að fyrsta skrefið í því að ná árangri á þessu sviði væri að auka heimildir ríkissáttasemjara þannig að embættið geti brugðist við með eðlilegum hætti þegar viðræður sigla í strand.

Það liggur fyrir að framleiðni hér á landi stendur ekki undir þeim launahækkunum sem samið hefur verið um í þeim samningum sem hafa verið undirritaðir á liðnum árum. Það virðist litlu máli skipta og nú er látið að því liggja að atvinnurekendur þurfi að bæta launafólki upp þá kaupmáttarskerðingu sem það hefur mátt sæta á liðnum mánuðum. Og það þrátt fyrir að kaupmáttur hafi verið hér með hæsta móti á árunum þar á undan. Einhvern daginn kemur að skuldardögum, sem að öllum líkindum kemur fram í því að félagsmenn þeirra félaga þar sem formenn tala af kæruleysi um fjögurra daga vinnuviku verða þakklátir fyrir að hafa vinnu yfirhöfuð.