Langþráð stund Sigurjón, Þór og Almar að fagna Englandsmeistaratitli Liverpool sumarið 2020.
Langþráð stund Sigurjón, Þór og Almar að fagna Englandsmeistaratitli Liverpool sumarið 2020.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurjón Rúnarsson fæddist 11. október 1973 á Selfossi en ólst upp á Reyðarfirði. „Foreldrar móður minnar bjuggu í Ölfusi og mamma fór suður til að eiga mig

Sigurjón Rúnarsson fæddist 11. október 1973 á Selfossi en ólst upp á Reyðarfirði.

„Foreldrar móður minnar bjuggu í Ölfusi og mamma fór suður til að eiga mig. Pabbi var heima á Reyðarfirði að kenna og kom svo fljúgandi suður rúmri viku eftir fæðingu til að fylgja konu og nýfæddu barni heim.“

Sigurjón fór snemma að vinna. „Ég byrjaði 11 ára að vinna í síldarsöltun, fór eftir skóladaginn og vann í einhverja klukkutíma. Svo vann ég í saltfiski, held það hafi verið árið fyrir fermingu sem ég vann fyrsta heila sumarið í honum. Ég var svo einhver sumur á lager heildsölu og menntaskólaárin starfaði ég á sumrin við mælingar hjá Vegagerðinni.

Sem barn og unglingur æfði ég það sem var í boði á staðnum, fótbolta, sund og frjálsar íþróttir. Spilaði fótbolta upp alla yngri flokka með Val Reyðarfirði og síðan með KVA m.a. tvö tímabil í næstefstu deild. Í Reykjavík spilaði ég með Fjölni tvö tímabil.“

Sigurjón gekk í Grunnskóla Reyðarfjarðar og útskrifaðist þaðan árið 1989. Þaðan lá leiðin í Menntaskólann á Egilsstöðum þar sem hann útskrifaðist með stúdentspróf 1993. Hann fluttist til Reykjavíkur haustið 1994 og tók tæpt ár í Tækniskóla Íslands í byggingatæknifræði. Haustið 1995 hóf hann síðan nám í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan 1999 sem sjúkraþjálfari.

Sigurjón starfaði í Reykjavík eftir útskrift, fyrst á Endurhæfingarstöð Kolbrúnar og svo hjá Sjúkraþjálfun Íslands frá 2000 til 2006. Hann fluttist aftur austur á Reyðarfjörð haustið 2006 og hóf störf sem sérfræðingur á heilbrigðissviði hjá Alcoa Fjarðaáli fram á haust 2009. Árið 2010 starfaði hann sem sjúkraþjálfari á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík og framan af árinu 2011 starfaði hann í afleysingum hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands þar til hann opnaði sjúkraþjálfunarstofuna Heilsuhreysti á Reyðarfirði í maí 2011. Hann hefur starfað þar síðan.

„Það var engin vanþörf á að opna sjúkraþjálfunarstofuna og ég næ í raun ekki að anna öllu sem ég þyrfti að ná. Það vantar fleiri sjúkraþjálfara til starfa hérna. Þau eru þrjú í Neskaupstað en svo er ég einn starfandi á svæðinu frá Eskifirði allt suður á Djúpavog, það er enginn sjúkraþjálfari fyrr en komið er á Höfn. Ég er því að fá fólk frá öllum þessum stöðum, Eskifirði, Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði, Stöðvarfirði, Breiðdalsvík og Djúpavogi, jafnvel frá Egilsstöðum, en það eru langir biðlistar þar líka.“

Sigurjón hefur verið varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð frá síðustu sveitarstjórnarkosningum, 2022, og situr í íþrótta- og tómstundanefnd og fræðslunefnd. „Það er gaman að taka þátt í þessu. Ástæðan fyrir því að ég fór út í þetta var til að sjá hvort ég gæti ekki haft einhver áhrif á framþróun í sveitarfélaginu.“

Helstu áhugamál Sigurjóns eru íþróttir, skotveiði og almenn útivist. „Fyrir nokkrum árum setti ég mér það markmið að hlaupa maraþon fyrir fimmtugt og kláraði ég það í Reykjavík í ágúst síðastliðnum vel undir settu tímamarkmiði, varð t.a.m. fyrstur Íslendinga í mark í flokki 50 ára og eldri. Ég hef verið í crossfit síðustu árin eftir að ég hætti að fara reglulega í fótbolta og svo hef ég mjög gaman af því að spila golf á sumrin.

Í skotveiðinni er ég aðallega í rjúpnaveiði, rölti upp fyrir þorpið og næ mér í jólamatinn. Eftir að ég fékk aðgang að bát hjá pabba hef ég farið út á fjörð með stöng og er nýbúinn að fylla allt frystipláss fyrir veturinn.“

Fjölskylda

Eiginkona Sigurjóns er Rebekka Rán Egilsdóttir, f. 6.12. 1985, umsjónarmaður verktakaþjónustu Alcoa í Evrópu. Þau eru búsett á Reyðarfirði. Foreldrar Rebekku: Drífa Óskarsdóttir, f. 8.10. 1963, sérfræðingur hjá Arion banka, búsett í Kópavogi, og Egill Halldór Egilsson, f. 7.5. 1952, d. 30.9. 2015.

Börn Sigurjóns með fyrri maka, Kristborgu Bóel Steindórsdóttur, f. 2.1. 1976, eru 1) Almar Blær Sigurjónsson, f. 2.6. 1996, leikari, búsettur í Reykjavík. Maki: Bjartey Elín Hauksdóttir dansari; 2) Bríet Sigurjónsdóttir, f. 2.12. 2002, nemi, búsett í Reykjavík. Maki: Rakel Heba Smáradóttir nemi; 3) Þór Sigurjónsson, f. 1.9. 2005, nemi, búsettur í Hafnarfirði. Synir Sigurjóns og Rebekku eru 4) Rúnar Sigurjónsson, f. 16.5. 2012, og 5) Aron Sigurjónsson, f. 22.7. 2014.

Systur Sigurjóns eru Guðrún Rúnarsdóttir, f. 7.4. 1978, sérkennslustjóri, búsett á Reyðarfirði, og Birgitta Rúnarsdóttir, f. 22.9. 1982, verkefnastjóri, búsett á Reyðarfirði.

Foreldrar Sigurjóns eru hjónin Rúnar Viðar Sigurjónsson, f. 19.6. 1949, stýrimaður, kennari og síðar yfirhafnarvörður, og Jórunn Kristín Sigurbjörnsdóttir, f. 26.8. 1952, kennari. Bæði komin á eftirlaun. Þau eru búsett á Reyðarfirði.