Þóra Sveinsdóttir
Þóra Sveinsdóttir
Þáttur tungumálsins leikur stórt hlutverk í jafnréttisþróun. Spurningin er hvort nota eigi orð sem eru til eða koma með helling af nýyrðum.

Þóra Sveinsdóttir

Ég settist til hámhorfs á Vikuna með Gísla Marteini en ég átti eftir að sjá nokkra þætti af því ágæta sjónvarpsefni. Í fréttum vikunnar rifjaði Gísli upp frétt um orðavalið í nýju heildarlögunum um áhafnir skipa sem tóku gildi um seinustu áramót. Þar er notað orðið „fiskari“ í stað „fiskimanns“. Ástæðan var sögð vera til þess að gæta kynhlutleysis og vera visst framlag í jafnréttismálum.

Jafnrétti kynjanna hefur verið baráttumál hér á landi í mörg ár og ekkert nema gott um það að segja. Margar aðferðir hafa verið reyndar til að jafna hlut kvenna og gengið misvel. Síðustu ár hafa reglulega komið hugmyndir um að breyta tungumálinu til að auka hlut kvenna og markvisst stefnt að því að orðið „maður“ tilheyri aðeins einu kyni. Íslensk tunga hefur þó notað orðið „maður“ yfir konur og karla frá örófi alda og ef konur ætla að afsala sér því tegundarheiti eru þær komnar út á hála braut. Setningar eins og „ekki nokkur lifandi maður trúir þessu“, „hverra manna er hún?“, „maður lifandi“ og að vera „gull af manni“ eiga þá bara við karla og þeir fá þessi orðatiltæki alveg gefins, pakkað inn af konum.

Um þetta skrifaði ég og tók dæmi um í grein sem birtist í Heimildinni 22.11. 2019. Í góðri trú um aukna virðingu var orðunum forkona, íþróttakona, athafnakona og afrekskona bætt við orðasafnið og starfsmenn fjölmiðlanna fóru, í óðaönn, að nota þessi nýyrði.

Sighvatur Björgvinsson fyrrverandi ráðherra birti í Morgunblaðinu 13. desember 2021 opið bréf til málfarsráðunautar RÚV og spyr „Er kona ekki maður?“ eftir að RÚV breytti heiti dagskrárliðarins „Maður ársins“ í „Manneskja ársins“. Sighvatur kom með góða punkta og benti á að „mannkyn“ innihéldi manneskjur/einstaklinga af öllum kynjum.

Eins og ég nefndi í fyrri grein minni þýðir þetta heilan helling af nýjum orðum vegna fjölda karlkynsorða í orðasafninu. Þó svo að mörg kvenkyns nafnorð gildi fyrir karlmenn eins og orðið lögregla (hún lögreglan) eða lögga (hún löggan) hefur engum dottið í hug að tala um lögreglukarl til aðgreiningar heldur bættum við –kona við þrátt fyrir að það sé hún lögreglan.

Tilraun til að stíga skref var gerð í jafnréttisbaráttunni, að mínu mati, þegar Jón Jósep Snæbjörnsson eða Jónsi í Í svörtum fötum talaði um starfsheitið „flugfreyja“ í þættinum Kappsmál 22. september sl. Þar sagðist hann vera búinn að berjast fyrir því að starfsheitið flugfreyja héldi sér, sama hvort um karl eða konu væri að ræða í því starfi. Þetta finnst mér einmitt vera málið og skref í rétta átt, svo heill þér, Jón Jósep, ekki bara stórkostleg söngrödd þarna á ferðinni. Að sjálfsögðu eigum við að halda í kvenkyns starfsheitaorðin sem til eru og algjör óþarfi að breyta þeim.

Það eru ekki orðin sjálf sem skipta máli heldur hvernig við túlkum þau. Við getum tekið sem dæmi orðið „hundur“ til skýringar. Það er til heill hellingur af orðum yfir „hund“ í heiminum. Ef við þolum ekki hunda þá skiptir ekki máli hvort við köllum þetta annars ágæta dýr „hund“, „dog“ eða „un perro“, það breytir ekki viðhorfi okkar til hundsins. Það er eitthvað annað sem þarf að breytast. Virðing kemur ekki með orðinu sjálfu heldur með viðhorfi. Viðhorf kemur svo út frá menningu, fræðslu og samstöðu.

Annað sem við þurfum að passa okkur á er að ef við ætlum að breyta endingu orða sem enda á –maður í –kona þurfum við að taka tillit til allra hinna kynjanna og bæta við –kvár o.s.frv.

Viðhorf okkar til merkingar orða þarf að breytast. Ef við ætlum að hrósa eru karldýr notuð til áhersluauka en kvendýr eru notuð í neikvæðri lýsingu. Þarna er falin vanvirðing við kvenkynið sem síðan stappast ofan í morgunmat barnanna okkar og komandi kynslóða.

Karldýrin eru gjarnan notuð sem jákvæð lýsingarorð, sem dæmi: nautsterkur og fílhraustur. Ef við tökum svo kvendýrin þá snýst þetta við og einungis neikvæðar mannlýsingar verða til eins og t.d. tík, belja og meri sem þarfnast ekki nánari útskýringar.

Ef ég segi við ykkur að ég hafi séð karl sem sé algjör boli eða naut eru allar líkur á því að þið sjáið fyrir ykkur stóran og kröftugan mann. Ef hins vegar ég segi ykkur sömu sögu en að það hafi verið kona í þetta skiptið og hún hafi verið algjör belja gerist akkúrat öfugt. Flestir ef ekki allir sjá fyrir sér ófríða, þéttvaxna og að öllum líkindum leiðinlega konu. Af hverju sjáum við ekki fyrir okkur gullfallega, skemmtilega konu með stóran barm jafnvel?

Svo komum við að því allra kvenlegasta en það eru kvenskapaorðin „tussa“ og „píka“. Hver dó og gerði það listaverk að einhverju neikvæðu? Ef við ætlum að tala virkilega illa um einhvern þá eru þessi orð notuð. Hvað á það að þýða? Þarna liggur grunnurinn að virðingarleysinu. Ef við ætlum að nota orð yfir kvensköp til lýsingar á einhverju þá endilega notið þau til að lýsa einhverju jákvæðu. Margt ungt fólk í dag veit ekki einu sinni hver upphafleg merking fyrra orðsins er.

Breytum því að kvk. sé ávallt notað í neikvæðum tilgangi – „þú hleypur eins og stelpa“ – og berum virðingu hvert fyrir öðru.

Höfundur er sjálfstætt starfandi hugbúnaðarsérfræðingur og áhugamaður um jafnrétti kynjanna.

Höf.: Þóra Sveinsdóttir